Benedikt syngur guðspjallamanninn
Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari mun syngja hlutverk guðspjallamannsins í Jóhannesarpassíunni eftir J.S. Bach þann 25. ferbrúar næstkomandi ásamt
Kór Langholtskirkju.
Tilefnið er af því að um þessar mundir eru 300 ár liðin frá frumflutningi verksins í Leipzig í Þýskalandi.
"Johann Sebastian Bach (1685-1750) hefur ekki að ástæðulausu verið nefndur „fimmti guðspjallamaðurinn“.
Engu tónskáldi hefur tekist betur en honum að klæða frásagnir Nýja testamentisins af Jesú Kristi í tóna.
Jóhannesarpassían var fyrst flutt á föstudaginn langa árið 1724 í Leipzig í Saxlandi þar sem Bach starfaði sem tónlistarstjóri.
Verkið er byggt á frásögn Jóhannesarguðspjalls af síðustu stundunum í lífi Jesú, píslum hans og krossfestingu.
Bach málar sögusvið atburðanna á einstaklega áhrifaríkan hátt með mögnuðu tónmáli sínu.
Kórinn gegnir lykilhlutverki í dramatískri framvindu frásagnarinnar og í þessu verki er að finna marga af glæsilegustu og áhrifamestu kórköflum tónlistarsögunnar.
En Bach leitar líka djúpt undir viðburðaríkt yfirborð þessarar mikilvægustu frásagnar kristinnar hefðar.
Undurfagrar aríur og fínlega dregnar sálmaútsetningar passíunnar eru óviðjafnanlegar biðstöðvar frásagnarinnar þar sem einsöngvarar og kór hugleiða hina hryggilegu atburði.
Þessi tónlist talar á jafn afdráttarlausan, innilegan og uppbyggilegan hátt til mannssálarinnar nú eins og þegar hún hljómaði fyrst"
segir á vef Menningarfélags Akureyrar.
Auk þess að syngja hlutverk guðspjallamannsins mun Benedikt jafnframt syngja allar tenóraríur verksins.
Hann hefur lagt sig sérstaklega eftir flutningi á verkum Bachs og fengið mikla viðurkenningu fyrir list sína í Þýskalandi, Austurríki og víðar.
Á vefsíðu Langholtskirkju segir að:
„í gagnrýni Fréttablaðsins frá tónleikunum 2021 hafi verið sagt:
Frammistaða Benedikts Kristjánssonar, sem var guðspjallamaðurinn og sagði söguna, var mergjuð.
Hann söng meira og minna allan tímann, en verkið tekur um tvær klukkustundir.
Mikið var á hann lagt.
Hann þurfti að túlka alls konar tilfinningar með fínlegum blægrigðum sem komu afar vel út hjá honum.
Gaman hefur verið að fylgjast með honum vaxa; söngur hans er orðinn miklu kraftmeiri en bara fyrir nokkrum árum síðan."
Auk þess segir í gagnrýni í Badische Zeitung, sem út kemur í Þýskalandi, vegna Matteusarpassíu í Freiburger Konzerthaus árið 2018:
"Ef það verður heimsendir á morgun mætti það þá vera þessi guðsgjafaríki tenór sem aðvarar okkur."
Frankfurter Allgemeine Zeitung skrifaði:
"Síðan á föstudaginn langa 2020 flýgur nafn hins unga íslenska tenórs Benedikts Kristjánsonar um heiminn sem eins besta Bach- söngvara samtímans"
en það var í miðjum heimsfaraldri að Benedikt vakti heimsathygli þegar hann flutti Jóhannesarpassíuna í tómri Tómasarkirkju í Leipzig á föstudaginn langa.
Tónleikunum var streymt á netinu og hafa þeir fengið lofsamlega dóma og eru ógleymanlegir öllum sem á þá hlustuðu.
Í nýlegri gagnrýni á plötunni JUDAS í Frankfurter Allgemeine Zeitung stóð:
"Varla er hægt að hugsa sér nokkurn hæfari en hinn framúrskarandi Bach söngvara Benedikt Kristjánsson, son söngkonu og guðfræðings sem varð biskup á Íslandi til að tala fyrir munn (Júdasar)."
En sem kunnugt er þá er Benedikt sonur hjónanna Margrétar Bóasdóttur, fyrrum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, fyrrum vígslubiskups í Skálholti.
slg