Kirkjutónlistarráðstefna í Skálholti

5. október 2023

Kirkjutónlistarráðstefna í Skálholti

Evrópsku kirkjutónlistarsamtökin  European Conference for Protestantic Church Music héldu árlega ráðstefnu sína í Skálholti dagana 21.-25. september síðastliðinn.

Það eru rúmlega 40 kirkjulegar stofnanir í 20 löndum sem eiga aðild að samtökunum og hafa þau starfað í rúm 20 ár.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar er fulltrúi Íslands í samtökunum og Margrét Bóasdóttir, fráfarandi söngmálastjóri hafði skipulagt ráðstefnuna með stjórn samtakanna.

Þátttakan var sérlega góð og voru 48 fulltrúar, fyrirlesarar og gestir mættir til landsins.

Ráðstefnan hófst með setningu í Hallgrímskirkju þar sem biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir ávarpaði gesti, og einnig formaður samtakanna, Hans Christian Hein frá Danmörku og Guðný Einarsdóttir nýráðinn söngmálastjóri.

Kári Þormar lék á orgel kirkjunnar og viðstaddir sungu sálm á þýsku úr nýju sálmabókinni.

Síðan var kvöldverðarboð í Biskupsgarði áður en haldið var í Skálholt.

Ráðstefnur samtakanna eru í Strasbourg, en annað hvert ár í einu aðildarlandanna og er þá markmiðið að kynna tónlist og tónlistarstarf þeirrar kirkju.

Tungumál ráðstefnunnar er þýska en enska í undantekningartilfellum.

Í Skálholti fluttu fyrirlestra sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti, dr. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og Margrét Bóasdóttir.

Umfjöllunarefnin voru hin íslenska kirkja frá árinu 1000, trú og tónlist í Skálholti í 800 ár, söngur og útgáfa eftir siðaskipti og staða kirkjutónlistarinnar í samtímanum.

Erindin vöktu mikinn áhuga og fjölþættar fyrirspurnir.

Skálholtskórinn og Jón Bjarnason organisti fluttu íslensk kórverk og orgelverk eftir J.S. Bach á kvöldtónleikum og allur hópurinn tók þátt í messu sunnudagsins í Skálholtskirkju og söng bæði íslenska sálma og styttri verk sem fulltrúar aðildarlandanna höfðu kynnt á ráðstefnunni.

Hópurinn fór í sögugöngu um staðinn, að Gullfossi og Geysi, á Þingvöll og í Friðheima og síðasta daginn í ferð um suðurströnd landsins undir leiðsögn Margrétar.

Að sögn Margrétar Bóasdóttur var allur aðbúnaður í Skálholti var til fyrirmyndar og það voru þakklátir ráðstefnugestir sem kvöddu og deildu fjölbreyttu myndefni af staðnum, landslagi og dagskrá á samfélagsmiðlum.


slg



Myndir með frétt

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Alþjóðastarf

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls