Jólaboðskapur frá forseta Lútherska Heimssambandsins

19. desember 2023

Jólaboðskapur frá forseta Lútherska Heimssambandsins

Ljós í myrkri - mynd Faizan Unsplash

Henrik Stubkjær biskup í Viborg í Danmörku og forseti Lútherska heimssambandsins hefur sent frá sér jólaboðskap sinn til aðildarkirkna sambandsins.

Hugleiðingin birtist hér í heild sinni:

„Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því Jóh. 1:5

Í upphafsversum Jóhannesarguðspjalls segir guðspjallamaðurinn okkur sköpunarsögu:

sögu Guðs sem skapaði heiminn, Guð sem er lífið sjálft og deilir því með allri sköpuninni.

Í þessari boðun Jóhannesar kemur fram að Guð heldur áfram að skapa í Kristi, syni Guðs, sem kom í heiminn, sem guðlegt ljós sem lýsir í myrkrinu.

Við þráum að fá að upplifa þá von að ljósið hafi komið til jarðarinnar okkar, en erum minnt á að „myrkrið hafi ekki tekið á móti því.“

Við sem búum að norðurhveli jarðar, upplifum myrkrið sem grúfir yfir á þessum árstíma.

Í landinu mínu, Danmörku, er myrkur frá því klukkan hálf níu á morgnana og þar til dimmir aftur um miðjan daginn.

Þetta myrkur minnir okkur á það myrkur sem mætir okkur á hverjum degi á fréttamiðlum sem segja okkur frá mannlegri þjáningu sem venjulegt fólk verður fyrir víða um heim í löndum eins og Úkraínu, Palestínu/Ísrael, Súdan, Venezuela, og Myanmar svo nokkur dæmi séu tekin.


Á Heimsþingi Lútherska heimssambandsins, sem haldið var í Kraków í Póllandi í september síðast liðnum heyrðum við um ofsóknir sem kirkjur sambandsins verða fyrir í Asíu, Miðausturlöndum, og víða annars staðar.

Við heimsóttum Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðirnar og þar sáum við hvað hatur og útskúrfun getur leitt af sér.

Við lögðum þar krans frá öllu sambandinu og á borðanum stóð:

Aldrei aftur!

Samt sem áður upplifum við hvernig illska manneskjunnar heldur áfram að valda þjáningu milli fólks.

Bragð hins forboðna ávaxtar heldur áfram að valda fjarlægð milli Guðs og okkar mannfólksins.

Við þurfum á Guði að halda.

Við þurfum að nýju upphafi að halda sem aðventan boðar okkur.

Við þurfum að heyra: Guð hefur komið til okkar með kærleika sinn og náð.

Gjáin milli Guðs og okkar hefur verið brúuð með komu Krists í heiminn og myrkrið hefur misst vald sitt.

Jólaguðspjallið kallar okkur til að opna augun fyrir Guði á stöðum þar sem síst skyldi, hér mitt á meðal okkar og sjá von.

Það kallar okkur til athafna því að með fyrirheiti Guðs um eilífan kærleika getum við haldið út í heiminn sem boðberar vonar.

Við eigum að dreifa sem víðast gleði og frið jólanna.

Ég varð eitt sinn vitni að því að tveir menn sem áttu við félagslegan vanda að stríða gáfu forstöðumanni gistiskýlis kirkjunnar blómvönd og ljóð á afmælisdaginn hans.

Ljóðið var á þessa leið:

„þetta er ómögulegt“ sagði stoltið

„þetta er hættulegt“ sagði raunsæið

„þetta er tilgangslaust“ sagði reynslan

„reynum þetta“ sagði hjartað.

Þessir tveir menn voru ekki hátt skrifaðir í þjóðfélagsstiganum, en þeir skildu hvað það þýðir þegar Guð kemur inn í heim okkar.

Jólin eru hátíð kærleikans.

Þegar ljós Guðs í Kristi snertir hjarta okkar, festir vonin rætur og við öðlumst hugrekki til að lifa í nýjum guðlegum raunveruleika sem í Kristi býr í heiminum.

Við erum kölluð til að koma ljósinu áleiðis jafnvel inn í dimmustu skúmaskot.

Það er ekki auðvelt að skilja þetta – en reynum!

Það er ekki alltaf auðvelt að lifa í kærleika, en reynum!

Guð er að kalla okkur til ævintýralegs fagnaðarerindis.

Með bestu óskum um gleðileg jól og megi friður jólanna finna sér stað í hjörtum okkar.

Henrik Stubkjær forseti Lútherska heimssambandsins


slg


  • Biblían

  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Trúin

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi