Fjölskyldur úr alþjóðlega söfnuðinum fara með í safnaðarferð
Í gær fór hópur úr Breiðholtskirkju og Alþjóðlega söfnuðinum í sína árlegu safnaðarferð.
Ferðinni var fyrst heitið í Hallgrímskirkju í Saurbæ þar sem sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti og nú staðarhaldari í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, tók á móti hópnum og flutti fyrirlestur um Hallgrím Pétursson og Hallgrímskirkju í Saurbæ.
Að sögn sr. Péturs Ragnhildarsonar prests í Breiðholtsprestakalli þá hélt hópurinn þaðan í sumarbúðirnar Vindáshlíð í Kjósinni.
„Þar tók Helga Sóley Björnsdóttir framkvæmdarstjóri Vindáshlíðar vel á móti hópnum ásamt fleiri Hlíðarmeyjum.
Hópurinn naut hádegisverðar þar og fræðslu um starf Vindáshlíðar.
Að lokum var frjáls tími til þess að ganga um staðinn og skoða.
Ferðin endaði á kaffi og kökum í Vindáshlíð áður en haldið var aftur heim“ segir sr. Pétur, en hann og Steinunn Þorbergsdóttir djákni voru farastjórar ferðarinnar.
Aðspurður segir sr. Pétur að ferðin hafi verið afar vel heppnuð.
,,Hópurinn samanstóð einkum af fólki úr eldri borgarastarfi Breiðholtskirkju og svo fjölskyldum úr Alþjóðlega söfnuðinum.
Fólkið okkar var mjög ánægt með fræðsluna í ferðinni og börnin skemmtu sér konunglega í Vindáshlíð, enda margt skemmtilegt að sjá og gera þar.
Einnig vakti hundur rútubílstjórans sem var með í ferðinni mikla lukku.
Undir lok ferðarinnar bauð kona frá Nígeríu sem hefur verið þátttakandi í Alþjóðlega söfnuðinum upp á heimabakaða kleinuhringi sem setti skemmtilegan svip á ferðina” sagði sr. Pétur að lokum.
Breiðholtskirkja fer á hverju ári í safnaðarferð að vori og hefur undanfarin ár skapast sú hefð að fjölskyldur úr Alþjóðlega söfnuðinum í Breiðholtskirkju komi með í ferðina.
Meðfylgjandi myndir tóku Vigdís Pálsdóttir, Steinunn djákni og sr. Pétur.
slg