Skotárásarinnar í aðdraganda Oslo Pride minnst
Í gær fór fram athöfn í Sænsku Margaretakirkjunni í Oslo, sem var samstarfsverkefni sænsku, norsku, íslensku og finnsku kirkjunnar þegar tvö ár voru liðin frá skotárásinni í aðdraganda Pride göngunnar í Osló.
Fyrrum Stokkhólmsbiskup Eva Brunne predikaði, en hún var fyrsta konan á biskupsstóli sem kom út sem lesbía.
Fyrsta prestsvígða konan sem var í skráðri sambúð með konu Siri Sunde tók einnig þátt í athöfninni.
Knut Anders Sörum og íslenski kórinn Laffí kom einnig fram.
Eftir guðsþjónustuna var samtal um kirkjuna og kærleikann milli Evu Brunne og Siri Sunde.
Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Ingu Harðardóttur prest íslenska safnaðains í Noregi og spurði hana um þennan viðburð.
Sr. Inga sagði:
"Það var sterk upplifun að taka þátt i Pride messu í Sænsku Margareta kirkjunni í Osló.
Í þessari samkirkjulegu messu var þess minnst að tvö ár eru liðin frá skotárásinni í aðdraganda Oslo Pride og því var andrúmloftið bæði fyllt af sorg og flóknum tilfinningum.
Yfir og allt um kring var samheldnin ríkjandi, og kærleikurinn og vonin var nánast áþreifanleg í kirkjunni.
Eva Brunne fyrrum biskup í Svíþjóð predikaði og Siri Sunne, prestur í norsku kirkjunni þjónaði fyrir altari, en báðar eru þær frumkvöðlar í réttindabaráttu samkynhneigðra vígðra þjóna kirkjunnar.
Eftir messuna töluðu þær um kirkjuna og kærleikann og sögðu frá eigin reynslu í því samhengi.
Messan var samstarfsverkefni Sænsku kirkjunnar í Osló, Trefoldighets kirkjunnar, Finnska safnaðarins í Noregi, Íslensku kirkjunnar í Noregi og Skeivt kristent nettverk.
Íslenski kórinn Laffí leiddi söng og flutti verkið Hvíld eftir Huga Guðmundsson undir altarisgöngunni auk þess sem Knut Anders Sørum söng eigið lag.
Vonandi reyndist kvöldið endurnærandi áfylling á trú, von og kærleika á erfiðum degi í yndislegu Pride vikunni“
sagði sr. Inga Harðardóttir að lokum, en hún tók myndirnar sem fylgja fréttinni.
slg