103 ráð úr Biblíunni

18. desember 2023

103 ráð úr Biblíunni

Sr. Petrína Mjöll

Fræðslumorgnar kl. 10.00 á sunnudagsmorgnum eru fastur liður í safnaðarstarfi Seltjarnarneskirkju.

Sr. Bjarni Þór Bjarnason sóknarprestur hefur um árabil fengið fólk alls staðar að úr samfélaginu til að koma og ræða við söfnuðinn um hin ýmsu málefni.

Eftir erindin heldur fólk til kirkju og tekur þátt í messu.

Sunnudaginn 17. desember kom sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir prestur í Árbæjarkirkju í kirkjuna og kynnti nýútkomna bók sína 103 ráð – Gagnlegar ráðleggingar úr Biblíunni til að lifa góðu lífi.

Sr. Petrína Mjöll hefur skrifað þó nokkrar bækur og þar á meðal bókina Salt og hunang, sem eru ritningarlestrar fyrir hvern dag ársins.

Sagði hún að þegar hún hafi verið að skrifa þá bók hafi hún rekist á svo mörg ráð og því hafi hún fengið hugmyndina að þessari bók.

Lagði hún áherslu á það í upphafi máls síns að við byggjum alla okkar lífsspeki á því sem kemur úr Biblíunni.

„Sumum finnst þó erfitt að nálgast Biblíuna og því ákvað ég að skrifa bókina fyrir venjulegt fólk og bar þetta meðal annars undir fermingarbörnin mín svo þetta yrði ekki of háfleygt“ sagði sr. Petrína.

En af hverju ráð?

Sagði hún að í uppeldinu hafi pabbi hennar alltaf verið að gefa ráð.

„Þessi ráð hafa setið með mér og hjálpað mér.“

Sem dæmi um ráð sem pabbi hennar gaf nefndi hún „það flýtur á meðan ekki sekkur“ og „það þýðir ekkert me he!“ sem hún skildi alltaf á þann veg að við verðum að halda áfram, hvað svo sem á bjátar.

En svo við snúum okkur að bókinni og Biblíunni þá benti hún á að boðorðin tíu væru dæmi um góð ráð.

Jesús gefur okkur ráð með tvöfalda kærleiksboðorðinu og gullnu reglunni.

Í Nýja testamentinu eru mörg ráð sem koma frá Páli postula, sem er að hjálpa hinum kristnu söfnuðum að verða til.

Svo eru tvö sérstök ráðasöfn í Biblíunni.

Annars vegar Orðskviðirnir og hins vegar Síraksbók, sem bæði tilheyra spekiritunum.

„Þegar þetta allt er skoðað má segja að aðalráð Biblíunnar er að þekkja Guð.

Það er grundvallarforsenda þess að lifa góðu lífi“

segir sr. Petrína Mjöll og bætti við að hún hafi valið þau ráð sem henni fundust praktísk.

Í lok kynningar sinnar taldi sr. Petrína Mjöll upp uppáhaldsráðin sín:

 

Þar er fremst í flokki: Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins.

Orðskviðirnir 4:23

 

Svara eigi fyrr en þú hefur hlustað og gríp ekki fram í er annar talar.

Síraksbók 11:8

 

Kvartið ekki hvert yfir öðru.

Jakobsbréf 5:9

 

Tvö af boðorðunum eru líka góð ráð að mati sr. Petrínu Mjallar.

Það er fjórða boðorðið: Heiðra skaltu föður þinn og móður og þriðja boðorðið: Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.

 

Síðan koma nokkur ráð um samskipti:

Þjarka ekki um það sem þig varðar engu.

Síraksbók 11:9

 

Angra ekki sjálfan þig á áhyggjum.

Síraksbók 30:21

 

Vísaðu gremju burt frá hjarta þínu.

Predikarinn 11:10

 

Sr. Petrína Mjöll endaði erindi sitt á því að lesa ráð númer 98:

Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?

Matt. 7:3


Hverju ráði fylgir hugleiðng sr. Petrínu Mjallar, sem hjálpar okkur við að tileinka okkur þessi einstöku ráð Biblíunnar.

Auk þess fylgja hverri hugleiðingu spurningar sem eru ágæt hjálpartæki fyrir umræðuhópa.

 

Útlit  bókarinnar má sjá hér fyrir neðan.

Auk þess fylgja hér myndir sem voru teknar í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju á meðan erindið var flutt.

 

slg


Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Biblían

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls