Áhugavert málþing um biskupsembættið

22. janúar 2024

Áhugavert málþing um biskupsembættið

Afar áhugavert málþing var haldið í Breiðholtskirkju á vegum Reykjavíkurprófastsdæmis eystra föstudaginn 19. janúar.

Málþingið bar yfirskriftina: Biskup á að vera......

Fjórir doktorar héldu erindi, þau dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, dr. Haraldur Hreinsson, lektor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, dr. Sigríður Guðmarsdóttir dósent við sömu deild og dr. María Guðrúnar Ágústsdóttir sóknarprestur i Fossvogsprestakalli.

Sr. Bryndís Malla Elídóttir prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra stýrði málþinginu.

Erindi sitt nefndi dr. Sigurjón Árni Til hvers að taka afstöðu?

Gerði hann í máli sínu grein fyrir kenningum fjögurra fræðimanna.

Þeir eru Friedrich Wilhelm Graf, Ulrich H.J Körtner, Thomas Martin Schneider og Julian Nida-Rümelin.

Vitnaði hann á víxl í þessa fræðimenn og sagði:

„Sem andlegur leiðtogi þarf biskup að fjalla um mikilvæg málefni og leiða hina kristnu afstöðu til þeirra.

Biskup þarf að halda þjóðinni á réttri leið, en spurningin er hvort hann eða hún þarf að taka afstöðu.“

Rakti dr. Sigurjón í erindi sínu þær breytingar sem hafa verið á stöðu kirkjunnar allt frá tímanum í kringum 1960.

„Það varð hefðarof þegar kirkjan hætti að vera mótandi stofnun í samfélaginu.“

Sagði hann að á sjötta áratugnum hafi verið farið að leggja minni áherslu á guðfræðileg efni og gripið til annarrar áherslu eins og til dæmis á friðarmál og umhverfismál.

Á þeim tíma hafi predikunin misst hlutverk sitt að því leyti að vera áttaviti fólks í daglegu lífi þess.

"Predikunin hafði áður stuðlað að sjálfræði, en nú var farið að segja fólki hvernig það ætti að taka afstöðu.

Þannig þróaðist predikunin út í móralisma.“

Höfundarnir sem dr. Sigurjón vitnaði í vara við þessu.

Þeir vilja halda í heiðri sjálfræði einstaklingsins og að guðfræðin sinni fyrst og fremst guðfræðilegum málefnum.

Fjórmenningarnir halda því fram að í opinberri umræðu þurfi ekki að taka afstöðu, heldur að kynna sér rök bæði með og á móti.

„Hér hefur biskupsembættið mikilvægu hlutverki að gegna“ segir dr. Sigurjón.

„Það þarf að stuðla að opinberri umræðu, en ekki taka afstöðu.

Hlutverk biskups er að tryggja boðun fagnaðarerindisins og að sakramentin séu veitt.

Það á að tryggja umgjörð um starf kirkjunnar.

Biskup á ekki að vera veraldlegur leiðtogi sem á að segja okkur hvaða afstöðu við eigum að taka“

sagði dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson að lokum.

Dr. Haraldur Hreinsson hélt næsta erindi sem hann nefndi Baksýnisspegill biskupsins.

Í erindi sínu fjallaði hann um söguleika þessa forna embættis sem biskupsembættið er.

Hann velti því fyrir sér hvort saga embættisins skipti máli fyrir framtíðina.

„Sagan hreyfist ekki af sjálfu sér, heldur er hún hreyfð af fólki“ sagði dr. Haraldur.

Þá velti hann fyrir sér ytri ásjónu biskupsembættiins og skoðaði sem dæmi biskupskápuna.

Hún er notuð á Norðurlöndunum líka.

„Embættið er fornt, en er eitthvað sameiginlegt með biskupsembætti miðalda og biskupsembættinu árið 2024“  spurði dr. Haraldur.

„Biskupsembættið er ekki óbreytanlegt heldur hefur það tekið miklum breytingum í tímans rás.

Áhrifamesta framsetningin á hinu sögulega við biskupsembætið er í höndum biskupanna hverju sinni.“

Og sem dæmi nefndi hann:

„Kórkápa Jóns Arasonar er notuð á Hólum og vígslubiskupinn í Skálholti var viðstaddur þegar kista Páls Jónssonar var opnuð og las þar sálm eftir Hallgrím Pétursson.

Biskupsembættið hefur tekið miklum breytingum, en ekki aðeins sögulega, heldur líka guðfræðilega og pólitískt, bæði kirkjupólitískt og samfélagspólitískt.

Í fornkirkjunni eiga biskuparnir biblíulegar rætur.

Jakob og Pétur voru biskupar og biskupar fornkirkjunnar ráku embætti sín til þess tíma.

Lúther var hins vegar ekki biskup og ekki heldur Melanchton.

Áherslan á biskupsembættið minnkaði mikið á siðbótartímanum og var reyndar umdeilt embætti meðal siðbótarmanna.

Þar átti biskup fyrst og fremst að predika fagnaðarerindið og átti ekki að hafa veraldlegt vald."

Þá sneri dr. Haraldur sér að íslenskri kristni, og benti á að á miðöldum hafi hér á landi verið samleið kirkju og þjóðar alla tíð, allt frá landnámi.

"Biskupar skiptu miklu máli sem leiðtogar íslenskrar kristni.

Dr. Sigurbjörn Einarsson var biskup Íslands frá 1959-1981 og kirkjan er enn undir áhrifum hans.

Dr. Sigurbjörn sagði m.a.:

„Því er kirkjan til í dag að þetta er satt í dag.

Því er kirkjan hér, á þessum endimörkum heimsbyggðarinnar á landinu yzt við heimsskaut norður.

Hér hefur hún verið í nær þúsund ár af því að Jesús Kristur var með oss.“

Skoðun Haralds er sú að „hin þjóðernislega sýn sem hér kemur fram og einkenndi dr. Sigurbjörn sem andlegan leiðtoga, hafi runnið sitt skeið.

Hún hitti í mark á 6. og 7. áratug 20. aldar og dr. Sigurbjörn hafði hæfileika til þess bæði í biskupstíð sinni og eftir að henni lauk.

Biskupar eftir hann hafa viljað standa undir þessum væntingum, en breytingar hafa verið á samfélaginu.

„Trúarlegt boðvald af stól hefur ekki sama hljómgrunn og áður og því þarf að tala af myndugleik um samtímaleg efni“ sagði dr. Haraldur að lokum.

Næsta erindi hélt dr. Sigríður Guðmarsdóttir og nefndi hún erindi sitt:  Biskupsembættið í hringiðu breytinga.

Hún hóf erindi sitt á að spyrja spurninganna:

„Hver er framtíðarsýnin?

Hvers konar framtíð er verið að leita eftir?

Hvers konar leiðtogi á að móta stefnu um framtíð kirkjunnar?“

Skipti hún biskupshluterkinu niður í sístætt biskupshlutverk annars vegar og síbreytilegt biskupshlutverk í síbreytilegri kirkju hins vegar.

Minnti hún á að sístætt hlutverk biskups er að vígja, vísitera og hafa tilsjón, en spurði um leið.....“tilsjón með hverju?

Síbreytilegt hlutverk er boðun þjóðkirkjunnar í síbreytilegu samhengi.“

Dr. Sigríður benti á bókina Boðun í síbreytilegu samhengi, sem er bók Lútherska heimssambandsins sem kom út á íslensku árið 2006.

Þar kemur fram að þjónusta í síbreytilegu samhengi er lúthersk biskupsþjónusta eftir því sem Lútherska Heimssambandið hefur skilgreint hana og það er fyrst og fremst boðun fagnaðarerindisins.

Og enn spyr hún: „Hvers konar leiðtogi?

Hver er sýnin og gildin og boðunarhlutverkið fyrir nýja tíð?

Hvort sem við látum samhljóm við fortíðina ráða eða andstæðu þess þá látum við fortíðina ráða.

Væntingar til biskups geta verið mjög mismunandi.

Einhver væntir hins andlega manns, annar biður um góðan sálusorgara, sá þriðji hinn mikla stjórnanda.“

Benti hún á grein dr. Hjalta Hugasonar sem nefnist Kirkjan í krísu og spurði:

„Á íslenska kirkjan að mæta nútímanum með samhljómi við samtímann; á hún að skerpa sjálfsmynd sína eða horfa inn á við og búa til sína eigin veröld?

Þetta eru allt spurningar sem vert er að velta fyrir sér.“

Benti hún einngi á bókina Public religion sem talar um kristna trú sem hnattræn trúarbrögð.

Í þeirri bók er bent á að kristni er að finna meðal annarra trúarbragða.

Byggir hún á frelsunarguðfræðinni.

„Heimskristni er vinsæl núna“ segir dr. Sigríður þegar hún talar um kristna guðfræði sem kemur frá öðrum stöðum en vestrænni menningu.

„Heimskristni kemur sem svar við sekulariseringu eða veraldarhyggjunni.

Kristnar kirkjur eru núna í alþjóðlegri kreppu.

Þeim gengur illa að halda sjó og bæta ekki við sig.

Margar kirkjur á alþjóðavísu eru að glíma við röng viðbrögð vegna ásakana um kynferðisofbeldi."

Nefndi hún kaþólsku kirkjuna sem dæmi um það.

