Kyrrð og slökun á föstu í Ástjarnarkirkju
Eins og fram hefur komið á kirkjan.is þá er fastan hafin, en það er tímabilið nefnt frá öskudegi til páska.
Fastan er tími íhugunar og margar hefðir eru til um hvernig best er að haga íhugun sinni.
Í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði hefur verið bryddað upp á mörgum nýjungum.
Í upphafi föstutímans er boðið upp á Yoga Nidra djúpslökun í fáein skipti.
Að sögn sr. Bolla Péturs Bollasonar prests í Ástjarnarprestakalli þá hefur „framtakið fengið mjög góðar viðtökur og þátttakendur koma víða að og njóta kyrrðar og slökunar í kirkjuskipi undir styrkri stjórn Ingibjargar Kristínar Ferdinandsdóttur jógakennara.
Hún hefur til að mynda boðið upp á Yoga Nidra djúpslökun í Hæfi endurhæfingarstöð í Egilshöll og í Ljósinu sem er endurhæfingarstöð fyrir krabbameinsgreinda við Langholtsveg.“
En samræmist jóga kristinni trú?
Sr. Bolli Pétur segir að „kirkjan sé sem betur fer hreyfing sem getur horft út fyrir boxið og nýtt sér alls konar strauma og stefnur án þess að skyggt sé þar á Krist.
Hann bendir á að hugleiðslustefnur og straumar úr austurvegi hafi ósjaldan hjálpað vestrænum nútímamanninum að slaka á í amstri daganna, leiða hugann að fegurð lífs og sálar, og ná styrkari tengingu við sjálfið og hugann og hjartalagið.
„Hugleiðsla og djúpslökun er sem bæn og visst andlegt ferðalag hvar við hvílum í fráteknum tíma fyrir okkur sjálf í kyrrð og slökun og dýpri vitund“, bætir sr. Bolli við.
Kjalarnessprófastsdæmi styrkir þetta föstutilboð Ástjarnarkirkju þannig að hægt er að hafa það gjaldfrjálst og þátttakendahópurinn er sannarlega veglegur og fjölbreyttur.
Hver þátttakandi mætir á svæðið með sjálfan sig, dýnu, púða, teppi, og augnhvílu og kemur sér fyrir á gólfi kirkjuskips og hlýðir á leiðsögn Ingibjargar við kertaljós í kyrrlátu febrúarrökkri síðdegisins.
Að afloknum hverjum tíma, sem tekur um það bil 45 mínútur, gengur svo fólk aftur út í dagsins önn en á leiðinni hefur presti þótt notalegt að heyra setningar flögra um rýmið á borð við þessar:
„Mikið sem ég hvíldist vel.“
„ Hvílík lífsgæði sem finna má í kyrrðinni.“
„ Hvenær er svo messað hérna?“
„ Takk fyrir þetta frábæra framtak kirkjunnar!“
Boðið er upp á þrjú skipti af Yoga Nidra djúpslökun í Ástjarnarkirkju og þriðja og síðasta skiptið verður miðvikudaginn 28. febrúar kl. 18:00-18:45.
slg