Kirkjuþing kallar eftir friði og vopnahléi

30. október 2023

Kirkjuþing kallar eftir friði og vopnahléi

Kirkjuþing íslensku þjóðkirkjunnar haldið í Háteigskirkju í Reykjavík samþykkti í morgun tillögu, sem flutt var af dr. Arnfríði Guðmundsdóttur varaforseta Lútherska Heimssambandsins og sr. Þuríði Björgu Wiium Árnadóttir fyrrum stjórnarkonu Lútherska Heimssambandsins.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Ályktunin hljóðar svo:

Heimsþing Lútherska heimssambandsins var haldið í Krakow í Póllandi í september s.l.

Þar var samþykkt að fordæma hernaðarátök, m.a. í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem alþjóðleg mannréttindalög eru ekki virt og grundvallarmannréttindi almennra borgara eru fótum troðin.

Kirkjuþing íslensku þjóðkirkjunnar tekur undir ályktanir systurkirkna sinna og hvetur fólkið í kirkjum landsins til að sýna samstöðu með öllum þeim sem líða og þjást vegna vopnaðra átaka og til að halda áfram að biðja fyrir friði í heiminum.

Kirkjuþing kallar eftir friði og tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum svo að hægt sé að sinna neyðarastoð og koma hjálpargögnum til þeirra sem þurfa á að halda.

 

Tillögunni fylgdi eftirfarandi greinargerð:

Íslenska þjóðkirkjan er aðili að Lútherska heimssambandinu, sem samanstendur af 150 aðildarkirkjum í 99 löndum.

Alls tilheyra rúmlega 77 milljón einstaklingar þessum kirkjum, sem starfa m.a. á stríðshrjáðum svæðum víða um heim.

Sambandið stendur fyrir víðtæku hjálparstarfi og rekur m.a. Augusta Victoria sjúkrahúsið í Jerúsalem.

Leiðtogar kristinna kirkna í Jerúsalem hafa ítrekað óskað eftir samstöðu og stuðningi frá systurkirkjum sínum og alþjóðasamfélaginu, en þau óttast að kristnum kirkjum, sem lengi hafa átt undir högg að sækja, verði ekki lengur vært í Landinu helga.

 

slg


  • Ályktun

  • Kirkjuþing

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi