Kirkjan býður börn velkomin

15. desember 2023

Kirkjan býður börn velkomin

Berglind Hönnudóttir segir börnunum sögu

Nýlega sagði kirkjan.is frá því að um 1000 skólabörn hefði heimsótt Hafnarfjarðarkirkju nú á aðventunni.

Fréttaritari kirkjan.is fór því á stúfana og fór að grennslast fyrir um það hvort skólaheimsóknir barna væru algengar.

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur í Egilsstaðaprestakalli sagði að börn úr grunnskólum og leikskólum prestakallsins kæmu í aðventuheimsókn í kirkjurnar.

„Í leikskólanum í Fellabæ, sem kom í heimsókn í Kirkjuselið í vikunni, hefur skapast afar falleg og sterk hefð, sem er að börnin búa til jólakort og selja.

Síðan rennur afraksturinn í Jólasjóð Múlaþings.“

Þarna hefur að sögn sr. Kristínar Þórunnar „tekist að flétta saman díakónal meðvitund við upplifunar- og fræðsluþáttinn sem aðventuheimsóknin gengur út á.“

Sr. Þorgeir Arason sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli bætti við:

„að um 300 leik- og grunnskólabörn með kennurum sínum frá leikskólanum Tjarnarskógi og 1.-4. bekk Egilsstaðaskóla heimsækja Egilsstaðakirkju nú á aðventunni í litlum hópum, alls 9 samverur.

Leikskólinn fær djús og piparkökur eftir stundirnar.“

Prestarnir sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir prófastur Austurlandsprófastsdæmis og sr. Þorgeir Arason skipta með sér að sjá um stundirnar ásamt Berglindi Hönnudóttur svæðisstjóra æskulýðsmála í Austurlands- og Suðurprófastsdæmum og Sándori Kerekes organista.“

Og sr. Þorgeir bætti við:

„Fræðsluráð Múlaþings samþykkti nýverið tillögu fræðslustjóra sveitarfélagsins um heimsóknir nemenda til trúfélaga og fara heimsóknirnar fram á þeim forsendum í góðri samvinnu við skólana.

Loks má nefna að sú núbreytni var nú á aðventunni í Egilsstaðakirkju að hópur fólks með fötlun, íbúar í búsetuþjónustu Félagsþjónustunnar, kom til aðventustundar í kirkjunni með starfsfólki sínu.

Íbúarnir tóku virkan þátt, sum höfðu undirbúið upplestur eða einsöng, vel var tekið undir í jólalögunum og kertaljós tendruð í bæn og minningu ástvina.

Sándor organisti og prestarnir sr. Kristín Þórunn og sr. Þorgeir sáu um stundina.

Boðið var upp á kakó í lokin í umsjón sjálfboðaliða kirkjunnar, sem féll svo í góðan jarðveg.“

Einnig kemur Seyðisfjarðarskóli í heimsókn í sína kirkju og er kirkjuheimsóknin að sögn sr. Sigríðar Rúnar „hluti af dagskrá litlu jólanna í skólanum og allur skólinn mætir.

Nemendur tónlistarskólans leika á hljóðfæri, 7. bekkur les jólaljóð og svo er dagskráin hefðbundin að öðru leyti, saga, getraun, leyniteikning og mikill söngur.


Sr. Jóhanna Gísladóttir prestur í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli tjáði fréttaritara kirkjan.is að þau hafi ákveðið að bjóða yngstu grunnskólabörnunum í prestakallinu upp á jólaævintýri  sem hefur áður verið boðið upp á í Háteigskirkju og er þýtt úr dönsku af Guðnýju Einarsdóttur söngmálastjóra þjóðkirkjunnar.

„Þetta er sem sagt þátttökuleikhús í raun þar sem farið er í ferðalag til Betlehem“ segir sr. Jóhanna „og til að gera langa sögu stutta hafa skólastjórendur og kennarar verið hæstánægðir og börnin sömuleiðis.“

 

Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg sóknarprestur í Tjarnaprestakalli segir að „hellingur af skólabörnum og leikskólabörnum hafi heimsótt Ástjarnarkirkju í síðustu viku, í þessari viku og næstu viku.

Þriðjudagar, miðvikudagar og fimmtudagar frá 8:30 - 11:00 eru teknir frá fyrir heimsóknir gunnskóla- og leikskólabarna.

Fjöldi liggur ekki fyrir - en hann er talsverður.

 

Sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson prestur í Austfjarðaprestakalli segir:

„Við fáum leikskólabörn í heimsókn.

Í þessari viku fáum við heimsókn í Norðfjarðarkirkju, Eskifjarðarkirkju og Reyðarfjarðarkirkju.

Þetta er fastur liður í jólaundirbúningnum hjá leikskólunum.“

 

Sr. Hildur Sigurðardóttir prestur í Digranes- og Hjallakirkju segir:

„Við höfum tekið á móti skólum og leikskólum þessa vikuna.

Með öllum hafa komið varla færri en 1000 manneskjur.

Allt hefur gengið vel og mikil ánægja með kirkjuheimsóknirnar.

Öll fengu safa og piparkökur og kex áður en lagt var af stað til baka.“

 

Sr. Jón Ómar Gunnarsson sóknarprestur í Breiðholtsprestakalli segir að leikskólaheimsóknir hafi verið í Fella-og Hólakirkju.

„Síðan hefur verið tónleikahald á vegum Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts, Skólahljómsveitar Grafarvogs og Tónskóla Sigursveins.

Aðventustund barnanna var annan sunnudag í aðventu og söng barnakór Hólabrekkuskóla í þeirri stund.

Það voru 30 kórfélagar og um 200 kirkjugestir að auki mætti Stúfur og gaf börnunum glaðning.

Leikskólar hverfisins héldu jólaböllin sín í Breiðholtskirkju, Alþjóðlegi söfnuðurinn og Breiðholtssöfnuður héldu sameiginlega aðventuhátíð annan sunnudag í aðventu fyrir börnin og sóttu Gluggagæir og Skyrgámur stundina.“

 

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir sóknarprestur í Hallgrímskirkju tjáði fréttaritara að þau gleðjist mjög yfir þvi að taka á móti yfir 700 börnum bæði í yngstu bekkjum grunnskóla og leikskólum höfuðborgarinnar að sjá leikþáttin Jólin hans Hallgríms eftir Steinunni Jóhannesdóttur.

„Hér hefur verið líf og fjör og leikararnir fara á kostum í hlutverki Hallgríms Péturssonar og organistinn hefur þanið Klaisorgelið og börnin gengið um og skoðað kirkjuna í fylgd Hallgrímanna tveggja og síðan farið á leiksýninguna í norðursal kirkjunnar.

Leikararnir eru Níels Thibaud Girerd og Pálmi Freyr Hauksson.

Unnur Sesselía Ólafsdóttir hefur verið framkvæmdastýra.

Sá hún um svið, búninga, mannaráðningar og margt fleira.

Textinn er eins og áður segir úr bók Steinunnar Jóhannesdóttur Jólin hans Hallgríms.

Þess ber að geta að Kristný Rós Gústafsdóttir og Inga Harðardóttir fyrrum æskulýðsfulltrúar Hallgrímskirkju buðu upp á skólaheimsóknir á aðventu frá árinu 2015 og unnu texta og verkefni úr áðurnefndri bók Steinunnar“

sagði sr. Irma Sjöfn að lokum

 

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá skólaheimsókn í Hallgrímskirkju þegar Björn Steinar organisti kynnir Klais orgelið fyrir börnunum og svo mynd frá sýningunni um Jólin hans Hallgríms.

 

slg


Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Barnastarf

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi