Ég var komin í algjört öngstræti

5. júní 2024

Ég var komin í algjört öngstræti

Myndin er tekin af hun.is og tengist fréttinni ekki beint

Skjólið er opið hús fyrir konur sem búa við heimilisleysi, óöruggar heimilisaðstæður eða eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi.

Skjólið var opnað árið 2021 fyrir tilstilli frú Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands og er rekið undir hatti Hjálparstarfs kirkjunnar.

Konur, sem margar hverjar eru á mjög erfiðum stað í lífinu, hafa fundið vinsemd, stuðning og samhygð í Skjólinu.

Konurnar sem leita til Skjólsins eiga sér fjölbreyttan bakgrunn og ólíka sögu en í grunninn eru þær á svipuðum stað í lífinu og þurfa aðstoð.

Fæstar þeirra skilja eftir sig varanleg ummerki eftir heimsókn sína í Skjólið nema í hugum þeirra sem tilheyra staðnum á einn eða annan hátt.

Við sem erum svo lánsöm að búa við öryggi getum aldrei sett okkur í spor þeirra sem eiga hvergi höfði sínu að halla.

Skjólið er sannkölluð vin í eyðimörkinni eins og einn skjólstæðinga Skjólsins kemst að orði í bréfi sem barst einni af umsjónarkonum þess fyrir skemmstu.

Bréfritari kýs að koma fram nafnlaust en bréfið er birt með fullu samþykki hennar.

 

„Góðan dag!

Frá janúar til aprílmánaðar 2023 var ég á áfangaheimili eftir áfengismeðferð á Vogi og Vík.

Ég datt því miður í það undir lok aprílmánaðar og missti þá herbergið.

Við tóku mjög erfiðir mánuði í mínu lífi þar sem ég var á hálfgerðum vergangi með allt dótið mitt í bílnum mínum.

Það sóttu oft að mér myrkar hugsanir þessa mánuði og vonarglætan var ekki mikil.

Ég var komin í algjört öngstræti.

En þá frétti ég af Skjólinu – athvarfi fyrir heimilislausar konur.

En þarna fann ég, ja, hvað skal ég segja, dásamlegan friðarstað hér í borginni.

Vin í eyðimörkinni.

Þarna tóku á móti mér starfskonur sem eru hver annarri yndislegri.

Aðstaðan öll er í einu orði sagt frábær.

Þar er hægt að fara í sturtu, fara í tölvu, fengið þveginn þvott og borða góðan hádegismat.

Ég get eiginlega ekki lýst því hvað Skjólið er búið að gera fyrir mig.

Þarna öðlaðist ég von á ný og í október síðastliðnum fór ég aftur á Vog og Vík og er búin að fá aftur inni á áfangaheimili.

En ég fer ennþá oft í Skjólið, sit með starfskonunum og prjóna – edrú.

Ég hef oftast verið edrú í Skjólinu, en einhverja daga því miður drukkin.

Ég get ekki ímyndað mér hvar þessar konur væru staddar án Skjólsins.

Þarna er hreinlega verið að bjarga mannslífum að mínu mati.

Ég vildi bara senda þessar línur og þakka fyrir allt sem hefur verið gert fyrir mig í Skjólinu.

Þessi starfsemi þarf að fá að lifa áfram.“

Tryggur stuðningur góðhjartaðra er forsenda þess að Hjálparstarf kirkjunnar getur verið til staðar fyrir þau sem á þurfa að halda.

Eitt þessara úrræða er Skjólið sem opnaði snemma árs 2021.

 

slg

















  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi
Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna