Boðunardagur Maríu í Hallgrímskirkju

15. mars 2024

Boðunardagur Maríu í Hallgrímskirkju

Á Boðunardegi Maríu sunnudaginn 17. mars kl. 17:00 verða stuttir tónleikar í Hallgrímskirkju þar sem Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju flytur Ave Maris Stella eftir franska barokktónskáldið Nicolas De Grigny.

Ásamt honum syngur sönghópnurinn Cantores Islandiae Gregorska hymnan Ave Maris Stella undir stjórn Ágústs Inga Ágústsonar.

Í beinu framhaldi verður sunginn aftansöngur úr bókinni Íslenskur tíðasöngur.

Sr. Eiríkur Jóhannsson prestur í Hallgrímskirkju leiðir stundina og forsöngvari er Ágúst Ingi Ágústsson.

Kl. 16:00 sama dag verður opin æfing þar sem aftansöngurinn verður kynntur og undirbúinn.

Nánari upplýsingar má finna hér


Nicolas de Grigny fæddist árið 1672 í Reims í Frakklandi.

Hann fæddist inn í fjölskyldu tónlistarmanna.

Faðir hans, afi og frændi störfuðu sem organistar við dómkirkjuna í Reims.

Árin 1693 til 1695 starfaði hann sem organisti klausturkirkju Saint Denis í París.

Samtímis stundaði Grigny nám hjá Nicolas Lebègue, eins af mikilvægustu barokktónskáldum Frakklands.

Árið 1695 giftist Grigny Marie-Magdeleine de France, dóttur kaupmanns í París.

Svo virðist sem hann hafi snúið aftur til heimabæjar síns skömmu síðar: heimildir um fæðingu fyrsta sonar hans benda til þess að de Grigny hafi þegar verið í Reims árið 1696.

Hjónin eignuðst sex börn til viðbótar.

Árið 1697 var Grigny skipaður organisti við Notre-Dame de Reims, hinnar frægu dómkirkju borgarinnar þar sem franskir konungar voru krýndir.

Árið 1699 gaf tónskáldið út Premier livre d'orgue, sem inniheldur messu og helstu hymna stórhátíða kirkjunnar.

Grigny lést árið 1703, langt fyrir aldur fram aðeins 31 árs að aldri.

Livre d'orgue var endurútgefin árið 1711 og varð þekkt víða um Evrópu, ma. afrituð af Johann Sebastian Bach og Johann Gottfried Walther.

Ave Maris Stella eða „Heill þér hafsins stjarna“ eins og Matthías Jochumsson kvað er hymni frá miðöldum sem oftast er eignaður Bernard de Clairvaux.

Hymninn skipar stórann sess í helgihaldi kaþólsku kirkjunnar við aftansöng og á hátíðisdögum Maríu guðsmóður.

Víxlflutningur

Sú hefð að flytja kirkjusönginn in alternatim, eða til skiptis milli söngvara og orgels, varð hin viðtekna venja á 15.-17. öld á Ítalíu, Spáni, Niðurlöndum og í Frakklandi.

Í stað þess að syngja allan texta tiltekins söngs í guðsþjónustunni var versunum skipt milli orgelsins og kórsins.

Í raun var einfaldlega um að ræða útfærslu á hinum hefðbundna víxlsöng þar sem versum var skipt milli tveggja kóra eða milli kórs og forsöngvara.

Notast var við þetta fyrirkomulag jöfnum höndum í messunni og tíðasöngnum en það var sérstaklega algengt við flutning á lofsöng Maríu.

Tilgangurinn var að auka á fjölbreytileikann og draga úr einhæfni auk þess að hvetja til íhugunar.

Þessi víxlflutningur gerði töluverðar kröfur til organistans sem þurfti að geta reitt fram fjölmörg spunnin tónverk á orgelið á milli hinna sungnu versa.

Þannig gat organisti við tiltekna kirkju þurft að spinna allt að 100 tónverk á dag og hann gat þurft að spila um 400 guðsþjónustur á ári hverju.

Þetta hafði í för með sér mjög hraða þróun í bæði spuna- og tónsmíðatækni, sem og orgelsmíði.

Þessi hefð festi sig svo rækilega í sessi í kaþólsku kirkjunni að árið 1600 gaf Clemens VIII páfi út tilskipun þar sem beinlínis voru gefin fyrirmæli um að syngja skyldi tiltekna söngva í víxlsöng, en einnig var kveðið á um það hvaða söngva mætti ekki flytja með þessu móti. Fyrirmæli páfa voru á þá leið að hljóðfæratónlistin skyldi auka við áhrif textans, bæði þess texta sem tónlistin leysti af hólmi og þess sem sunginn var á móti.

In alternatim eða víxlsöngs hefðin var við lýði allt til upphafs 20. aldar þegar hún var alfarið lögð af með tilskipun Píusar X páfa árið 1903.

Tíðagjörð á sér fornar rætur í trúariðkun Gyðingdóms og kristni.

Það er reglubundin bænagjörð sem byggir á Davíðssálmum og öðrum biblíulegum lofsöngvum og lestrum úr ritningunni.

Hér á landi hefur tíðagjörðin verið þekkt alla tíð.

Í klaustrum, dómkirkjum og höfuðkirkjum.

Eftir siðbót var tíðasöngur sunginn á biskupsstólum og latínuskólunum.

Smám saman komu þó rímaðir sálmar við alþýðleg lög í stað lofsöngva biblíunnar.

Í tíðasöng heyrum við eins og nið aldannna, enduróm af bænum og söngvum kynslóðanna.

Aftansöngur á aðfangadag og á gamlárskvöld er hluti af þessari arfleifð.

Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju í Reykjavík.

Hann kennir jafnframt orgelleik við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands.

Björn Steinar stundaði tónlistar¬nám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík.

Hann stundaði framhaldsnám á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik, Prix de virtuosité, árið 1986.

Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku.

Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.

Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfs¬sonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS.

Sönghópurinn Cantores Islandiae var stofnaður í Reykjavík haustið 2018 af Ágústi Inga Ágústssyni og Gísla Jóhanni Grétarssyni.

Hópurinn leggur áherslu á gregorssöng í verkefnavali sínu en einskorðar sig þó ekki við hann.

Stjórnandi kórsins er Ágúst Ingi, en hann hefur lagt stund á gregorssöng um nokkurt skeið.

Ágúst Ingi starfaði sem organisti hjá kaþólsku kirkjunni í Hafnarfirði árin 1993-2000 og var stjórnandi gregorskórsins Cantores Iutlandiae í Danmörku árin 2011-2017.

Meðal nýlegra verkefna Cantores Islandiae er fyrsti flutningur á Messe de Nostre Dame eftir 14. aldar tónskáldið Guillaume de Machaut með upprunahljóðfærum, Vespro della Beata Vergine eftir Claudio Monteverdi og hljóðritun á söng úr íslensku handriti frá 15. öld fyrir Stofnun Árna Magnússonar.



slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi