Starf kirkjunnar heldur áfram sama hvað

13. febrúar 2024

Starf kirkjunnar heldur áfram sama hvað

Keflavíkurkirkja

Nú er heitt vatn farið að renna inn í hús og híbýli á Suðurnesjum, en eins og alþjóð veit var afar kalt í húsum þar um helgina.

En gat kirkjan starfað í ísköldum kirkjum?

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við prestana þar suður frá og bað þau að segja sér frá því hvernig hafi gengið.

Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson sóknarprestur í Útskálaprestakalli sagði að

„sunnudaginn 11. febrúar hafi staðið til að messa bæði í Sandgerðiskirkju og Útskálakirkju sem er svo sem ekki fréttnæmt.

En vegna ástandsins á hitaveitumálum á Suðurnesjum varð ljóst á föstudag að báðar kirkjurnar yrðu kaldar.

Því var brugðið á það ráð að messa þess í stað í heitri og notalegri Hvalsneskirkju en hún er ekki tengd við hitaveituna heldur er rafmagn notað til hitunar á Hvalsnestorfunni.

Ég hafði verið búinn að senda inn auglýsingar í Moggann og í útvarpið en náði sambandi fyrir lokun þannig að hægt var að breyta auglýsingunum.

Minna mál var síðan að breyta auglýsingum okkar á samfélagsmiðlunum.

Þokkaleg mæting var í messuna en eflaust hafa margir kosið að ylja sér undir sæng heima á þessum sunnudagsmorgni.“

Sr. Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur í Keflavík sagði „að þau hafi aflýst sunnudagaskóla um morguninn þar sem ekki var boðlegt að hafa barnastarf í stórri og kaldri kirkju.

Fyrirhuguð var djassmessa um kvöldið.

Við vildum halda því að hafa kirkjuna opna fyrir fólk sem ef til vill vildi líka eiga samtal eftir messu.

Við þurftum að hafa rafmagnsnoktun í lágmarki og því var djassmessu frestað fram í mars og boðið til acapella söngmessu.

Siggi Pálma og Ásgeir Páll sungu án rafmagns og hljóðfæraleiks.

Söfnuðurinn kom vel klæddur og mörg komu með teppi undir hönd þar sem hitablásari vann ekki vel á kuldanum.

Öll tóku vel undir í söng.

Hlý og góð stund var við kaldar aðstæður."

 

Sr. Baldur Rafn Sigurðsson sóknarprestur í Njarðvíkurprestakalli sagði  að helgihald í Ytri-Njarðvíkurkirkju á sunnudeginum 11. febrúar hafi gengið mjög vel.

"Guðsþjónusta og sunnudagaskóli fór fram í Ytri-Njarðvíkurkirkju en kirkjan og safnaðarsalur höfðu verið upphituð.

Kirkjan er mjög vel einangruð og hægt var að vera með skírn í kirkjunni á laugardeginum 10. febrúar.

Litla skírnarþeganum var vel heitt eins og öðrum kirkjugestum.

Veislan fór síðan fram í safnaðarsalnum og engin kvartaði yfir kulda.

Í Njarðvíkurkirkju í Innri-Njarðvík fór fram hjónavígsla á laugardeginum og frekar kalt var í kirkjunni þótt reynt hafi verið að hita hana upp með hitablásurum.

Það gekk ekki alveg því kirkjan er ekkert einangruð enda frá árinu 1886.

Allt æskulýðs- og barnastarf féll niður í Njarðvíkurkirkju og safnaðarheimili kirkjunnar 12. febrúar vegna kulda."

 

Að lokum má geta þess að opið hús var fyrir Grindvíkinga í Vídalínskirkju á sunnudaginn.

 

slg


  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi