Kirkjan skreytt blöðrum í íslensku fánalitunum

15. febrúar 2024

Kirkjan skreytt blöðrum í íslensku fánalitunum

Útgáfu Biblíunnar fagnað við messu

Fjöldi fólks var saman kominn innan dyra og utan, til að fagna útkomu Biblíunnar á konsómáli á kristniboðsstöðinni gömlu í Konsó sunnudaginn 11. febrúar.

Svo skemmtilega vill til að í ár eru einnig 70 ár frá því fyrstu kristniboðarnir, Felix Ólafsson og Kristín Guðleifsdóttir, hófu störf í Konsó við afar frumstæðar aðstæður.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á samfélaginu öllu á þessum tíma og er kirkjan öflugur farvegur margvíslegra framfara.

Starfið hefur vaxið og um 200 þúsund manns eru í Mekane Yesu kirkjunni í Konsó.

„Þessi dóttur- eða systurkirkja er orðin álíka fjölmenn og þjóðkirkjan hér heima og afrakstur af áratuga starfi kristniboða frá Íslandi“

segir sr. Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kristniboðsfélaga.

"Á þriðja tug Íslendinga starfaði þar um lengri og styttri tíma og sinntu boðun, fræðslu, kennslu og skólamálum, komu upp og ráku heilsugæslu og sinntu neyðaraðstoð á tímum hungursneyða á 8. og 9. áratuginum.

Umfangsmikið áveitukerfi hefur bætt mjög úr fæðuöryggi á svæðinu, sem var þróunarverkefni fjármagnað að mestu af Evrópusambandinu.

Í fyrra varð Konsó sérstakt starfssvæði kirkjunnar, eins konar biskupsdæmi eða sýnóda.

Var þá einnig mikil fagnaðarhátíð og þakkir sendar til Íslands fyrir að hafa komið til Konsó.

Að sögn sr. Ragnars þá var Karl Jónas Gíslason kristniboði fulltrúi Kristniboðssambandsins og Hins íslenska Biblíufélags á hátíðinni sunnudaginn 11. febrúar og flutti kveðjur, en bæði samtökin hafa stutt vel við þýðingarvinnuna. Biblíufélagið kom upp sérstöku Biblíuhúsi í Konsó.

Þar hefur þýðingarvinnan farið fram.

Með Karli Jónasi var Guðlaugur bróðir hans, en þeir eru báðir uppaldir í Eþíópíu og hafa starfað þar á fullorðins árum.

Ferðin verður nýtt til að heimsækja Ómó Rate, við landamæri Keníu en þangað og til Voitó héldu kristniboðarnir þegar starfið í Konsó var orðið sjálfstætt.

"Útgáfa Biblíunnar allrar á konsómáli er að sjálfsögðu menningarsögulegur atburður og mun stuðla að varðveislu tungumálsins og ýmissa menningarverðmæta í leiðinni.

Þegar Nýja testamentið kom út á sínum tíma var það gefið út með eþíópísku letri en nú er Biblían öll með latnesku letri"

segir sr. Ragnar að lokum.

Myndirnar tók Karl Jónas Gíslason.

 

slg



Myndir með frétt

  • Biblían

  • Erlend frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi