Skemmtilegar orgelkynningar fyrir börn víða um land
Síðustu daga hafa farið fram ýmsar uppákomur fyrir börn þar sem kynnt hefur verið eitt aðalhljóðfæri kirkjunnar, sem er orgelið.
Í Keflavíkurkirkju flutti Friðrik Vignir Stefánsson,sem er organisti við Seltjarnarneskirkju dagskrá sem hann kallar Bach fyrir börnin.
Nú fer fram í Keflavíkurkirkju orgeltónleikaröðin Orgóber í október.
Á Austfjörðum voru Orgelkrakkar á ferð milli fjarða með orgelvinnusmiðju í skólum og kirkjum á öllum þéttbýlisstöðum Austfjarða.
Einnig voru haldnir tónleikar bæði í Norðfjarðarkirkju, Egilsstaðakirkju og Seyðisfjarðarkirkju.
Orgelkrakkaverkefnið er skipulagt af þeim Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur organista í Akureyrarkirkju og Guðnýju Einarsdóttur söngmálastjóra þjóðkirkjunnar í samvinnu við starfsfólk kirknanna á hverjum stað.
„Það er mikilvægt að gleyma ekki hversu skemmtileg sérstaða kirkjunnar og hefð hennar getur verið.
Glöggt má sjá á þessum skemmtilegu myndum hvað bæði börn og foreldrar skemmta sér vel og sýna áhuga á þessu stórmerka hljóðfæri sem orgelið er“
segir Guðný Einarsdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.
slg