Biskup Íslands vísiterar fyrir vestan

21. maí 2024

Biskup Íslands vísiterar fyrir vestan

Biskup, prófastur, sóknarprestur og sóknarnefnd í Árneskirkju

Biskup Íslands hefur verið að vísitera Vestfjarðaprófastsdæmi að undanförnu.

Nú í maí vísiteraði hún Þingeyrarprestakall hið forna og á Ströndum.

Vísitasían hófst með guðsþjónustu í Þingeyrarkirkju á uppstigningardag þann 9. maí, en sá dagur er jafnframt sérstakur kirkjudagur aldraðra.

Að sögn frú Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands „var kirkjan þéttsetin fólki og komu þó nokkrir frá nágrannabyggðunum.“

Nýstofnaður kór eldri borgara á Ísafirði söng við gítarundirleik Jóns Gunnars Biering Margeirssonar.

Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir sóknarprestur á Þingeyri þjónaði fyrir altari og biskup Íslands prédikaði.

Eftir guðsþjónustuna var viðstöddum boðið upp á veglegar veitingar í félagsheimilinu þar sem konur úr Kvenfélaginu Von á Þingeyri höfðu undirbúið dýrindis veisluborð eins og þeim er einum lagið.

Því næst var fundur með fulltrúum sóknarnefndar í Þingeyrarkirkju.

Segir frú Agnes að „þar hafi verið farið yfir breytingar og lagfæringar á kirkjuhúsinu og innanstokksmunum frá síðustu vísitasíu biskups Íslands árið 2009."

Því næst var farið á hjúkrunarheimilið Tjörn og rætt við starfsfólk og íbúa.

Einnig var skoðuð kapella hússins.

Að lokinni þeirri heimsókn var prestsbústaðurinn skoðaður en hann þjónar nú hlutverki safnaðarheimilis.

Þá var haldið út í Keldudal en þar stendur Hraunskirkja sem nú er í umsjá Þjóðminjasafnsins.

Hún var reist árið 1885 og þjónaði hún sem sóknarkirkja fólksins í dalnum, en dalurinn fór í eyði árið 1987.

"Til að komast í dalinn þarf að keyra vegarslóða sem liggur hátt og er aðeins opinn yfir sumartímann“ segir frú Agnes.

Daginn áður en biskup og fylgdarlið fóru þar um var vegurinn ruddur en stór björg og steinar falla á veginn og loka honum mestan hluta ársins.

Með biskupi í för var Elín Elísabet Jóhannsdóttir fræðslustjóri á Biskupsstofu, sr. Magnús Erlingsson prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis og sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir sóknarprestur.

Daginn eftir var farið í hina undurfallegu Mýrarkirkju og Núpskirkju í Dýrafirði og Sæbólskirkju á Ingjaldssandi.

“Á þeim stöðum hittum við sóknarnefndarfólk, en mikill mannauður er í þessu landi“ segir biskup.

„Sóknarnefndarfólk og fleira fólk sem styður kirkjuna sína gefur af tíma sínum og kröftum til að allt sé eins og best verður á kosið og allt til reiðu þegar athafnir fara fram í kirkjunum.

Fyrir það megum við Íslendingar þakka því þau halda við menningarminjum okkar í sjálfboðinni þjónustu.“

Laugardaginn 11. maí var ekið sem leið liggur frá Ísafirði í Strandasýslu.

Fyrsta stopp var Staðarkirkja í Steingrímsfirði en hún blasir við þegar ekið er niður Steingrímsfjarðarheiðina.

Kirkjan var reist árið 1855 og hefur henni verið vel við haldið.

Einnig er verið að hlaða steingirðingu um kirkjugarðinn sem prýðir mjög aðkomu að kirkjunni sem stendur innan garðsins.

Í Staðarkirkju eru athafnir þegar þess er óskað en sóknin var sameinuð Hólmavíkursókn fyrir um 30 árum.

Næsti viðkomustaður var Árnes á Ströndum.

Þar eru tvær kirkjur.

Eldri kirkjan var vígð árið 1881 en yngri kirkjan var vígð 1991.

“Þar tóku á móti okkur fulltrúar sóknarnefndar“ segir biskup.

„Þrátt fyrir annir í sauðburði gáfu þau sér tíma til að koma til fundar við okkur.

Og ekki komu þau tómhent því veglegar veitingar biðu okkar í nýrri kirkjunni.

Þar er messað af og til og aðrar athafnir þegar kallað er eftir þeim.

Sóknarprestur er sr. Sigríður Óladóttir á Hólmavík.

Á bakaleið til Hólmavíkur var Kaldrananeskirkja skoðuð en hún hefur verið í viðgerð um nokkurra ára skeið.

Þar tók á móti okkur sóknarnefndarformaðurinn Jóhann Björn Arngrímsson.

Daginn eftir hófst vísitasían með kirkjuskoðun og fundi fulltrúa sóknarinnar og guðsþjónustu þar sem prófastur þjónaði fyrir altari og biskup prédikaði.

Því næst var kapellan á Drangsnesi skoðuð og fulltrúar sóknarinnar mættu til fundarins.

Þá var ekið að Kollafjarðarneskirkju og endað í Óspakseyrarkirkju“ sagði biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir að lokum.

Myndirnar tók Elín Elísabet Jóhannsdóttir fræðslustjóri.

 

slg



Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Menning

  • Messa

  • Öldrunarþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi
Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna