Tvö stórmót ÆSKH haldin í Vatnaskógi

20. mars 2024

Tvö stórmót ÆSKH haldin í Vatnaskógi

Um helgina var haldið NTT mót, í Vatnaskógi, sem var mót fyrir níu til tólf ára börn af höfuðborgarsvæðinu.

Þar voru hressir og glaðir krakkar frá kirkjum víðsvegar af stór höfuðborgarsvæðinu ásamt góðum gestum frá Selfossi.

Þetta er annað stórmótið sem að ÆSKH heldur ásamt svæðisstjóra æskulýðsmála í Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmum á þessu ári, en helgina 16.-18. febrúar var fyrsta stórmót sambandsins sem nýlega var stofnað undir heitinu Æskulýðssamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Svæðisstjóri æskulýðsmála í þessum þremur prófastsdæmum er Anna Elísabet Gestsdóttir djákni.

„Um 65 börn voru í sólarhring í Vatnaskógi um helgina og var margt brallað“ segir Elín Salbjörg Agnarssdóttir, sem var móttstjóri, en hún er ritari í stjórn sambandsins.

„Þar voru til dæmis í boði leikir og hoppukastali í íþróttahúsinu, karókí, föndur og spil.

Að venju var haldin kvöldvaka þar sem farið var í leiki, sungið og skemmt sér.

Á kvöldvökunni var einnig hæfileikakeppni þar sem söngfugl frá Lágafellskirkju hreppti sigurinn og fékk félagið þeirra bikar í verðlaun.

Það verður spennandi að vita hvort þau muni vinna aftur að ári“ segir Elín.

„Þema mótsins var Gullna reglan og fengum við góða fræðslu frá Sjöfn Þórarinsdóttur, æskulýðsfulltrúa Selfosskirkju ásamt Steinunni Önnu Baldvinsdóttur æskulýðsfulltrúa Seljakirkju um það hvernig gullna reglan passar alls staðar í lífinu.

Það var greinilegt að börnin tóku þetta til sín því þau komu fallega fram við hvert annað og allir skemmtu sér vel“

segir Elín Salbjörg að lokum.

Helgina 16. -18. febrúar var fyrsta stórmót ÆSKH haldið í Vatnaskógi í samstarfi við svæðisstjóra Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæma og komu unglingar frá Selfossi einnig.

„Á mótinu voru um 120 unglingar sem skemmtu sér konunglega“ segir Margrét Heba Atladóttir mótsstjóri og heldur áfram:

„Þar var ýmislegt brallað og gekk allt vel.

Boðið var upp á heita potta, brjóstsykursgerð, skemmtilega leiki í íþróttarhúsinu, föndur og margt fleira.

Að sjálfsögðu voru kvöldvökur haldnar þar sem mikið var sungið og haft gaman.

Haldið var í góðar hefðir og var hin skemmtilega og frumlega hæfileikakeppni æskulýðsfélaga haldin.

Flest æskulýðsfélög tóku þátt og voru atriðin hvert öðru betra“ segir Margrét Heba.

„Dómnefndin átti erfitt með að velja á milli atriða en bikarinn þetta árið fór til æskulýðisfélagsins ósoM í Lágafellsprestakalli með atriði þar sem frumsamið rapplag var flutt.

Bikarinn er farandbikar og því fengu þau einnig spil í verðlaun.

Sömuleiðis var ratleikur þar sem æskulýðsfélagið sakúL, sem er æskulýðsfélag í Árbæjarkirkju, fékk flest stig og varð því sigurvegari þetta árið.

Við fengum góðan gest“ segir Margrét Heba „Hafdísi Ósk Baldursdóttur sem sagði okkur frá verkefni sem systir hennar Anna Þóra Baldursdóttir stendur fyrir sem heitir Haven Rescue Home, og er starfrækt í Kenía.

Haven Rescue home er heimili fyrir stúlkur, 18 ára og yngri, sem eru barnshafandi og mæður ungra barna.

Vegna mikillar fátæktar fá þessar stúlkur ekki tækifæri til að ljúka skólagöngu.

Markmið Haven Rescue Home er að gefa þessum stúlkum tækifæri til betra lífs.

Á meðan þær klára skólagönguna er þeim boðið að búa með barnið sitt inni á heimilinu og fá nauðsynlega aðstoð til að geta sinnt bæði skóla og barni.

Með því að klára skólagöngu eiga þær svo möguleika á að fá góða vinnu og geta flutt út í þjóðfélagið aftur sem sterkari einstaklingar.

Á mótinu var sjoppa og fór allur ágóði hennar til styrktar þessu frábæra og mikilvæga verkefni sem Haven Rescue Home stendur fyrir.

Að lokinni dvöl okkar í Vatnaskógi var stoppað í Saurbæjarkirkju í Hvalfirði þar sem lokastund var haldin“

sagði Margrét Heba að lokum.


slg


Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Biblían

  • Fræðsla

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi