Mold – ný íslensk trúarljóð

5. febrúar 2024

Mold – ný íslensk trúarljóð

Út er komin ljóðabókin Mold eftir dr. Sigurð Ingólfsson.

Myndir í bókina gerir dr. Pétur Pétursson, prófessor emerítus við Háskóla Íslands.

Prólógus skrifar sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti.

Dr. Sigurður Ingólfsson er doktor í frönskum bókmenntum, ljóðskáld og guðfræðinemi.

„Hann hefur verið mjög virkur á akri ljóðlistarinnar allt frá sínum menntaskólaárum eða frá því fyrsta ljóðabók hans HÚM kom út árið 1986.

Þar sló hann þá strengi ljóðhörpu sinnar sem enn ómar“ segir sr. Kristján Valur í prólógusnum og bætir við um bókina Mold:

„Mold er eintöluorð.

Samt er mjög erfitt að hugsa sér mold sem eitthvað eitt.

Þessi ljóðabók með því nafni staðfestir það.

Hún heitir Mold og er um mold og þó er hún fyrst og fremst um líf og trú og tilvist manns í víðri merkingu þess.

Þessi níunda ljóðabók Sigurðar skiptist í þrjá kafla.

Við fyrstu sýn gæti svo virst sem kaflaheitin vísuðu til útfararrituals kirkjunnar þar sem mold er sett á líkkistu við grafreit eða í kirkju með orðunum:

Af jörðu erti komin(n) að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa.

En skáldið Sigurður fer allt aðra leið en rítúalið og breytir áhersluröðinni.

Fyrsti hlutinni er samt:  Af jörðu ertu kominn, en í öðrum hlutanum tekur hann fyrir orðin: Af jörðu skaltu upp rísa og í þeim þriðja yrkir hann út frá orðunum: Að jörðu skaltu aftur verða.

Skáldið fjallar um tilurð manneskjunnar og fæðingu hennar af jörðu, um það þegar hún rís af jörðu og þess þegar hún hverfur aftur til jarðarinnar þegar lífsdagur er liðinn.

Maðurinn er mold og væri ekkert nema mold nema af því að Guð blæs lífsanda sínum í moldina eins og í árdaga veraldar.

Lífs- andi Guðs er orð.

Í orðinu sem í upphafi var, sköpunarorðinu sjálfu sem kallaði ljósið fram úr myrkrinu, í því var líf.“

Og sr. Kristján heldur áfram:

„Ljóðin í flokkunum þrem tala hvert fyrir sig og þó heyra þau saman eins og perlur á sama bandi.

Á rauðum þræði.

Öll fjalla þau um beint eða óbeint um tilvist mannsins sem hluta af og þátttakanda í sköpunarverkinu.

Gleðin sem lífinu fylgir þegar það rís af jörðu hverfur ekki þegar það fellur aftur til moldar þó að sorgin fylgi dauðanum.

Dauðinn og sorgin tilheyra ekki myrkrinu heldur ljósinu og lífinu.

Af því að eitt Orð er upphaf alls.

Aðeins Guð getur mælt það orð.“

Og sr. Kristján segir um myndir dr. Péturs Péturssonar: ......(þær eru) djúpar og dularfullar, opna fallegar og lýsandi víddir.

Þær minna á að hið ósegjanlega Orð verður aðeins tjáð í ljóðmáli, myndum og tónum.“

Hann lýkur prólógusnum með þessum orðum:

„Á sinn sérstaka hátt setti ljóðskáldið sjálft fram kjarna þess erindis sem hann á við okkur lesendur sína með þessari ljóðabók sinni þegar hann lagði upp í sína löngu ferð sem hvergi er lokið árið 1986 með fyrstu bók sinni HÚM.“


slg






Myndir með frétt

  • Menning

  • Útgáfa

  • Vígslubiskup

  • Guðfræði

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi