Skírnarskál helguð við keltneska útialtarið

26. júní 2024

Skírnarskál helguð við keltneska útialtarið

Sumarstarf kirkjunnar er með afar fjölbreyttum hætti og margar guðsþjónustur fara fram utandyra eins og fram hefur komið á kirkjan.is undanfarna daga.

Svo var einnig við keltneska útialtarið á Esjubergi síðast liðinn sunnudag.

Guðsþjónustan var að þessu sinni tileinkuð ákalli eftir friði og sátt í heiminum og var það stjórnarfólk Sögufélagsins Steina, Guðlaug Kristjánsdóttir formaður, Sigríður Pétursdóttir og Þorvaldur Friðriksson sem fluttu friðarbænir.

Prestsþjónustuna önnuðust sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur í Reynivallaprestakalli og sr. Henning Emil Magnússon prestur í Mosfellsprestakalli.

Ástvaldur Traustason organisti í Bessastaðakirkju lék á harmoniku og félagar úr kirkjukór Reynivallaprestakalls leiddu sálmasöng.

Að sögn sr. Örnu var mæting með eindæmum góð og veðrið lék við viðstadda sem sameinuðust í einlægri friðarbæn og bæn fyrir þeim sem munu verða skírð upp úr nýju skírnarskálinni sem helguð var við athöfnina.

Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona hannaði skírnarskálina en hún hefur hannað fallega glerlistamuni í listagalleríi sínu Gler í Bergvík á Kjalarnesi um áratuga skeið.

„Sigrún hefur gert fjölda kirkjulistamuna sem prýða kirkjur víða um land.

Skírnarskál Sigrúnar er einkar falleg.

Ytra byrði er afsteypa af steini útialtarisins, keltneskur hnútur sem táknar heilaga þrenningu og eilífð Guðs ríkis er inn í miðju skálarinnar.

Við vígslu skírnarskálarinnar las Sigrún þessi orð Jesú:

„Jesús sagði: Sannlega, sannlega segi ég þér:

Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.

Undrast eigi, að ég segi við þig:

Yður ber að fæðast að nýju. Jóh. 3:5.7.

Þá hellti hún vatni úr Grundará undir Kerhólakambi í fontinn og viðstaddir minntust skírnar sinnar í lok stundar.

Skálin bíður fyrstu skírnarinnar og er gaman að segja frá því að fyrsta hjónavígslan fór fram inni í altarishringnum þann 15. júní síðast liðinn“

segir sr. Arna og bætir við:

„Sigrún mun segja nánar frá hönnun sinni við skírnarfontinn og hugmyndavinnu eftir sumarmessu í Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi þann 7. júlí næstkomandi kl.14:00.“

Útialtarið á Esjubergi er í Brautarholtssókn sem tilheyrir Reynivallaprestakalli.

Það var reist til minningar um fyrstu kirkju á Íslandi, að talið er, og getið er um í miðaldaheimildum.

Þar segir að Örlygur Hrappsson, landnámsmaður, hafi látið reisa kirkjuna um árið 900 og helgað Guði og írska ábótanum og dýrlingnum Kólumkilla.

Því er við upphaf hverrar guðsþjónustu við útialtarið farið með forna bæn sem kennd er við heilagan Kólumkilla.

Sr. Gunnþór Þ. Ingason fyrrum sóknarprestur í Hafnarfjarðarprestalli þýddi bænina og fylgir hún hér fyrir neðan.

Útaltarið var vígt fyrir þremur árum af biskupi Íslands frú Agnesi M. Sigurðardóttur og var skírnarskálin helguð þjónustunni við Guð af sr. Hans Guðbergi Alfreðssyni prófasti Kjalarnessprófastsdæmis.

 

Bæn kennd við heilagan Kolumkilla:

Tendra í hjörtum okkar ó, Guð,

kærleikslogann sem ávallt varir

svo að logi í okkur og tendri öðrum ljós.

Gef að við skínum um eilífð í musteri þínu,

logandi af þínu eilífa ljósi

líkt og sonur þinn Jesús Kristur,

frelsari okkar og endurlausnari.

Amen.

 

Myndirnar sem fylgja fréttinni tók Guðrún Hilmarsdóttir.

 

slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Vígsla

  • Biblían

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði