Æskulýðssamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu stofnað

25. október 2023

Æskulýðssamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu stofnað

Fimmtudaginn 19. október fór fram stofnfundur á nýju æskulýðssambandi, í Breiðholtskirkju.

Hið nýstofnaða æskulýðssamband heitir Æskulýðssamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu og er skammstafað ÆSKH.

Markmið sambandsins er að efla æskulýðsstarf í Kjós, á Kjalarnesi, í Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Suðurnesjum.

Sóknir í þremur stærstu prófastsdæmum landsins, eru 36 sem undirstrikar mikilvægi ÆSKH fyrir þetta fjölmenna landssvæði.

Prófastur Kjalarnesprófastsdæmis sr. Hans Guðberg Alfreðsson var fundarstjóri og Daníel Ágúst Gautason, sem þá var djákni í Fossvogsprestakalli, en nú æskulýðsprestur í sama prestakalli var ritari.

Fundargestir voru kirkjustarfsfólk úr öllum áttum.

Að sögn Boga Benediktssonar sem kosinn var formaður sambandsins á fundinum „er tilgangur æskulýðssambandsins að standa fyrir alls konar viðburðum, sem snúa að kristilegu æskulýðsstarfi eins og æskulýðsmótum, námskeiðum, ferðum ýmis konar og einnig eflingu samstarfs aðildarfélaga, svo dæmi séu tekin.“

Á stofnfundunum var farið yfir ný lög sambandsins og þau borin upp til samþykktar.

„Góðar umræður áttu sér stað og má með sanni segja að fundurinn hafi heppnast vel í alla staði“ segir Bogi.

Kosið var í stjórn ÆSKH, sem samanstendur af fimm aðalmönnum og þremur varamönnum.

Bogi Benediktsson var kosinn formaður, Elín Salbjörg Agnarsdóttir ritari, Gunnfríður Katrín Tómasdóttir gjaldkeri, Herdís B. Helgadóttir og Sigurður Óli Karlsson meðstjórnaendur.

Til vara voru kosnar Jóna Þórdís Eggertsdóttir, Margrét Heba Atladóttir og Steinunn Anna Baldvinsdóttir.

Bogi sagði að „ástæðan fyrir stofnun sambandsins sé hluti af framtíðarsýn Þjóðkirkjunnar í æskulýðsmálum.

Þau sem stóðu að undirbúningi nýs æskulýðssambands voru fulltrúar frá ÆSKK, ÆSKR og ÆSKÞ auk svæðisstjóra æskulýðsmála Önnu Elísabetar Gestsdóttur djákna og  sr. Stefáns Más Gunnlaugssonar héraðsprests í Kjalarnesprófastsdæmi. 

Megináhersla hópsins var að setja saman viðburði, sem ÆSKK og ÆSKR hafa staðið fyrir undanfarin ár og hafa gefist vel.

Mun því hið nýstofnaða æskulýðssamband, ásamt svæðisstjóra æskulýðsmála, halda áfram að byggja á þeim viðburðum og einnig stofna og efla nýja viðburði í takt við sýn og gildi Þjóðkirkjunnar.

„Það er því óhætt að segja að sóknarfærin í æskulýðsmálum Þjóðkirkjunnar séu fjölbreytileg og stútfull af mannauði sem Þjóðkirkjan er svo sannarlega stolt af“ segir Bogi.

Undirbúningshópurinn fundaði nokkrum sinnum í vor og afraksturinn var síðan kynntur fyrir próföstunum.

Að endingu var æskulýðssambandið kynnt á Innandyranámskeiði æskulýðsleiðtoga þann 25. september s.l.

Frá áramótum 2023 var ráðið í nýja stöðu svæðisstjóra æskulýðsmála fyrir Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og Kjalarnesprófastsdæmi.

Megináhersla nýs svæðisstjóra er að vera með styðjandi ráðgjöf fyrir prófastsdæmin.

Með stofnun nýs æskulýðssambands er lögð áhersla á að efla tengslin enn frekar við æskulýðsviðburði og æskulýðsfulltrúa kirknanna á svæðinu.

Ný stjórn ÆSKH og nýr svæðisstjóri æskulýðsmála munu því vera í nánu samstarfi til að hlúa að framtíðarsýn Þjóðkirkjunnar í æskulýðsmálum.

Að lokum sagði Bogi: „við erum alsæl og hlökkum til að starfa saman og halda áfram að standa vörð um dýrmæta æsku Þjóðkirkjunnar."

Hér fyrir neðan má sjá mynd að nýkjörnum formanni í ræðustól og mynd af fundarfólki.

Fremst sitja prófastarnir sr. Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi og sr. Bryndís Malla Elídóttir prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

 

slg



Myndir með frétt

  • Fundur

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Æskulýðsmál

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi