Skáftárhreppur styður kirkjustarf

6. nóvember 2023

Skáftárhreppur styður kirkjustarf

Frá undirritun samkomulagsins

Einstakur viðburður átti sér stað fimmtudaginn 19. október 2023 við setningu Uppskeru- og þakkarhátíðar Skaftárhrepps.

Þá var undirritaður samningur á milli Skaftárhrepps annars vegar og Grafarsóknar, Langholtssóknar, Prestbakkasóknar og Þykkvabæjarklausturssóknar hins vegar um tónlistarstarf.

Með þessu samkomulagi mun Skaftárhreppur kosta allt sem varðar skipulag kórastarfs og æfingar auk starfs organista við kirkjur og kapellur innan sveitarfélagsins.

Samkomulagið er ótímabundið og léttir það mikið á rekstri sókna innan sveitarfélagsins.

Reikna má með að Skaftárhreppur sé fyrsta og eina sveitarfélag landsins sem hefur stígið þetta gæfuspor.


Að sögn sr. Ingimars Helgasonar sóknarprests á Kirkjubæjarklaustri

„þá mun þetta hjálpa sóknunum gífurlega mikið og í raun gera það að verkum að vonandi verður hægt að auka við kirkjulegt safnaðarstarf og ekki alltaf vera að reka allt í mínus eða eins nálægt núlli og hægt er.

Ég vona innilega að fleiri sveitafélög taki jafn vel í svipaðar hugmyndir og verði óhrædd við að láta slag standa, sé komið til þeirra í leit að aðstoð og auknu samstarfi milli samfélagsins og kirkjunnar.“


Og sr. Ingimar bætti við:

„Þetta hjálpar alveg rosalega mikið og sparar töluverðan launakostnað hvert ár.

Ég er að vona að á næsta ári þegar reynsla verður komin á þetta fyrirkomulag að sóknirnar standi mun betur og þær sem eru svo til gjaldþrota sleppi til og hinar nái að byggja upp safnaðarstarf eða hefja viðhald sem sárlega vantar á suma staði."


Aðspurður að því hver hafi verið aðdragandinn að þessu samkomulagi, segir sr. Ingimar:

„Fyrir nokkru síðan vorum ég og formaður einnar sóknar hjá mér að ræða saman og ég var meðal annars að tala við hana um hversu gott það væri ef sveitafélagið gæti aðstoðað sóknirnar að einhverju leyti.

Svo hættir hún sem formaður og stuttu síðar er hún kosin inn í sveitastjórn og Einar Kristján Jónsson var ráðinn sveitastjóri.

Ég fer svo að ræða við hann um hin og þessi mál kirkjunnar og segi eins og er að 3 af 4 sóknum eigi mjög erfitt með að ná endum saman.

Viðhald sé svo til óraunhæft og að auka við kirkjulegt starf sé erfitt, þó aldrei ómögulegt.

Ég spurði þá hvort sveitafélagið hefði möguleika á að aðstoða á einhvern hátt.

Það varð kveikjan að þessu en stuttu síðar hafði Einar aftur samband og úr varð þessi samningur sem allir, mér vitanlega, í sveitastjórn samþykktu.

Í raun var þetta í upphafi samtal þar sem við vorum að skoða fjölmarga möguleika til þess að aðstoða kirkjuna til viðhalds og við skutum helling af hugmyndum fram og til baka en þótt ég fái að vera hluti af þessu þá er Einar sá sem ég myndi vilja að verði skrifaður fyrir þessu frá a til ö sem sveitastjóri og svo sveitastjórn.

Ég er "bara" presturinn sem er svo heppinn að hafa rétta fólkið í kringum mig.

Þótt ég hafi vissulega unnið mjög hart að því að verða hluti af samfélaginu og í dag eru engar dyr lokaðar fyrir mér og fólk er viljugt til að aðstoða þegar þess þarf."

slg




  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Tónlist

  • Kirkjustaðir

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi