Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar

9. nóvember 2023

Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar

Skólastúlkur í Kenía

Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar er sunnudaginn 12. nóvember.

Er þá sérstaklega horft til kristniboðsstarfs Íslendinga nú og á liðnum árum.

Dagurinn er jafnframt áminning um kall kirkjunnar til að sinna boðun fagnaðarerindisins nær og fjær.

Útvarpsguðsþjónusta dagsins verður frá Sandgerðiskirkju.

Sr. Kjartan Jónsson fyrrum sóknarprestur og kristniboði prédikar og þjónar fyrir altari.

Prestar og starfsfólk safnaða um land allt eru hvött til að minnast kristniboðsins og taka samskot til styrktar starfi Kristniboðssambandsins.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar á vegum Sambandsins taka þátt í guðsþjónustum dagsins.

Í frétt frá Kristniboðssambandinu segir að árleg kaffisala Kristniboðsfélags karla í Reykjavík verði í Kristniboðssalnum, að Háaleitisbraut 58-60 á sunnudaginn kl. 14:00-17:00.

Um kvöldið kl. 20:00 verður síðan samkoma á sama stað þar sem Beyene Gailassie, sem fæddur er og uppalinn í Konsó í Eþíópíu flytur hugvekju og sagt verður frá starfinu.

Til stóð að Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins færi norður til Akureyrar og tæki þátt í kirkjustarfi og samkomu þar á kristniboðsdaginn en það frestast væntanlega um viku.

Í fréttinni segir áfram:

„kristniboðsstarfið tekur breytingum með þróun samfélaga og aukins sjálfstæðis heimamanna.

Undanfarin ár hafa íslenskir kristniboðar ekki verið við föst störf í Eþíópíu og Keníu en áfram styrkir Kristniboðssambandið ýmis verkefni á sviði boðunar og kærleiksþjónustu og verkefnum er fylgt eftir með heimsóknum og fræðslustarfi.

Umfangsmikið útbreiðsluverkefni teygir sig langt inn í Amudat hérað í Úganda.

Einnig er ástæða til að minna á að framundan er Biblíuhátíð í Konsó í Eþíópíu þar sem fagnað verður útkomu Biblíunnar allrar á konsómáli.

Verður það fyrstu helgina í desember, en bæði Kristniboðssambandið og Hið íslenska biblíufélag studdu þýðingarstarfið.

Ein fjölskylda, Katsuko og Leifur Sigurðsson ásamt börnum, er að störfum á vegum Sambandsins í Vestur-Japan.

Önnur hjón, Janet María Sewell og Mehran Rezai starfa í London þar sem hann er prestur vaxandi safnaðar farsi-mælandi fólks í Trinity Church Central London og með tengslanet sem nær víða um landið og í Evrópu.

Janet sinnir m.a. verkefnum á vegum Lausanne-hreyfingarinnar.

Janet er fædd og uppalin á Íslandi en Meheran kemur upprunalega frá Íran.

Kristniboðssambandið er einnig samstarfsaðili Sat7, sjónvarpsstarfs í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku sem margar kirkjur á svæðinu sameinast um.

Sent er út á arabísku, farsi og tyrknesku fyrir utan sérstaka barnarás og aðra skólarás fyrir börn í flóttamannabúðum og konur sem ekki hafa hlotið menntun.

Þá er svipað starf stutt í Pakistan undir merkjum Pak7.

Á sviði þróunarsamvinnu og kærleiksþjónustu sinntu kristniboðar heilbrigðis- og menntamálum, byggðu upp heilsugæslustöðvar og spítala og störfuðu þar í Eþíópíu.

Kristniboðssambandið hefur með stuðningi utanríkisráðuneytisins byggt um 30 kennslustofur og 15 heimavistir við rúmlega 20 skóla á liðnum 15 árum.

Nú er unnið að vatnsverkefni fyrir UDOM Rescue Centre í Chepareria sem mun koma tveimur fjölmennum skólum einnig til góða.

Hér heima stendur Kristniboðssambandið fyrir samkomum og fræðslu- og kynningarstarfi.

Einnig er í boði ókeypis íslenskukennsla fyrir nýbúa og útlendinga níunda skólaveturinn í röð.

Hefur sú aðstoð mælst mjög vel fyrir og nemendum fjölgað með hverju árinu.

Meðal annarra fjáröflunarverkefna Kristniboðssambandsins má nefna sölu á notuðum frímerkjum og mynt, jólabasar, verkefnið Látið skóna ganga aftur og nytjamarkaðinn, Basarinn í Austurveri.

Kristniboðsalmanakið fyrir árið 2024 er væntanlegt síðar í mánuðinum, því verður dreift ókeypis í mörgum kirkjum landsins og í Basarnum, nytjamarkaði, Austurveri, Háaleitisbraut 68.“

 

slg


Myndir með frétt

  • Alþjóðastarf

  • Biblían

  • Flóttafólk

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Námskeið

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Æskulýðsmál

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi