Merkilegt hvað fólk heldur mikilli ró, styrk og bjartsýni

28. júní 2024

Merkilegt hvað fólk heldur mikilli ró, styrk og bjartsýni

Biskup og fylgdarlið við hraunjaðarinn

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir fór til Grindavíkur í gær ásamt prófastinum í Kjalarnesprófastsdæmi, sr. Hans Guðberg Alfressyni.

Með í för var sr. Stefán Már Gunnlaugsson héraðsprestur Kjalarnesprófastsdæmis og sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur í Grindavík.

Fréttaritari kirkjan.is fékk að fara með.

Undir stýri var prófasturinn þegar við ókum hina fögru leið um Krísuvík í glampandi sólskini, en Grindavíkurvegur er enn lokaður.

Fyrst komum við að lokunarpósti.

Þar þurfti sóknarpresturinn að gefa upp kennitölu, en hún er með lögheimili í Grindavík, þó hún búi nú um stundir í Reykjavík.

Við ókum sem leið lá að kirkjunni, en sprungan sem liggur gegnum allan bæinn liggur rétt fyrir utan kirkjudyrnar.

Þegar við komum inn í kirkjuna var eins og þar hefði ekkert gerst.

Allt var hreint og óskemmt.

Aðeins um millimeters sprunga var fyrir framan fremsta kirkjubekkinn og jafnlítil sprunga í anddyri kirkjunnar eins og sjá má á mynd hér fyrir neðan.

Sr. Elínborg leiddi stutta bænastund og las fyrir okkur texta sem hún hefur mikið notað síðan ósköpin dundu yfir þann 10. nóvember síðast líðinn.

Það var hinn fallegi texti úr spádómsbók Jeremína:

„Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður.

Ef þér leitið mín munuð þér finna mig.

Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.

Ég mun snúa við högum yðar.“

Síðan leiddi hún bæn og við sungum sálm.

Eftir bænastundina komu til kirkjunnar lögreglumennirnir Sigurður Bergmann og Hjálmar Hallgrímsson og gerðu okkur grein fyrir störfum sínum í bænum undanfarna mánuði.

Síðan buðu þeir okkur í ökuferð og leiddu okkur um áhugaverðustu staðina þar sem greinilegt var hvaða þrekvirki þau hafa unnið sem komu upp varnargörðunum.

Þeir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt og varið byggðina.

Við ókum síðan að hraunjaðrinum sem rann innan við garðinn þann 14. janúar síðast liðinn.

Að því loknu ókum við um langan veg að kirkjugarðinum á Stað sem er vestan við Grindavík og liggur að sjó.

Það sem undraði okkur ferðalangana mjög var að sjá hvað sigdalurinn, sem myndaðist 10. nóvember, er breiður, en hann er um 1,3 metrar að dýpt.

Hann nær alla leið frá kirkjudyrum að vestari enda kirkjugarðsins.

Þau hús sem eru í sigdalnum féllu þennan 1,3 metra og skemmdust ekkert.

Auk þess seig kirkjugarðurinn um sömu dýpt.

Þegar við ókum til baka til höfuðborgarinnar spurði fréttaritari biskup Íslands hvað væri efst í huga hennar eftir þessa eftirminnilegu heimsókn.

„Kanski það hvað manneskjan er lítil miðað við allt annað í sköpuninni.

Við getum ráðið litlu, en við getum brugðist við og það sjáum við með varnargörðunum sem hafa komið í veg fyrir það að hraunið hafi farið lengra inn í byggðina.

Svo finnst mér mjög merkilegt að sjá þennan sigdal sem ég hafði ekki áttað mig á.

Að jörðin geti sigið um einn og hálfan metra og allt sem á henni er og stendur þar bara kyrrt.

Það finnst mér mjög merkilegt.

Svo finnst mér mjög merkilegt hvað fólk heldur mikilli ró, hefur mikla ró og styrk og bjartsýni.

Mér finnst það mjög merkilegt“

sagði biskup Íslands.

Þá var prófasturinn spurður sömu spurningar:

„Ég tek alveg undir með biskupi, sérstaklega hvað varðar þennan andlega styrk.

Það er svo sterkt að hitta fólk hér og finna að það er ekkert af baki dottið.

Það er ekkert búið að leggja árar í bát.“

Því næst beindi fréttaritari spurningu til sr. Elínborgar:

Nú ert þú búin að þjóna þessari byggð í sjö, átta mánuði fjarri heimahögum.

Hvað sérð þú fyrir þér fram undan?

„Við ætlum að reyna að halda áfram og reyna að opna kirkjuna og bæta aðgengi að kirkjunni þannig að við getum notað hana, af því að það er allt í lagi með hana.

Og ég sé fyrir mér að hafa einhverjar stundir þegar haustar og næsta vetur.

Við erum búin að hugsa um það að vera með einhverjar stundir, tónlist og eitthvað slíkt.“

Fermingarbörnin, hvernig verður með þau næsta vetur?

„Þau verða nú sennilega í fræðslu þar sem þau eru í sveit sett, en það eru alla veganna 22 af þeim sem ætla að koma með okkur sr. Sigurði Grétari í Vatnaskóg eins og við höfum alltaf farið með börnin.

Þau hafa þáð það að koma og vera með okkur.

Eitt barn spurði mig hvort það gæti fermst næsta vor í Grindavíkurkirkju.

Og ég sagði að það væri alveg opið ef aðstæður verða í lagi“

segir sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur Grindvíkinga.


slg


Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði