Val mitt við lífslok

6. desember 2023

Val mitt við lífslok

Bæklingurinn Val mitt við lífslok  hefur nú verið endurútgefinn og endurbættur, en hann var fyrst gefinn út árið 2016.

Megin tilgangur þessarar skrár er að styðja fólk við að ákveða hvernig það óskar að hafa útför sína og annað sem tengist lífslokum þess.

Til að mæta þessari þörf hefur lífslokaskráin sem birtist í bæklingnum verið útbúin til leiðbeiningar.

Það er Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar og Kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu sem gefur bæklinginn út.

Það er von þeirra sem að útgáfunni standa að bæklingurinn gefi fólki tækifæri til að koma vilja sínum varðandi lífslok á framfæri við ástvini sína jafnframt því að opna umræðu um dauðann.

Í formála bæklingsins segir:

„Oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir þegar horft er fram á alvarleg veikindi, andlát og útför.

Það reynist sumum erfitt að hefja umræðu um dauðann við sína nánustu en lífslokaskráin gæti auðveldað það.

Það er réttur hvers einstaklings að vera með í ráðum varðandi sín eigin lífslok, sé þess kostur.“

Skráin útfyllt, undirrituð og vottuð hjálpar fólki og aðstandendum þeirra og er gagnlegt leiðarljós og stuðningur við lífslokin.

Og áfram segir í formála bæklingsins:

„Þess vegna er mikilvægt að þú látir vita að þú hafir útfyllt þessa skrá og hvar hún sé geymd.

Ef ekki er nægilegt pláss til að skrá allt sem maður vill er sjálfsagt að skrifa meira á sér blað og láta fylgja skránni.“

Bent er á að kirkjuleg útför er guðsþjónusta þar sem aðstandendur í samfélagi hins kristna safnaðar kveðja hinn látna einstakling og fela hann miskunn Guðs á hendur.

„Útförin tjáir sorg og söknuð þeirra sem eftir lifa og er játning hinnar lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.

Útför felur í sér ritningarlestur, vitnisburð um fagnaðarerindi upprisunnar, fyrirbæn og moldun, þar sem líkkistan er ausin moldu þrisvar með þeim orðum sem Handbók kirkjunnar mælir fyrir um við þá athöfn.

Varðandi útfararathöfn skal leitast við að uppfylla óskir hins látna og/eða aðstandenda, enda séu þær í samræmi við reglur og venjur þjóðkirkjunnar.“

Í Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar eru:  Sr. Auður Inga Einarsdóttir, sr. Bjarni Þór Bjarnason, sem er formaður nefndarinnar, Magnea Sverrisdóttir djákni á Biskupsstofu og Margrét Loftsdóttir.

Bæklinginn má nálgast í heild sinni hér.

Prentaða bæklinga má nálgast á Þjónustumiðstöð kirkjunnar í Grensáskirkju.

 

slg


  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Eldri borgarar

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi