Biblían á að vera aðgengileg öllum á sínu eigin hjartamáli
Framkvæmdastjórar Biblíufélaga á Norðurlöndum og við Eystrasalt funduðu í Reykjavík 11.-12. júní.
Auk framkvæmdastjóranna var George Sochos frá Sameinuðu biblíufélögunum á fundinum og kynnti vinnu við stefnumörkun Sameinuðu biblíufélaganna til næstu þriggja til fimm ára.
Þá var á fundinum rætt um nýjar Biblíuþýðingar á alþýðumáli, útgáfu á Biblíuritum á táknmáli, stöðu starfseminnar í þátttökulöndunum ásamt styrkleikum og tækifærum til framtíðar.
Starf Biblíufélaganna á Norðurlöndum og við Eystrasalt miðar allt að því að gera Biblíuna aðgengilega öllum á sínu eigin hjartamáli.
Biblíufélögin eru aðilar að Sameinuðu biblíufélögunum sem eru samstarfsvettvangur um 150 Biblíufélaga sem starfa í yfir 220 löndum og sjálfsstjórnarsvæðum.
Hvert Biblíufélag starfar sjálfstætt á sínu starfssvæði en nýtur góðs af þekkingu og reynslu annarra Biblíufélaga.
Þannig hefur Hið íslenska biblíufélag fengið ráðgjöf á ýmsum sviðum frá félögunum á Norðurlöndum og við Eystrasalt, m.a. í tengslum við prentun, vefþróun, hljóðbókardreifingu og fjársafnanir svo dæmi sé tekið.
Að öðru jöfnu funda framkvæmdastjórar Biblíufélaga á Norðurlöndum og við Eystrasalt árlega og verður næsti fundur í Vilnius í Litáen um miðjan júní 2025.
Mynd sem fylgir fréttinni er af fundarfólki, sem var boðið í móttöku og kvöldverð með stjórn Hins íslenska biblíufélags í Biskupsgarði þriðjudagskvöldið 11. júní og nutu þar góðs samfélags.
slg