Kyrrðarlyklar komnir út

29. nóvember 2023

Kyrrðarlyklar komnir út

Angela og Bylgja Dís við myndir Angelu

Þriðjudaginn 28. nóvember var haldið fjölmennt útgáfuhóf í Kirkjuhúsinu á neðri hæð Bústaðakirkju.

Þá komu út Kyrrðarlyklar eftir Bylgju Dís Gunnarsdóttur.

Edda Möller framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar bauð gesti velkomna og lýsti samstarfi sínu við höfundinn Bylgju Dís og listakonuna Angelu Árnadóttur, sem myndskreytt hefur lyklana.

Sr. Arndís Bernharðsdóttir Linn hélt einnig ræðu í hófinu, en hún var til ráðgjafar á meðan á ferlinu stóð.

Þá lýsti höfundurinn Bylgja Dís hvernig ferlið við að skrifa spjöldin hefði bjargað henni í krabbameinsmeðferð.

Benedikt Kristjánsson eiginmaður Angelu lék jólalög á flygil hússins og dóttir þeirra, Margrét Iðunn, lék eitt lag með pabba sínum.

Kyrrðarlyklarnir samanstanda af 40 spjöldum ætluðum til stuðnings við kyrrðarbæn, 40 spjöldum ætluðum til stuðnings við Lectio Divina og 6 spjöldum til stuðnings við Visio Divina.

Kyrrðarlyklarnir eru hugsaðir fyrir einstaklingsbænastundir, en hægt er að aðlaga þá fyrir hópa.

Í litlum bæklingi sem fylgir spjöldunum eru iðkendur hvattir til að lesa umfjöllunina sem fylgir um kyrrðarbæn áður en lengra er haldið.

Bylgja Dís Gunnarsdóttir hefur lokið meistaraprófi í tónlist og óperusöng frá Royal Scottish Academy og Music and Drama.

Hún er nemandi í ritlist við Háskóla Íslands og nemandi í andlegri leiðsögn hjá Leadership Transformations Inc.

Hún hefur á undanförnum árum kynnt sér hugleiðsluhefð kristinnar trúar og iðkar úr þeim ranni kyrrðarbæn, Lectio Divina og fagnaðarbæn og er með kennsluréttindi í þessum bænaaðferðum frá Contemplative Outreach Ltd.

Angela Árnadóttir gerði teikningarnar, táknin og vatnslitamyndirnar á spjöldunum, sem eru hreint listaverk.

Málverkið er sá miðill sem hún kýs að vinna með, en auk myndlistarinnar hefur hún fengist bæði við klassískan listdans og klassískan söng.

Angela hefur stundað nám við Listdansskóla Íslands, Söngskólann í Reykjavík, Det Kongelige Teaters Balletskole í Kaupmannahöfn og Akademie für Malerei í Berlin.

Angela hefur einnig lokið MT prófi í list- og listgreinakennslu frá Háskóla Íslands og haldið myndlistasýningr bæði hér heima og erlendis.

Angela málaði sérstaklega þrjár myndir fyrir útgáfuhófið sem voru uppi á vegg í Kirkjuhúsinu.

slg



Myndir með frétt

  • Guðfræði

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Nýjung

  • Samstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Fræðsla

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi