Ályktanir Leikmannastefnu

17. október 2023

Ályktanir Leikmannastefnu

Frá Leikmannastefnu

Leikmannastefna þjóðkirkjunnar var haldin síðast liðinn laugardag.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, leiddi helgistund í kirkju og setti síðan Leikmannastefnuna.

Ágúst Victorsson er formaður Leikmannaráðs og flutti hann skýrslu ráðsins.

Að lokinni skýrslunni tók biskup Íslands til máls og sagði að samkvæmt starfsreglum hefði Leikmannastefna það hlutverk að vera vettvangur og málsvari sókna og safnaða, og það væri gott að fá fræðslu um þessi mál, en þau voru einmitt á dagskrá stefnunnar.

Miklar umræður voru um framtíð Leikmannastefnu og Sóknarsambandsins, aðallega um hvort sameina ætti þessar tvær stofnanir kirkjunnar.

Varðandi það sýndist sitt hverjum, en rætt var um kosti og galla þess að sameinast.

Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings sagði það afar mikilvægt að leikmenn hittist og láti í sér heyra, í hvaða mynd væri ekki aðalatriðið, heldur það að fleiri komi saman og ræði málin.

Drífa benti á að hvaða leið sem yrði farin og hvað kæmi út úr þessum fundi, þá yrði því örugglega komið áfram til kirkjuþings.

Í kjölfar þessara umræðna var samþykkt eftirfarandi ályktun.

Leikmannastefna Þjóðkirkjunnar 2023, haldin laugardaginn 14. október í Grensáskirkju, samþykkir eftirfarandi tillögu:

"Starfsemi Leikmannastefnu verði endurskoðuð með það að markmiði að vera vörn og vígi sókna og safnaða í Þjóðkirkjunni, bæði gagnvart ríkisvaldinu sem og kirkjustjórninni.

Lagt er til að kjörin verði fimm manna starfshópur, þar af þrír af hálfu Leikmannastefnu og tveir frá Sóknarsambandi, sem undirbúi stofnun slíks félags/samtaka.

Það leysi af hólmi bæði Sóknasambandið og Leikmannastefnuna.

Starfshópurinn semji drög að starfsreglum um félagið og sendi til forsætisnefndar kirkjuþings, með ósk um að flutt verði tillaga á kirkjuþingi um málið.“

Tillagan var samþykkt.

Frá Sóknarsambandinu munu Stefán Magnússon og Steindór Haraldsson sitja í þessari nefnd.

Samþykkt var einnig að Ágúst Victorsson, Áslaug Kristjánsdóttir og Kristín Bjarnadóttir sitji í þessari nefnd frá Leikmannastefnu.

Auk þessa var þessi tillaga lögð fram:

 

Ályktun frá Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar sem haldin var í Grensáskirkju, laugardaginn 14. október 2023:

„Fulltrúar á Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar 2023, haldin laugardaginn 14. október í Grensáskirkju, mótmæla þeim niðurskurði á sóknargjöldum, sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi 2024.

Við förum fram á að þetta verði leiðrétt og hækkað að lágmarki samkvæmt vísitölu í umfjöllun Alþingis.

Þessi niðurskurður kemur harkalega niður á allri starfsemi í öllum sóknum landsins, sem eru um 262 talsins.“

Fundarstjóri bar tillöguna upp sem var samþykkt samhljóða.

Í næstu viku fara fulltrúar kirkjunnar á fund þar sem þeir munu leggja fram þessa ályktun.

Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings sagðist mjög gjarnan vilja segja frá því á komandi fundi með ráðherra hvað það væru margar sóknir í landinu og hversu margar geta varla greitt rafmagnsreikninginn, en eru samt að varðveita menningarminjar.

Að loknum þessum umræðum var kynning á Hjálparstarfi kirkjunnar og Kristniboðssambandinu.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar og Helga Vilborg Sigurjónsdóttir verkefnastjóri frá Kristniboðssambandinu kynntu starfsemina.

slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Fundur

  • Hjálparstarf

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Þjóðkirkjan

  • Ályktun

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi