Gvendardagur haldinn hátíðlegur á Hólum

18. mars 2024

Gvendardagur haldinn hátíðlegur á Hólum

Hóladómkirkja

Gvendardagur eða dagur Guðmundar góða var haldinn hátíðlegur heima á Hólum í gær sunnudaginn 17. mars.

Hátíðahöldin hófust með messu í Hóladómkirkju kl. 14:00.

Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum prédikaði og þjónaði fyrir altari.

Kór Hóladómkirkju leiddi sönginn og organisti var jóhann Bjarnason.

Í messunni var þess sérstaklega minnst að í ár eru 350 ár frá því að sálmaskáldið sr. Hallgrímur Pétursson lést, en hann fæddist á Gröf á Höfðaströnd árið 1614 og ólst upp á Hólum í Hjaltadal.

Eftir messuna voru kaffiveitingar á Kaffi Hólum.

Eftir að kirkjugestir höfðu hresst sig á kaffi var opnuð sýningin Fjallkirkjan og formæður hennar í Auðunarstofu.

Er sýningin í tilefni af 260 ára afmæli Hóladómkirkju, en hún var vígð þann 20. nóvember árið 1763.

Sýningin er um sögu kirkjubygginga á Hólum.

Sigríður Sigurðardóttir lektor við Háskólann á Hólum kynnti sýninguna og dr. Guðrún Harðardóttir flutti erindi um hinar fornu Hóladómkirkjur.

Dagskráin var á vegum Hóladómkirkju og Guðbrandsstofnunar.

 

Að sögn sr. Gísla Gunnarssonar vígslubiskups tókst öll dagskráin ljómandi vel og var vel sótt.

Á vef Þjóðminjasafnsins má finna þessar upplýsingar um Gvendardag:

Dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskips 16. mars 1237 hlaut seinna nafnið Guðmundardagur eða Gvendardagur.

Guðmundur var fæddur árið 1161 og varð biskup á Hólum árið 1203.

Guðmundur mátti ekkert aumt sjá og safnaðist löngum að honum tötralýður.

Hann lenti því brátt í deilum við höfðingja norðanlands, einkum fyrir þá sök að þeim þótti hann fara ógætilega með fé Hólastóls.

Var hann þrásinnis flæmdur af staðnum og flakkaði þá um landið með herskara fátækra í för með sér.

Af þessum sökum hlaut hann viðurnefnið góði.

Eftir dauða Guðmundar var langvarandi viðleitni í þá átt að fá Guðmund viðurkenndan sem heilagan mann sem þó aldrei varð.

Andlátsdagur Guðmundar, 16. mars, var enginn sérstakur hátíðisdagur fyrr en árið 1315 þegar bein hans voru tekin úr jörðu og skrínlögð í Hóladómkirkju fyrir forgöngu Auðuns biskups rauða.

Til eru heimildir um að á þessum degi hafi búmenn verið skyldaðir til að gefa ölmusumálsverð og fremur átt að hygla fátækum á þessum degi sem og að gefa bæjarhröfnum betur en ella.

Eins eru til heimildir um að búast mætti við veðrabrigðum þennan dag. (Árni Björnsson, 1996)

Myndirnar hér fyrir neðan tóku sr. Gísli Gunnarsson og kona hans Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir.

 

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Vígslubiskup

  • Fræðsla

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi