Barna- og unglingakórastarf í Hafnarfjarðarkirkju
Í Hafnarfjarðarkirkju starfa þrír barna- og unglingakórar.
Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju tekur mikinn þátt í kirkjustarfinu, enda er starfið mjög fjölbreytt.
Rúmlega tuttugu krakkar taka þátt í Unglingakórnum í vetur.
Þau eru á aldrinum 10-15 ára.
Kórinn æfir einu sinni í viku í eina klukkustund og 15 mínútur.
Einu sinni yfir veturinn er æfingardagur eða æfingabúðir, þar sem sofið er í eina nótt.
Að sögn Helgu Loftsdóttur, stjórnanda kórsins þá er „mikilvægt að búa börnunum aðstæður til að þau hafi tækifæri á að kynnast og höfum við yfirleitt pásu á æfingum þar sem boðið er upp á smá hressingu á meðan spjallað er.
Náttfatapartý/gistipartý eru einu sinni á önn og við förum á Barnakóramót Hafnarfjarðar einu sinni á ári og tökum þátt í Landsmóti íslenskra barnakóra þegar það hentar.
Kórinn hefur reglulega farið í söng og skemmtiferðir til útlanda á vorin og nú í vor fer kórinn á Norrænt barnakóramót í Danmörku í maí.
Ef kórinn fer ekki til útlanda hefur verið farið í stutta óvissuferð innanlands.
Kórinn tekur þátt í kirkjulegum athöfnum um það bil tvisvar til þrisvar á önn.
Hann tekur mikinn þátt í jólahelgihaldi kirkjunnar.
Krakkarnir syngja á jólavöku við kertaljós, setja upp jólaleikrit og svo syngja þau stundum á jóla- eða vortónleikum með öðrum kórum kirkjunnar.
Stundum syngur kórinn utan kirkjunnar allt eftir því sem tækifæri gefst á“
segir Helga og bætir við:
„Ég er líka með ungmennakórinn Bergmál sem er kór sem stofnaður var haustið 2022.
Uppistaða hans eru fyrrverandi kórfélagar úr barna- og unglingakórum kirkjunnar.
Kórfélagar eru á aldrinum 16-26 ára.
Kórinn æfir einu sinni í viku í tæpar 2 klukkustundir og kemur hann fram í kirkjunni nokkrum sinnum á ári.
Einnig syngur hann við útskrift í Flensborg, en kórfélagar sem stunda nám við Flensborg hafa fengið einingar metnar fyrir þátttöku í kórnum.
Í kórnum eru flottir, litríkir og músíkalskir einstaklingar sem bæði hafa samið texta og lög sem kórinn hefur látið útsetja fyrir sig“
segir Helga að lokum
Barnakór Hafnarfjarðarkirkju er ætlaður fyrir börn í 1. - 5. bekk.
Stjórnandi hans er Brynhildur Auðbjargardóttir.
Brynhildur segir að „börnin í barnakórnum útskrifist úr kórnum um áramót og ganga upp í unglingakórinn á meðan þau eru enn í 5. bekk.
Að þessu sinni eru 15 börn í kórnum.
Þau mæta á æfingar einn klukkutíma í viku.
Þau koma fram í fjölskylduguðþjónustum að lágmarki tvisvar á önn.
Í desember flytja þau ávallt helgileik ásamt unglingakór kirkjunnar og er það samstarfsverkefni.
Síðustu jól kom barnakórinn fram í guðþjónustu sem var sjónvarpað á RÚV á jóladegi.
Þar komu allir kórar kirkjunnar fram.
Ég legg áherslu á að skapa gott samfélag í barnakórnum í leik og starfi.
Við bröllum ýmislegt, erum með náttfata/pizzuæfingar, óvissuferð og fleira.
Ég á í mjög góðu samstarfi við Helgu Loftsdóttur stjórnanda Unglingakórsins og ungmennakórsins Bergmál.
Við höldum stundum vortónleika og eða jólatónleika saman“
segir Brynhildur að lokum.
slg