Sóknarprestsskipti

29. september 2023

Sóknarprestsskipti

Sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir

Nýtt prestakall, Fossvogsprestakall var stofnað fyrir fjórum árum þegar Bústaðaprestakall og Grensásprestakall voru sameinuð.

Þá var ákveðið að þrír prestar skyldu þjóna sóknunum tveimur, í stað tveggja sóknarpresta á sitt hvorum staðnum áður.

Prestar sem þjóna innan Þjóðkirkjunnar eru í ráðningasambandi við Biskup Íslands fyrir hönd Þjóðkirkjunnar en fulltrúar safnaðanna velja prestana.

Við hlið sitjandi sóknarprests voru ráðnar þær sr. María Guðrúnar Ágústsdóttir, sem hafði þjónað Grensássöfnuði frá haustinu 2017 og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir.

Þegar sr. Pálmi Matthíasson sóknarprestur lét af störfum haustið 2021 var sr. Þorvaldur Víðisson ráðinn til starfa og skyldi hann gegna þjónustu sóknarprests fyrstu tvö árin á grundvelli nýrrar sýnar á sóknarprestsstarfið í Fossvogsprestakalli.

Í meginatriðum felst sú sýn í því að verkefni sóknarprests „róteri“ á milli prestanna þriggja sem ráðnir eru til starfa.

Samkvæmt því fyrirkomulagi tekur sr. María við keflinu núna 1. október og afhendir það sr. Evu Björk að tveimur árum liðnum.

Af þessu tilefni skrifaði sr. María grein í hverfisblaðið þar sem hún segir:

„Verður þessum tímamótum heilsað í messum í báðum kirkjum nú á haustdögum.“

Sr. María segir að „saga safnaðanna sé í stuttu máli sú að í ágúst árið 1963 voru auglýst til umsóknar nokkur prestaköll í Reykjavík.

Meðal þeirra voru Grensásprestakall og Bústaðaprestakall sem var reyndar stofnað síðla árs 1952 og náði þá yfir mun stærra svæði, Kópavog, Breiðholt, Ártúnsholt og Elliðaárdal að auki.

Þessu var breytt með nýju fyrirkomulagi fyrir 60 árum og því má segja að þessir tveir söfnuðir, Grensássöfnuður og Bústaðasöfnuður, fagni báðir sextugsafmælinu sínu um þessar mundir.

Prestaköllin tvö voru sameinuð að nýju haustið 2019 undir heitinu Fossvogsprestakall.

Sóknirnar, söfnuðirnir, með sínum kirkjum, starfa áfram sem sjálfstæðar einingar, en í miklu og vaxandi samstarfi.“

Hvað gerir sóknarprestur?

Sr. María segir að „þau sem gegna þjónustu prests eru öll jöfn í störfum sínum, þó einu þeirra sé falið að vera í forystu um að móta starfið þennan tiltekna tíma.

Sóknarprestur er sem sagt ekki yfirmaður annarra presta í sama prestakalli og heldur ekki starfsfólks og sjálfboðaliða sóknanna.

En sóknarpresti er falið ákveðið forystuhlutverk sem snýr að samstarfi, upplýsingagjöf, yfirsýn og frumkvæði, svo nokkuð sé nefnt.

Samstarf presta við sóknarnefndir er til dæmis mikilvægt og hefur sóknarprestur sérstakar skyldur í því samhengi, meðal annars þegar kemur að ráðningum og starfslýsingum starfsfólks sóknarnefndanna.

Sóknarprestur hefur þannig forystu um mótun og skipulag starfsins í sóknum prestakallsins en ávallt í samráði við hina prestana, sem og djákna, framkvæmdastjóra, kirkjuverði, organista og annað starfsfólk sóknanna.

Prestar Fossvogsprestakalls hafa gert með sér samning um verkaskiptingu undir leiðsögn prófasts og er sá samningur ávallt opinn til umræðu og endurskoðunar þegar þurfa þykir.

Þar er haft að leiðarljósi að hæfileikar og styrkleikar prestanna ásamt hæfni og reynslu á ákveðnum sviðum fái að njóta sín.“

Hvers vegna þetta fyrirkomulag?

„Þetta fyrirkomulag er hugsað til þess að efla enn betur liðsheild presta, djákna, tónlistarfólks og annars starfsfólks í Fossvogsprestakalli, að ógleymdum sjálfboðaliðum safnaðanna í sóknarnefndum, messuhópum, eldriborgarastarfinu, tólfsporastarfinu o.fl.

Það veitir ákveðið aðhald að láta forystuhlutverkið ganga, skerpir þörfina fyrir samráð og verkaskiptingu og minnkar líkur á kulnun og því að festast í sama farinu til lengri tíma litið.

Nú eru nýir tímar í skipulagi Þjóðkirkjunnar.

Prestar eru ekki lengur embættismenn ríkisins og heyra því ekki lengur undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Með þessu fyrirkomulagi vilja prestar Fossvogsprestakalls taka þátt í að móta nýja ásýnd prestsþjónustunnar sem byggir á jafningjagrundvelli þjónustunnar við söfnuðina í stað æviráðningar embættismanns.

Sóknarprestsþjónustan er þá hugsuð til að veita forystu um ákveðinn tíma og halda utan um stefnumótun í nánu samráði við hina prestana og annað starfsfólk.

Þannig viljum við vinna saman að því að láta ferska vinda blása um fyrirkomulag þjónustunnar í söfnuðunum, okkur öllum til gagns og gleði.“

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Starf

  • Biskup

  • Prófastur

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi