Setning kirkjuþings í Grensáskirkju

28. október 2023

Setning kirkjuþings í Grensáskirkju

Forseti kirkjuþings, biskup Íslands og dómsmálaráðherra

Kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju var sett í Grensáskirkju í morgun 28. október 2023.

Athöfnin hófst með helgistund í umsjá biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur.

Þá flutti forseti kirkjuþings Drífa Hjartardóttir ávarp og setti kirkjuþingið formlega.

Eftir setninguna söng Hallveig Rúnarsdóttir tvö lög.

Meðleikari hennar var Hrönn Þráinsdóttir.

Þá flutti dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir ávarp og Hallveig og Hrönn fluttu tvö lög að nýju.

Þá flutti biskup Íslands ávarp.

Sagði hún í upphafi frá upplifun sinni af kvennafrínu 1975 þegar hún var að hefja nám við guðfræðideild Háskóla Íslands og aftur frá upplifun sinni af kvennaverkfallinu í vikunni sem leið.

Velti hún fyrir sér muninum á stöðu kvenna í dag og fyrir 48 árum.

Niðurstaða hennar af þeim vangaveltum var sú að fullu jafnrétti hafi ekki verið náð.

„Það er ekki komið eins fram við karla og konur og á meðan það er ekki, er jafnrétti ekki náð“ sagði frú Agnes.

Síðan vék hún að þeim breytingum sem gerðar hafa verið á yfirstjórn kirkjunnar síðan lögum um þjóðkirkjuna var breytt fyrir tveimur árum.

Þakkaði hún starfsfólki Þjónustumiðstöðvar kirkjunnar fyrir vinnuna alla og þrautseigjuna sem þau hafa sýnt á þessu erfiða tímabili.

Og hún hélt áfram:

„Þjóðkirkjan okkar er ekki eyland.

Þjóðkirkjan er stofnfélagi Lútherska heimssambandsins og Alkirkjuráðsins, hún er í sambandi evrópskra kirkna og þátttakandi í Porvoo samstarfinu.

Við verðum því að líta til markmiða og samþykkta þessara samtaka þegar ákvarðanir eru teknar innan kirkjunnar til dæmis á kirkjuþinginu.

Það er meðal annars þess vegna sem menntaðir guðfræðingar eru fulltrúar á kirkjuþinginu ásamt leikmönnum sem hafa víðtæka menntun og reynslu.

Ákvarðanir sem teknar eru af okkur eru ekki Guðs lög heldur manna lög.

Þess vegna má breyta þeim, bæta þau og jafnvel afnema þau ef þau eru ekki að gagnast erindi hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju.“

Því næst vék biskup Íslands að 13. Heimsþingi Lútherska heimssambandsins sem haldið var í Kraków í Póllandi í haust.

Sagði hún mikilvægt að við kynntum okkur hvað Lútherska heimssambandið er, sem hægt er að gera á kirkjan.is

Minnti hún á að kirkjuþing hafi samþykkt þingmál sem beinlínis eiga rætur sínar í aðild þjóðkirkjunnar að sambandinu, stefnu þess og samþykktum.

“Má þar nefna þingsályktun um hlutdeild unga fólksins í kirkjustarfi og stjórnum þjóðkirkjunnar og þingsályktun um jöfn hlutföll kynja í stjórnum, nefndum og ráðum innan þjóðkirkjunnar.

13. heimsþing Lúterska heimssambandsins í Kraków bar yfirskriftina “einn líkami, einn andi, ein von" og bar ályktun þingsins sem samþykkt var í lok þess þessari yfirskrift vitni.

Það var okkur fulltrúunum sem sóttum þingið fyrir hönd þjóðkirkjunnar til mikillar gleði þegar fulltrúi okkar sr. dr. Arnfríður Guðmundsdóttir var kosin varaforseti Lútherska heimssambandsins fyrir Norðurlöndin en hvert svæði sambandsins á sinn varaforseta.

Það er mikill heiður fyrir okkar kirkju að eiga varaforseta í stjórninni en það er í fyrsta sinn sem svo er.“

Óskaði hún Arnfríði til hamingju með kosninguna og bað henni blessunar í stjórnarstörfunum.

Þvínæst vék biskup að samkirkjulegu og samtrúarlegu starfi.

Benti hún á að við búum ekki lengur í einsleitu þjóðfélagi.

“Samtal, samstarf og samheldni er nauðsynleg.

Í sóknum landsins býr fólk sem ekki er fætt hér á landi, fólk sem hefur alist upp við aðstæður ólíkar okkar.

Þjóðkirkjan þjónar öllum eins og við vitum og spyr ekki um trúfélagsaðild.

Alþjóðlegur söfnuður starfar í Breiðholtskirkju í Reykjavík og í honum fjölgar hratt.

Það er ein af áskorunum þjóðkirkju nútímans að bregðast við þessari breyttu þjóðfélagsgerð.“

Að því loknu vék biskup Íslands að þeirri sorglegu staðreynd að upp hefur komist að sr. Friðrik Friðriksson stofnandi KFUM og KFUK fór yfir mörk drengja hér á árum áður.

Sagði hún orðrétt:

„Hann var vígður prestur til þjónustu á Laugarnesspítala árið 1900.

Hann þjónaði í afleysingum nokkrum sinnum í sóknum landsins en hans aðalstarf var að vera framkvæmdastjóri KFUM og KFUK sem hann stofnaði.

Það er hræðilegt til þess að vita að hann hafi farið yfir mörk ungra drengja sem hafa borið harm í hljóði og sár á sálinni allar götur síðan.

Nú er mikilvægt að KFUM og KFUK hlusti á þessar sögur, viðurkenni þær og safni þeim saman skipulega.

Í framhaldinu er mikilvægt að vinna með þessar sögur þannig að úrvinnsla verði.

Það er sú leið sem ég hef lagt áherslu á sem leiðtogi þjóðkirkjunnar í þessum málaflokki.

Við biðjum góðan Guð að græða sárin þeirra og hjálpa þeim að vinna úr sínum málum með hjálp fagaðila.

Einnig biðjum við góðan Guð um að leiða til bata og farsæls lífs öll þau er orðið hafa fyrir ofbeldi af hvers konar tagi.

Megi öruggt, frábært og faglegt starf KFUM og KFUK halda áfram til blessunar öllum þeim sem njóta og koma að starfi félaganna sem og Vals og Hauka sem sr. Friðrik stofnaði.

Þjóðkirkjan tekur alvarlega þegar tilkynnt er um ofbeldisbrot og hefur kirkjuþing samþykkt starfsreglur um “aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar” eins og kunnugt er.“

Að lokum vék biskup Íslands að framtíðarsýn kirkjunnar.

Lokaorð hennar voru þessi:

„Þjóðkirkjan á sér framtíð því hvernig sem okkur tekst til þá er framtíð þjóðkirkjunnar í Guðs hendi.

Hendur Guðs í þessum heimi eru okkar hendur.

Guð mun senda trúa þjóna sína til að leiða hana og fara með stjórn hennar.

Um það er ég fullviss.

Í krafti þeirrar trúar bið ég kirkjuþinginu farsældar í störfum sínum.“

Í setningarræðu sinni bauð forseti kirkjuþings Drífa Hjartardóttir þingfulltrúa og gesti velkomna við setningu 65. kirkjuþings þjóðkirkjunnar.

Hóf hún mál sitt á að þakka fyrir nýju sálmabókina og vitnaði í sálm númer 740 eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson.

Minnti hún á að kirkjuþingsfólk væri fulltrúar yfir 200 þúsund þjóðkirkjufólks á öllu landinu.

„Það er í raun afar merkileg staðreynd að það eru söfnuðirnir í landinu sem eiga og reka kirkjurnar, viðhalda þeim og bera ábyrgð á þeim miklu listaverkum sem kirkjurnar hafa að geyma“ sagði Drífa.

Þá ræddi hún um hið afar fjölbreytta kirkjustarf sem unnið er um allt land fyrir alla aldurshópa.

„Kirkjan er lifandi samfélag, sem er til staðar í gleði og sorg.“

Þá ræddi forseti um hinar miklu endurbætur sem hafa verið gerðar á Skálholtsdómkirkju og listaverkum kirkjunnar í tilefni af 60 ára afmælis dómkirkjunnar.

Gert var við gluggana eftir Gerði Helgadóttur, altaristöfluna eftir Nínu Tryggvadóttur og kirkjan fékk nýja kirkjuklukku."

Þá vék hún að trúarbragðafræðslu í landinu.

Frumvarp hefur verið lagt fram um breytingar á lögum um grunnskóla.

Forseti fagnaði þessari tillögu.

Orðrétt sagði hún:

„Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og ætti að vera leið til umburðarlyndis.

Sem siðfræði er trúarbragðafræðsla mikilvæg.“

Að því loknu ræddi hún um samninginn sem gerður var við ríkið árið 2019 og þær skipulagsbreytingar sem orðið hafa á undanförnum rúmlega tveimur árum.

Rakti hún sögu þessara breytinga alveg frá lokum síðustu aldar.

Meginþættir viðbótarsamningsins var einföldun löggjafar um kirkjuna og aukin ábyrgð kirkjuþings.

Það gerðist með setningu nýrra laga um þjóðkirkjuna sem tóku gildi 1. júlí árið 2021 og þá fékk kirkjuþing fjárstjórnarvald.

Hún árétti að „biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um, skal gæta einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.“

Minnti hún á að kirkjan hefur nú úr tiltekinni fjárhæð að spila og verður að veita fjárheimildir í samræmi við það.

Samkvæmt starfsreglum um þingsköp kirkjuþings ber forseti kirkjuþings ábyrgð á starfsemi og rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess.

Að lokum sagði forseti kirkjuþings:

„Allt útlit er fyrir að það náist jafnvægi í rekstrinum, jafnvel á þessu ári.

Mikilvægt er að það verði myndaður varasjóður til að mæta óvæntum útgjöldum.

En þó skipulag, löggjöf og stjórn peningamála séu allt mikilvæg atriði, skiptir mestu máli að kirkjan haldi áfram að vera lifandi samfélag, til staðar í gleði og sorg.“

Að lokum sagði hún 65 kirkjuþing 2023-2024 sett.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra flutti síðan ávarp.

Hóf hún mál sitt á því að ræða um uppeldi sitt innan þjóðkirkjunnar í Hveragerði þar sem hún sótti sunnudagsskóla öll sín grunnskólaár.

Var það skoðun hennar að kristin gildi og uppfræðsla um trúarbrögð væri mikilvæg í okkar samfélagi.

Hún sagði orðrétt:

„Að vera hluti af kirkju er að eiga samfélag og ég hef átt þetta samfélag.

Ég hef átt þetta samfélag alla ævi og það hefur skipt mig máli.

Það hefur skipt mig máli að tilheyra og eiga hlutdeild í kristnum gildum sem við öll sem hér erum höfum sammælst um að séu okkar gildi í lífinu.

Það er hverri manneskju mikilvægt að tilheyra.

Í bleikri messu í kirkjunni minni, Hveragerðiskirkju, um síðustu helgi minntum við okkur á að enginn fer einn í gegnum lífið og í alvarlegum áföllum eins og veikindum og missi, en einnig í gleði og kærleika, er gott að eiga það samfélag sem kirkjan okkar er.

Að fá tækifæri til að fylgja samfélagi kirkjunnar frá vöggu til grafar er einstakt.“

Nefndi hún auk þess mikilvægi kirkjunnar og prestanna þegar samfélög ganga í gegnum áföll eins og gerðist á Dalvík í desember 2019.

Orðrétt sagði hún:

„Hún (presturinn) fylgdist með störfum björgunarsveitarmanna, bæjaryfirvalda og annarra á meðan krísuástandið varði og stuðlaði á sinn hátt að gera tilveru fólksins andlega bærilegri en ella.

Björgunarsveitarfólkið fékk styrk af nærveru nýja prestsins og kunni afar vel að meta liðveisluna og íbúar byggðarlagsins yfirleitt þegar þetta spurðist út.

Presturinn færði þannig mátt kirkjunnar til fólksins þegar það þurfti á styrk og stuðningi að halda og þessa framtaks minnist fólk í byggðarlaginu enn þann dag í dag með hlýju og virðingu.

Þetta er það sem kirkjan okkar stendur fyrir, að mæta fólki í öllum aðstæðum."

Að loknum þessum persónulega inngangi ræddi ráðherra málefni kirkjunnar, sem heyra undir dómsmálaráðuneytið þó með allt öðrum hætti sé en áður.

„Með Kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og viðbótarsamningi frá 1998 var mörkuð sú skylda ríkisins til að greiða þjóðkirkjunni fjárhæð sem samsvarar árslaunum ákveðins starfsmannahóps kirkjunnar.

Samningarnir voru undirritaðir af fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra og var skyldan til að efna þá lögfest með eldri lögum um þjóðkirkjuna frá 1997.

Fram til ársins 2010 efndi ríkið þetta samkomulag að fullu en frá því ári hafa framlög ríkisins verið skorin niður með því að setja árlega lögfesta bráðabirgðarákvæði þess efnis.

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var framlagið samkvæmt Kirkjujarðasamkomulaginu skert enn frekar auk þess sem sóknargjöld voru einnig skert með bráðabirgðaákvæðum við fjárlög hverju sinni.“

Og því bætti hún við:

„Ég hef í því skyni ákveðið að setja af stað vinnu með það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag sóknargjalda til frambúðar og sem tryggir fjárhagslegt öryggi og þar með sjálfstæði kirkjunnar.“

Sagði ráðherra að viðfangsefni kirkjunnar væru mörg og sum hafa orðið til vegna þeirra umbrota sem óhjákvæmilega fylgja miklum breytingum með nýlegum lögum um stöðu þjóðkirkjunnar og tengslum hennar og ríkisins, um yfirstjórn kirkjunnar og starfsháttum.

Hvatti hún kirkjuþing til hreinskiptinnar og opinnar umræðu þar sem borin er virðing fyrir andstæðum skoðunum sem styrkja kirkjuna.

“Illindi og illmælgi veikja og grafa undan.

Hið góða fellur í skuggann – myrkrið hefur betur og ljós trúarinnar dofnar.“

Sagði hún að kærleikur og virðing í mannlegum samskiptum eigi að einkenna umræður og samskipti, ekki síst innan okkar góðu kirkju og vitnaði í orð sr. Sigurbjörns Einarssonar fyrrum biskups Íslands í síðustu predikun sinni sumarið 2008 í Reykholti:

„Það kemur fyrir, að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun.

Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér…“

Að lokum sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:

„Framundan er þing sem ég vona innilega að verði bæði eljusamt og heilladrjúgt fyrir þjóðkirkjuna.

Það skiptir miklu máli að störf ykkar verði farsæl og því óska ég ykkur blessunar og velgengni í ykkar störfum.

Ég trúi því og treysti að kirkjuþing leysi hnúta í viðfangsefnum sínum og vísi okkur veginn með málefnalegum rökræðum og niðurstöðum í bærilegri sátt og samlyndi.

Þjóðin þarf á því að halda.“

 

slg




Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Kirkjuþing

  • Leikmenn

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi