Kirkjulistavika í Kjalarnesprófastsdæmi

26. október 2023

Kirkjulistavika í Kjalarnesprófastsdæmi

Í næstu viku fer fram kirkjulistavika í söfnuðum Kjalarnesprófastsdæmis.

Fjölbreyttir viðburðir; leiksýning, tónleikar, málverkasýning, listasmiðjur, orgelbíó og margt fleira verður á dagskránni.

Kirkjulistavikan fer fram 29. október – 5. nóvember.

Hún fer fram með þeim hætti að samstarfssvæðin taka sig saman og standa fyrir viðburðum, sýningum og tónleikum alla vikuna.

Einnig verður listum og menningu gerð góð skil í guðsþjónustum við upphaf vikunnar þann 28. október.

Þema vikunnar er sótt í Sálm 8:2:

Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn“ sem fjallar um Guð sem breiðir út ljóma sinn með því að skapa og gefa líf og þrá mannsins eftir því að næra og blómga fagurt mannlíf.

Það tengist jafnframt allra heilagra messu sem er lokadagur menningarviku Kjalarnessprófastsdæmis, dagur sem er helgaður minningu látinna ástvina, sem eru eins og ljós á vegferð okkar í gegnum lífið og til vitnisburðar um kærleika og ljóma Guðs.

Markmið vikunnar er að minna á Guðs góðu sköpun sem birtir ljóma Guðs og minna á mennigararf kirkjunnar.

Tónlist, kórastarf, myndlist og margvíslegt annað lista- og menningarstarf hefur verið áberandi í kirkjunni um aldir.

Tilgangurinn með kirkjulistahátíðinni er að styðja við og efla tengsl kirkju og listar með fjölbreyttum hætti.

Starfshópur er starfandi sem heldur utan um undirbúninginn, en í honum eiga sæti Jóhann Baldvinsson, Arnór B. Vilbergsson, sr. Arna Grétarsdóttir og Soffía Sæmundsdóttir.

Þau hafa einnig verið reiðubúin að aðstoða söfnuði við að setja saman dagskrá og finna viðburði.

 

Sunnudaginn 29. október klukkan 11:00 verður listasmiðjan Skapandi hendur mála lifandi steina með Söru Vilbergsdóttur í Hafnarfjarðarkirkju.

Klukkan 12:15 verður leikverkið Ef ég gleymi í flutningi Sigrúnar Waage flutt í Vídalínskirkju.

Klukkan 16:00 sama dag verður leiðsögn með Gunnari Júlíussyni um steinda glugga Bessastaðakirkju.

 

Mánudaginn 30. október kl. 19:00 verður opin æfing kirkjukórsins í Ytri- Njarðvíkurkirkju.

Klukkan 20:00 sama kvöld eru tónleikar karlakórs Keflavíkur í Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Þennan sama dag klukkan 16:30 syngur Barnakórinn fyrir gesti og gangandi í Kjarnanum í Mosfellsbæ.

 

Þriðjudaginn 31. október klukkan 17:00–19:00 er Grikk eða gott?

Opið hús á hrekkjavökunni í Safnaðarheimili Lágafellskirkju.

 

Miðvikudaginn 1. nóvember klukkan 17:00 verða Biblíusögur fyrir fullorðna í Keflavíkurkirkju.

Þá mun Aðalsteinn Ingólfsson fjalla um helgimyndir Keflavíkurkirkju.

Þennan sama dag klukkan 17:00–18:00 verður málverkasýning í Hafnarfjarðarkirkju.

Sr. Sighvatur Karlsson kynnir málverk sín.

 

Fimmtudaginn 2. nóvember verður listaferð um trúartáknin í kirkjum Suðurnesjabæjar.

Lagt verður af stað frá Útskálakirkju kl. 17:00.

Klukkan 19:00 sama kvöld er opin kóræfing í Sandgerðiskirkju.

Þennan sama dag klukkan 14:00–16:00 mun Helga Möller syngja valin lög á samveru með eldri borgurum í Safnaðarheimili Lágafellskirkju.

 

Föstudaginn 3. nóvember klukkan 20:00 verða tónleikarnir Hvert örstutt spor  í Lágafellskirkju.

Á þessum tónleikum munu GDRN og Magnús Jóhann flytja lög af plötunni Tíu íslensk sönglög.

Þann sama dag klukkan 16:00 verða lög og ljóð Sigfúsar Halldórssonar flutt af Gerði Bolladóttir og Einari Bjarti Egilssyni í Ástjarnarkirkju.

Klukkan 18:30 sama dag er dagskrá í Víðistaðakirkju, sem nefnist Kór og kótilettur. Kirkjukórinn syngur og fram verður borin kótilettumáltíð.

Laugardaginn 4. nóvember klukkan 20:00 verður orgelbíó í Grindavíkurkirkju.

The Kid eftir Chaplin verður sýnd á stóru tjaldi við lifandi orgelundirspil.

Sama dag þann 4. nóvember verður heimsókn á glerverkstæði Sigrúnar Einarsdóttur og ný skírnarskál við útialtarið skoðuð.

Þessi viðburður verður milli klukkan 11:00 og 13:00 í Bergvík á Kjalarnesi.

Sama dag klukkan 11:00 verður Kertasmiðja Ísabellu fyrir fjölskyldur í Víðistaðakirkju.

Klukkan 13:00–16:00 sama dag verður listasmiðja fyrir fjölskyldur og kaffiveitingar í Félagsgarði í Kjós.

Sunnudaginn 5. nóvember klukkan 14:00–17:00 verður opin kirkja við kertaljós og tónlist á Reynivöllum í Kjós og Brautarholti á Kjalarnesi.

Ítarlegri og uppfærða dagskrá má finna á vef Kjalarnesprófastsdæmis og á vefjum safnaðanna.

 

slg


  • Eldri borgarar

  • Fræðsla

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Biblían

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi