Unglingastarfið fyrir norðan

21. mars 2024

Unglingastarfið fyrir norðan

Þrjár kirkjur á Norðurlandi tóku sig saman síðastliðið föstudagskvöld og héldu eitt gott skemmtikvöld fyrir unglingana í boði Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis.

Þetta voru Akureyrarkirkja, Dalvíkurkirkja og Glerárkirkja.

Í frétt frá Sonju Kro æskulýðsfulltrúa Akureyrarkirkju þá voru það 49 einstaklingar, ungmenni og leiðtogar sem áttu þrusugott kvöld saman.

„Dagskráin hófst á pílukeppni í góðum pílusal Þórsara í Laugargötu.

Þar spreyttu ungmennin sig og æfðu hæfni sína og höfðu mikið gaman af.

Því næst var gengið niður í Akureyrarkirkju og var pizza í boði fyrir alla svanga maga.

Að kvöldverði lokum var Dalvíkurrútan nýtt til að ferja alla í skautahöllina, þar sem fjörugt skautadiskó var í gangi.

Allir fengu skauta og skelltu sér á svellið undir dúndrandi tónlist og ljósashowi.

Í lok kvöldsins var svo farið aftur til baka í Akureyrarkirkju þar sem allir tóku virkan þátt í helgistund.“

„Við erum svo lánsöm“ segir í fréttinni „að hafa leiðtogana Maríu Björk Jónsdóttir og Láru Ósk Hlynsdóttir sem syngja eins og englar og sungu þær sitt hvort lagið.

Einnig var tekinn samsöngur upphafsbæn og lokabæn.

Gjörningurinn frá æskulýðsdeginum, trú, von og kærleikur var framkvæmdur og í hugleiðingunni ræddi sr. Erla Björk Jónsdóttir prestur í Dalvíkurprestakalli við unglingana meðal annars um þakklæti í sinni víðustu mynd.

Þetta kvöld tókst vel í alla staði.

Unglingarnir voru til fyrirmyndar og skemmtu sér vel.

Leiðtogarnir áttu góða stund og unnu vel saman við að halda utan um hópinn.

Á slíkum kvöldum styrkjast tengslin milli unglinganna og eins milli leiðtoga kirknanna þriggja, sem er svo mikilvægt fyrir áframhaldandi samstarf.

Áhugi er fyrir því að gera þetta að árvissum viðburði.

Við erum svo sannarlega þakklát fyrir unglingana okkar sem koma vikulega í sitt æskulýðsfélag.

Mikilvægt er að sinna því starfi vel, bæði upp á framtíð kirkjunnar sem og framtíð unglinganna sjálfra.“

Þau sem stóðu að undirbúningi mótsins voru Sonja Kro æskulýðsfulltrúi í Akureyrarkirkju, Erla Björk Jónsdóttir prestur í Dalvíkurkirkju, Eydís Ösp Eyþórsdóttir djákni í Glerárkirkju, María Björk Jónsdóttir leiðtogi í Akureyrarkirkju, Lára Ósk Hlynsdóttir leiðtogi í Dalvíkurkirkju, Felix Hrafn Stefánsson leiðtogi í Akureyrarkirkju, Stefán Andri Björnsson, Jóhannes Már Pétursson og Guðlaugur Sveinn Hrafnsson leiðtogar í Glerárkirkju.

 

slg


Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi