Laust starf
Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu við Skálholtsprestakall í Suðurprófastsdæmi.
Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. september n.k.
Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.
Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.
Prestakallið
Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli.
Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru 12 kirkjur:
Bræðratungusókn - Bræðratungukirkja,
Haukadalssókn - Haukadalskirkja,
Skálholtssókn - Skálholtskirkja,
Torfastaðasókn - Torfastaðakirkja,
Miðdalssókn - Miðdalskirkja,
Mosfellssókn - Mosfells-Stóru-Borgar og Búrfellskirkjur,
Úlfljótsvatnssókn - Úlfljótsvatnskirkja,
Þingvallasókn - Þingvallakirkja.
Auk þess eru í prestakallinu Úthlíðarkirkja sem er bændakirkja og Sólheimakirkja á Sólheimum og er reglulegt helgihald í báðum kirkjum.
Prestsbústaður er í Mosfelli.
Verið er að breyta prestssetrinu í Skálholti í skrifstofu sóknarprests og starfsaðstöðu fyrir hann og þar verður einnig aðstaða fyrir Skálholtsprestakall.
Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr.
framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.
Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.
Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.
Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.
Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.
Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.
Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.
Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.
Tengil á eyðublaðið er að finna hér.
Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.
Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.
Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 862 6585 eða á netfangið halldorath@kirkjan.is.
Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.
Umsóknarfrestur er til miðnættis 6. ágúst 2024.
Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.
Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.
Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.
Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.
Skálholtsprestakall - Þarfagreining
Lýsing á Skálholtsprestakalli og sóknum þess:
Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli.
Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru 12 kirkjur:
Bræðratungusókn - Bræðratungukirkja, Haukadalssókn - Haukadalskirkja, Skálholtssókn - Skálholtskirkja, Torfastaðasókn - Torfastaðakirkja, Miðdalssókn - Miðdalskirkja, Mosfellssókn - Mosfells-Stóru-Borgar og Búrfellskirkjur, Úlfljótsvatnssókn - Úlfljótsvatnskirkja, Þingvallasókn - Þingvallakirkja.
Auk þess eru í prestakallinu Úthlíðarkirkja sem er bændakirkja og Sólheimakirkja á Sólheimum og er reglulegt helgihald í báðum kirkjum.
Einnig fylgir prestakallinu vaktsími sem er fyrir HSU á Selfosssi, lögreglu og aðra viðbragðsaðila vegna bráðaútkalla, vitjana, slysa og andláta á svæði gömlu Árnessýslu.
Prestsbústaður er í Mosfelli.
Verið er að breyta prestssetrinu í Skálholti í skrifstofu sóknarprests og starfsaðstöðu fyrir hann og þar verður einnig aðstaða fyrir Skálholtsprestakall.
Mikilvæg framtíðarsýn sóknarbarna er að nýtt prestsetur verði byggt á staðnum og sóknarprestur sitji í Skálholti.
Í prestakallinu eru tvö sveitarfélög; Bláskógarbyggð og Grímsness- og Grafningshreppur.
Þéttbýliskjarnar eru í Reykholti, á Laugarvatni, í Laugarási, á Borg og Sólheimum.
Þar eru þrír grunnskólar, þrír leikskólar ásamt Menntaskólanum að Laugarvatni.
Prestakallið er landbúnaðarsamfélag með vaxandi ferðaþjónustu ásamt ört stækkandi þéttbýliskjörnum og stærstu sumarbústaðarsvæðum landsins.
Helstu atvinnuvegir eru landbúnaður, ferðaþjónusta, verslanir og þjónusta, banki, smáiðnaður, verktaka- og önnur almenn þjónusta við íbúa og gesti. Mosfells-, Torfastaða- og Miðdalssóknir eru stærstu sóknirnar í prestakallinu. Heildarfjöldi íbúa er 1.818, þar af 1.033 í þjóðkirkjunni.
Skálholtskirkja er bæði dómkirkja og sóknarkirkja.
Hún er ein af höfuðkirkjum landsins og nýtur sérstöðu sem slík.
Skálholt er einn af merkustu sögustöðum landsins og saga kristninnar er samofin sögu staðarins.
Vaxandi er að í Skálholtskirkju fari fram fjölmennar útfarir sem tengjast litlu kirkjunum í nágrannasveitarfélögunum.
Mikill fjöldi athafna fer fram í kirkjunni.
Einnig sækir fjöldi ferðamanna staðinn heim.
Sömu sögu er að segja um Þingvallakirkju sem er í ríkiseign og í umsjá sóknar- og Þingvallanefndar.
Guðsþjónusta er hvern helgan dag í Skálholtskirkju og með reglulegu millibili í öðrum kirkjum prestakallsins.
Sterk hefð er fyrir helgihaldi í Mosfellskirkju á miðvikudagskvöldum á föstunni.
Frá 1. ágúst tekur djákni til starfa í Skálholtsprestakalli og starfar með sóknarpresti.
Vígslubiskupinn í Skálholti kemur einnig að helgihaldi prestakallsins.
Verklagssamningur milli sóknarprests, djákna og vígslubiskups liggur fyrir.
Tveir kirkjukórar eru starfandi við kirkjurnar og organisti er í fullu starfi.
Sameiginlegt og öflugt æskulýðsstarf sóknanna er yfir vetrartímann í Skálholti og ósk um að barnastarf t.d. sunnudagsskóli verði aukið.
Kirkjum er vel við haldið, sem og öll umhirða kirkjugarða.
Ráðdeild er alls staðar í rekstri.
Sóknarnefndir eru jákvæðar fyrir fjölbreyttu safnaðarstarfi og almennt eru góð tengsl kirkjunnar við söfnuðina.
Í fámennari sóknunum er erfiðari rekstragrundvöllur vegna minni sóknargjalda og reglulega þarf að endurskoða safnaðarstarf.
Helstu áherslur í starfi:
Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli allra sem starfa í kirkjunum.
Því er nauðsynlegt að nýr prestur hafi áhuga og skýran vilja til samstarfs og samtals um það og hafi frumkvæði af nýjungum í helgihaldi og safnaðarstarfi. Hann sé reiðubúinn að sinna með sem fjölbreyttustum hætti almennu safnaðarstarfi í samvinnu við sóknarfólk.
Að sóknarprestur hafi vald á öllum messuformum sem notuð eru þ.e. klassískri messu, hátíðarmessu og tíðarsöng, einnig á kyrrðarmessu í samstarfi við umsjónamenn hennar.
Að sóknarprestur hafi þekkingu og getu til að sinna sálgæslu við flestar aðstæður.
Að sóknarprestur hafi frumkvæði, metnað og vilja til að efla barna- og æskulýðsstarf.
Haldi reglulegar guðsþjónustur og helgistundir í litlu kirkjunum í prestakallinu.
Beri fulla virðingu fyrir sögu og hefðum Skálholtsprestakalls og Skálholtsstaðar.
Að sóknarprestur sé tilbúinn að hafa frumkvæði að fara óhefðbundnar leiðir til að efla Skálholtsprestakall, kynna kirkjustarfið og gera það sýnilegt á jákvæðan og aðgengilegan hátt á samfélagsmiðlum.
Að sóknarprestur hafi almenna þekkingu á lífi og störfum fólks til sveita.
Mikilvægt er að hann sé þátttakandi í samfélaginu á gleði- og sorgarstundum fólksins sem og þeirra hversdagslega lífi og gefi sér tíma til að sinna íbúum samfélagsins bæði ungum sem öldnum.
slg