Hvað er Lútherska Heimssambandið?
Heimsþing Lútherska Heimssambandsins sem haldið hefur verið í Kraków í Póllandi 13.-19. september lýkur í dag með lokamessu.
Áður en lokamessan verður sungin munu þingfulltrúar samþykkja sameiginlega ályktun, sem kirkjan.is mun birta á næstu dögum.
En hvað er Lútherska Heimssambandið?
Í Lútherska Heimssambandinu eru 150 aðildarkirkjur frá sjö svæðum.
Í Suður- og Norður-Ameríku eru meira en helmingur kirkjuleiðtoganna konur.
Í Þýskalandi eru flestir Lútheranar í Evrópu, næstum 10 milljónir.
Norðurlöndin hafa flesta meðlimi hlutfallslega, en meðlimafjöldinn er í flestum löndunum um 70%.
Á Austur-Evrópu svæðinu eru töluð næstum 20 tungumál.
Tvær fjölmennustu kirkjurnar eru í Eþíópíu og Tanzaníu með um 20 milljón meðlimi samtals.
Meira en einn þriðji af meðlimakirkjunum kemur frá Asíu.
Kjörorð sambandsins er Frelsuð af Guðs náð, í samfélagi við Krist, vinnum við saman að réttlátum heimi í friði og sáttargjörð.
(Liberated by God´s grace, a communion in Christ, living and working together for a just, peaceful, and reconciled world).
Lútherska Heimssambandið styður fólk í neyð.
Það styður yfir þrjár milljónir manna víðs vegar um heiminn gegnum World Service sem en ein af stofnunum sambandsins.
Mannúðar- og þróunarstarfið einbeitir sér að því að tryggja lífsafkomu fólks og veita því vernd.
Barátta sambandsins fyrir réttlæti einbeitir sér að mannréttindum, kynjaréttlæti, loftslagsmálum og friði.
Lútherska Heimssambandið vinnur að þróun í guðfræðilegum málefnum.
Sambandið vill styrkja lúthersku kirkjurnar til að túlka guðfræði inn í nútíma aðstæður.
Sambandið hefur á að skipa fjölda guðfræðinga, bæði vígðum og óvígðum svo og guðfræðistúdentum sem deila af þekkingu sinni og reynslu.
Lútherska Heimssambandið styrkir kristniboð kirknanna.
Sambandið er sameinað í þeirri köllun að boða fagnaðarerindið og þjóna náunganum.
Þó aðildarkirkjurnar komi frá mjög ólíkum aðstæðum eiga þær þetta sameiginlegt.
Lútherska Heimssambandið hefur það á dagskrá sinni að valdefla ungt fólk og sérstaklega konur til leiðtogastarfa í heiminum.
Lútherska Heimssambandið vinnur að einingu.
Sambandið leggur sig fram um að eiga samtal við aðrar kirkjudeildir og hjálpa fólki í neyð.
Að vera lútherskur er að vera samkirkjulegur.
Sambandið tekur þátt í alþjóðlegu samtali við aðrar kirkudeildir og býður öðrum trúarbrögðum vinarhönd sína.
Lútherska Heimssambandið eru alheimssamtök kirkna sem vinna saman að friði og sáttargjörð, sem byggir á lútherskri hefð.
Sambandið vill þannig setja kristna trú á oddinn með mannúðarstarfi, vitnisburði og samtali.
slg