"Margar kirkjur, þar á meðal bæði mótmælendakirkjur og svo kaþólska kirkjan þurfa líka að gera upp nýlendustefnuna.

Mannréttindaorðræðan hefur verið kirkjunni erfið eins og til dæmis varðandi hinsegin fólk.

Og þegar við horfum okkur nær þá hafa verið hraðar breytingar á sambandi ríkis og kirkju og síðan hafa bæst við undarlegar fréttir af óvissu um umboð biskups.

Vígð þjónusta tekur mið af nútíma hugmyndum um starfsmenn, en að mörgu leyti er erfitt að finna henni stað í nútímakerfum þar sem aðeins er gert ráð fyrir kjörnum fulltrúum og ráðnu starfsfólki.

Hér ríkir fjölhyggja og trúarbragðafræði er kennd í skólum í stað kristinfræði.

Ísland er fjölbreytilegra en það var áður.“

Dr. Sigríður endaði erindi sitt á vangaveltum um hvort það sé ógn eða tækifæri að biskupar hafi minni völd en áður?

„Er það ógn eða tækifæri að tengslin við ríkisvaldið er ekki eins sterkt og áður?

Við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort biskup Íslands eigi að vera eins og erkibiskup Svía og preses norsku kirkjunnar, sem gera sig mjög gildandi í hinu opinbera rými, en biskupar stólanna í Skálholti og á Hólum fái þá sama sjálfstæði og biskuparnir í Svíþjóð og Noregi.“

Síðasta erindið á þessu áhugaverða málþingi hélt dr. María Guðrúnar Ágústsdóttir og nefndi hún erindi sitt Sameiginlegt embætti systurkirkna. Skipti það máli?

Hóf hún mál sitt á að spyrja þeirrar einföldu spurningar: "Hvað er kirkja?"

Hún vitnaði í Mattheusarguðspjall 18:20:

„Hvar sem tvö eða þrjú-tvær eða þrjár-tvennt eða þrennt er saman í Jesú nafni þar er Jesús mitt á meðal“ og spurði hvort það sé ekki bara nóg?

Sagði hún að tveir straumar væru í samkirkjuhreyfingu 20. aldarinnar:

Life and work sem er verklegi þátturinn og faith and order sem er fræðilegi þátturinn.

Þá ræddi hún um systurkirkjur okkar sem tilheyra Lútherska Heimssambandinu, Heimsráði kirkna, Kirknasambandi Evrópu, þær sem eru með okkur í Porvoo samkomulaginu og loks Samtök evangeliskra kirkna í Evrópu.

Í öllu þessu starfi er leitast við að skilgreina hvað er sameiginlegt og hvað sé ólíkt með kirkjunum og bætti við: „við þurfum að vera samferða öðrum kirkjum.

Samkirkjuhreyfingin byggir á að við komum saman í Jesú nafni.

Í því samhengi er jafnmikilvægt að tala um trú og skipulagið.

Skipulagið er aðalvandinn“ segir dr. María og bætir við „í nefndinni faith and order er rómverska kirkjan með þó hún sé ekki með í Heimsráði kirkna.

Þessi nefnd gaf út Lima skýrsluna, sem er að verða 40 ára um skírn, heilaga kvöldmáltíð og embættisskilninginn.

Þessi skýrsla hefur haft gífurleg áhrif og er m.a. grundvöllur fyrir Porvoo samkomulagið.

Hins vegar er embættiskilningur okkar og kaþólsku kirkjunnar gerólíkur.

Evangelísk-lútherskur embættisskilningur byggir á almennum prestsdómi allra skírðra.

Á þeim grundvelli eru sum okkar tekin frá til sérstskrar þjónustu við söfnuð Krists.

Aðeins hlutverkið aðgreinir.

Rómversk-kaþólsk guðfræði heldur því fram að vígslan sé sakramenti sem færir vígsluþega óafmáanlegt einkenni – charcter indelebilis.

Hjá þeim er biskupsembættið kjarninn sem önnur vígð þjónsta á hlut í.

Í Ágsborgarjátningunni er talað um hina kirkjulegu stétt og samkvæmt þeim skilningi er tilgangur hennar að boða fagnaðarerindið og útdeila sakramentunum.“

Að lokum minnti dr. María á að mikil umræða sé í Danmörku um hvort setja eigi kjörtímabil á þjónustu biskupa.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það, en umræðan hefur snúist um 10-12 ár.

Þetta hefur þó enn ekki verið ákveðið.

Þar er þó skýrt tekið fram að eftir að breytingarnar taka gildi, þá geti það aldrei orðið afturvirkt, þ.e. að það eigi við um sitjandi biskupa.

 

slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Fundur

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Þjóðkirkjan

  • Biblían

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi