Fjölsóttur kynningarfundur á Selfossi
Kynningarfundir fyrir biskupskosningarnar í apríl verða í öllum prófastsdæmum landsins.
Fyrsti fundurinn var í Suðurprófastsdæmi og var haldinn á Selfossi.
Húsfyllir var í safnaðarheimili kirkjunnar og var starfsfólk á þönum alveg þar til fundurinn hófst að bera inn stóla svo allir gætu fengið sæti.
Áætalað er að um 120 manns hafi verið í salnum.
Fundurinn var í beinu streymi á kirkjan.is og voru yfir hundrað manns á streyminu.
Upptöku af fundinum má finna hér.
Fundurinn fór þannig fram að frambjóðendur fengu 10 mínútur í upphafi til að kynna sig og fyrir hvað þau standa.
Síðan var boðið upp á fyrirspurnir og umræður og að lokum fengu frambjóðendur fjórar mínútur í lokaorð.
Sr. Halldóra Þorvarðardóttir prófastur í Suðurprófastsdæmi stjórnaði fundinum af mikilli röggsemi og var fundi lokið á mínútunni 19:00 eins og auglýst hafði verið.
Fyrst til að kynna sig var sr. Elínborg Sturludóttir prestur í Dómkirkjunni í Reykjavík.
Sagði hún að biskup Íslands þyrfti að hafa góða yfirsýn, hafa tvö augu, tvö eyru og einn munn sem talar af festu.
Hún vísaði til reynslu sinnar af því að ganga pílagrímagöngur um gömlu göturnar þar sem fólk gekk alltaf hlið við hlið.
„Biskup þarf alltaf að ganga með öðrum“ sagði hún.
Þá greindi hún frá ætt sinni og uppruna í Stykkishólmi.
Sagði hún að þar hafi verið jákvæð afstaða til kirkjunnar og kristni á staðnum.
Hún vann öll þau störf sem til féllu í þorpinu, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og fór síðan til Frakklands.
Hún tók BA próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og cand. theol. próf frá sama skóla.
Hún var skiptinemi í Danmörku og bjó í þrjú ár í Þýskalandi.
Hún er gift dr. Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni héraðspresti í Reykjavíkuprófastsdæmi vestra og eiga þau þrjú börn á aldrinum 16- 26 ára.
Hún hlaut prestvígslu fyrir 20 árum, þjónaði í Grundarfirði, í Stafholti í Borgarfirði og nú síðast í Dómkirkjunni í Reykjavík.
Hún er með framhaldsnám í sálgæslu.
Sr. Elínborg er með ástríðu fyrir pílagrímagöngum og hefur stikað og merkt pílagrímaleiðina frá Bæ í Borgarfirði í Skálholt.
Auk þess hefur hún leitt fjölmarga hópa á Jakobsveginum.
Hún sagði að engin hreyfing á landinu búi yfir eins stórum og virkum hópi fólks eins og kirkjan, en bætti við að ef til vill væru björgunarsveitirnar stærri.
Hún dáðist að prestum í Kjalarnesprófastsdæmi hvernig þau hafa hlúð að Grindvíkingum og sagði frábært starf nöfnu hennar Elínborgar Gísladóttur sóknarprests í Grindavík vera til fyrirmyndar.
Hún sagði að í þjóðkirkjunni væri sterkur kjarni fólks sem þykir vænt um kirkjuna sína og vill hún að kirkjan hafi sterka rödd í samfélaginu.
Til þess þarf biskup Íslands að veita innblástur og styrk.
Hún sagði mikið ánægjuefni að ný stjórnskipun kirkjunnar hafi verið samþykkt á kirkjuþingi og kosin hafi verið ný stjórn.
Allt er þar á réttri leið eftir erfiða umbreytingatíma.
„Nú er komið að því að styrkja söfnuðina“ sagði hún „það þarf að treysta fjárhag safnaðanna og vinna í sóknargjöldunum.
Lokaorð hennar voru á þá leið að ítreka þá staðreynd að sóknirnar eru grunneining kirkjunnar, sem þarf að styrkja og það er meðal annars hlutverk biskups Íslands að styrkja þær grunneiningar.
Þá tók til máls sr. Guðrún Karls- Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju.
Sagði hún í upphafi máls síns að við brennum öll fyrir kirkjuna og kirkjan á erindi við alla.
Hún vill leiða kirkju sem er í sókn.
Í kirkjunni er andleg næring og skjól í amstri hversdagsins og kirkjan er að vinna fjölbreytt starf um allt land.
Hún vill styðja við allt þetta starf.
Sr. Guðrún er gift Einari Sveinbjörnssyni prófessor við Haskóla Íslands og á hún tvær dætur og tvær dótturdætur.
Hún ólst upp í Kópavógi og Hnífsdal og var í sveit á sumrin, enda var föðurafi hennar prestur í sveit.
Hún hefur verið prestur í 20 ár þar af 16 ár í fjölmennasta söfnuði landsins Grafavogssókn og í fjögur ár þjónaði hún sem prestur á Gautaborgarsvæðinu í Svíþjóð.
Hún hefur setið á kirkjuþingi og í stjórn Prestafélags Íslands.
Sr. Guðrún stundaði nám í prédikunarfræðum og hefur kennt það fag við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Hún hefur búið í fjórum löndum og bjó meðal annars í Ástralínu árið 2020 þegar heimsfaraldurinn skall á, en þar skrifaði hún bókina Í augnhæð.
Hún leggur áherslu á samtal, samvinnu og samfélag.
Hún hefur leitt starfið í Grafarvogssókn í góðu samstarfi við starfsfólk þar.
Hún telur mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir verkefnin, sjá kosti annarra og leyfa fólki að blómstra.
Biskup Íslands verður að leita til góðra ráðgjafa.
Biskup er hirðir hirðanna og alls kirkjufólks.
Biskup er jafningi sem tekur þátt í lífi þjóðarinnar í gleði og sorg.
Biskup þarf að taka þátt í samfélagslegri umræðu og kirkjan þarf að vera í stöðugri siðbót.
Umræða innan kirkjunnar getur verið sársaukafull, en sr. Guðrún var á sínum tíma í hópi presta sem barðist fyrir hjónavígslu allra.
Kirkjan þarf að vera boðberi flóttafólks og þarf að taka skýra afstöðu í umhverfismálum.
Henni líst vel á nýtt skipulag í kirkjunni og segir það líkt því sem er í söfnuðum landsins.
Sagði hún að sóknargjöldin yrðu að hækka.
Að lokum sagði hún að kirkjan væri öflug fjöldahreyfing og kjarninn í henni væri fagnaðarerindið sjálft.
„Trúin breytir öllu“ sagði hún og sagðist sjálf eiga lifandi trú.
„Guð er kærleikur sem við getum leitað til.
Jesús Kristur kom í heiminn til að sýna okkur hver Guð er.
Með samstilltu átaki getum við lyft kirkjunni upp.“
Síðastur af þessum þremur var sr. Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi.
Hann hóf mál sitt á því að tilkynna að hann ætti afmæli í dag og væri 58 ára gamall.
Þá var sunginn afmælissöngurinn.
Sr. Guðmundur Karl er úr Keflavík og er kvæntur Kamillu Hildi Gísladóttur, kennara og eiga þau þrjú börn og tvær afastelpur.
Hann hefur verið sóknarprestur í Lindakirkju í 22 ár, en var áður æskulýðsprestur hjá Kristilegri skólahreyfingu og sóknarprestur á Skagaströnd.
Þar fékk hann reynslu af því að vera landsbyggðarprestur, en hann sagði að þeir væru virkjaðir til margs annars en að vera prestar.
Þá varð hann prestur við Hjallakirkju, en þá var Kópavogur í örum vexti svo eftir tvö ár þar var hann orðinn sóknarprestur í Lindakirkju.
„Miklar breytingar hafa orðið í kirkjunni á 22 árum“ sagði hann.
Fyrst var skrifstofa hans í færanlegri kennslustofu og messað var í skólanum.
Safnaðarstarfið hefur vaxið mikið, enda sagði hann að hann væri fyrst og síðast prestur.
Hann hefur brunnið fyrir safnaðarstarfinu, enda er fjölbreytt starf í Lindakirkju og það er gefandi starf að hans mati.
Söfnuðurinn hefur sérstöðu varðandi tónlist og hann hefur verið spurður að því hvort hann verði gospelbiskup.
Hann svaraði því til að í þjóðkirkjunni verðum við að bjóða upp á fjölbreytni í helgihaldi.
Hann hefur komið að handritaskrifum og gerð barnaefnis fyrir kirkjuna.
Hann hefur samið texta og tónlist.
Sagði hann að þjóðkirkjan verði að sýna sitt rétta andlit, enda víðast hvar unnið frábært starf.
Lagði hann áherslu á að núna hefðum við tækifæri til að breiða út boðskapinn á samfélagmiðlum.
Mannval er mikið í söfnuðum landsins og því þurfum við að hafa augu og eyru opin fyrir hæfileikum annarra.
Hann segist ekki segja fólki fyrir verkum því hann treysti fólki sem hann vinnur með.
Að lokum lagði hann áherslu á innra starfið og að kirkjan eigi að vera framsækin og þeirri kirkju vill hann þjóna og helga krafta sína.
Næsti kynningarfundur verður í Austurlandsprófastsdæmi og verður haldinn í Egilsstaðakirkju fimmtudaginn 21. mars kl. 17:00.
Meðfylgjandi myndir tók Haraldur Guðjónsson Thors.
slg