Einlæg trú hans mótaði öll hans verk og skrif

13. febrúar 2024

Einlæg trú hans mótaði öll hans verk og skrif

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir minnist forvera síns með eftirfarandi orðum, en sr. Karl Sigurbjörnsson fyrrum biskup Íslands lést í gær:

 

"Við fráfall Karls Sigurbjörnssonar forvera míns á biskupsstóli er mér þakklæti efst í huga.

Þakklæti fyrir þjónustu hans í kirkjunni, þakklæti fyrir kynni okkar, þakklæti fyrir allt það sem hann gaf með lífi sínu og starfi.

Bækurnar hans allar og færslurnar á facebook sem ég veit að voru mörgum til huggunar, uppörvunar og styrks.

Mér finnst að honum hafi aldrei fallið verk úr hendi.

Hann var einstaklega iðinn og skipulagður.

Ég minnist vísitasíu hans um Vestfjarðaprófastsdæmi.

Einn bjartan júnímorgun sat hann með bók í hendi fyrir utan hótelið á Ísafirði þegar ég sótti hann til heimsókna dagsins.

Hann var að lesa bók með sögu sem gerðist á Ísafirði.

Ég fylgdi honum sem prófastur um vestfirskar heiðar og firði þar sem hann heimsótti hverja kirkju og fjölda fólks.

Hann var hlýr, vel undirbúinn, nákvæmur, fróðleiksfús og virðulegur.

Hann lagði upp úr því að skráðar væru kirkjulýsingar og munir kirknanna og leiðbeindi hvernig það skyldi gert.

Þessar skrár hef ég alltaf með í vísitasíum mínum.

Hann er mín fyrirmynd þegar ég sæki sóknir og söfnuði heim.

Hann átti auðvelt með að koma kærleiksboðskap kristinnar trúar á framfæri enda treysti hann þeim Guði sem Jesús birti og boðaði.

Hann vígðist til prests ungur maður og verkefnið sem beið hans átti sér ekki fordæmi.

Hann vígðist til að þjóna brottflúnum söfnuði Vestmannaeyja í byrjun goss og síðan heimfluttum þegar þeir gátu aftur snúið heim.

Hann miðlaði boðskap trúarinnar í Hallgrímskirkju í Reykjavík um árabil og hafði því mikla reynslu af þjónustu við Guð og náungann þegar hann var valinn til biskupsþjónustu árið 1997.

Nákvæmlega þá voru fyrstu skrefin tekin í aðskilnaði ríkis og kirkju og við blasti að koma þeim breytingum í framkvæmd.

Einlæg trú hans mótaði öll hans verk og skrif.

Hugur minn er nú hjá fjölskyldu hans og vinum sem kveðja góðan eiginmann, föður, tengdaföður, afa og bróður.

Guð gefi þeim öllum styrk og huggun og blessi allar minningarnar sem honum eru tengdar."

 

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá vísitasíu sr. Karls á Vestfjörðum.

 

slg

 



Myndir með frétt

  • Trúin

  • Biskup

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi