Sóknarprestsstarf laust

12. júlí 2024

Sóknarprestsstarf laust

Víkurkirkja

Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu við Víkurprestakall í Suðurprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. september n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022  og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Í Víkurprestakalli í Suðurprófastsdæmi eru sex sóknir.

Heildaríbúfjöldi er 1.409 og sóknarbörn eru 441.

Prestakallið afmarkast af Markarfljóti að vestan auk Hólmabæja, vestan Markarfljóts og Blautukvísl á Mýrdalssandi að austan.

Víkurprestakall er á samstarfssvæði með Kirkjubæjarklaustursprestakalli.

Í prestakallinu eru átta guðshús.

Húsnæði fyrir sóknarprest er til staðar í Vík og starfsaðstaða hans er í sameiginlegu húsnæði á vegum sveitarfélagsins.

Vík er stærsti byggðakjarni prestakallsins og þar búa flest sóknarbörnin.

Þar er leikskóli, grunnskóli og tónlistarskóli.

Í Vík er hjúkrunar og dvalarheimilið Hjallatún.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 862 6585 eða á netfangið halldorath@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá þjóðkirkjunni í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 6. ágúst 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum  og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnara ð liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.


Víkurprestakall -þarfagreining

Lýsing á prestakallinu:

Í Víkurprestakalli í Suðurprófastsdæmi eru sex sóknir.

Heildaríbúfjöldi er 1.409 og sóknarbörn eru 441.

Prestakallið afmarkast af Markarfljóti að vestan auk Hólmabæja, vestan Markarfljóts og Blautukvísl á Mýrdalssandi að austan.

Víkurprestakall er á samstarfssvæði með Kirkjubæjarklaustursprestakalli.

Í prestakallinu eru átta guðshús.

Auk sóknarkirknanna sem eru Víkurkirkja, Reyniskirkja, Skeiðflatarkirkja, Ásólfsskálakirkja, Eyvindarhólakirkja og Stóra-Dalskirkja eru Skógarkirkja á Skógum og Sólheimakapella.

Víkurkirkja er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og var byggð á árunum 1931-34, steinsteypt hvítmáluð með rautt þak og tekur um 200 manns í sæti.

Hún stendur á svonefndu Skeri og setur fagran og sérstæðan svip á byggðina og þekkt kennileiti af hafi.

Hún er í góðu ásigkomulagi og vel við haldið.

Skeiðflatarkirkja er timburkirkja klædd að utan með járni.

Útveggir eru hvítir, járn á þaki, rauðmálað, sem og gluggar að utan.

Hún var vígð 16. september 1900.

Gagnger viðgerð fór fram á Skeiðflatarkirkju á árunum fyrir 100 ára vígsluafmæli hennar, árið 2000.

Reyniskirkja er steinsteypt frá 1966, hvítmáluð með rauðu þaki og tekur 70 manns í sæti.

Henni hefur verið vel við haldið í gegnum árin.

Ásólfsskálakirkja var vígð árið 1955.

Henni hefur verið vel við haldið, og á árunum 2005-2006 voru miklar endurbætur gerðar á kirkjunni.

Eyvindarhólakirkja var vígð árið 1961.

Kirkjan er steinsteypt hús, vandað að allri gerð og stílhrein.

Henni hefur ævinlega verið vel við haldið.

Stóra-Dalskirkja er ekki í hinum hefðbundna kirkjustíl.

Hún er steinsteypt, byggð á árunum 1964-1968 og vígð 1969.

Þak er úr timbri, klætt bárujárni.

Steindar rúður í blýumgjörð eru í öllum gluggum.

Kirkjunni er vel við haldið.

Skógarkirkja er við byggðasafnið á Skógum, lítil timburkirkja vígð 1998.

Að utan er kirkjan reist með nýjum viðum en að innan er að finna marga merkilega byggingarhluta og gripi úr kirkjusögu Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga.

Sólheimakapella í Mýrdal var vígð 1960.

Grunnur hennar er steyptur, veggir hennar hlaðnir úr vikurholsteini, einangraðir með vikurplötum.

Þakið er með bárujárni.

Húsnæði fyrir sóknarprest er til staðar í Vík og starfsaðstaða hans er í sameiginlegu húsnæði á vegum sveitarfélagsins.

Vík er stærsti byggðarkjarni prestakallsins og þar búa flest sóknarbörnin.

Þar er leikskóli, grunnskóli og tónlistarskóli.

Í Vík er hjúkrunar- og dvalarheimilið Hjallatún.

Í prestakallinu er hefðbundið landbúnaðarsamfélag með mikilli og fjölbreyttri ferðaþjónustu í öllu héraðinu auk annarrar þjónustu.

Helstu atvinnuvegir eru landbúnaður og þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa og síaukin ferðaþjónusta sem hefur þróast mjög hratt undanfarin ár og hefur fjöldi hótela, gistiheimila og heimagistinga aukist mikið.

Víkurkirkja er vinsæl af erlendum ferðamönnum og síaukin fjöldi athafna s.s. hjónavígslur fara þar fram.

Að jafnaði eru um 35 guðsþjónustur á ári í prestakallinu.

Fjölskylduguðsþjónustur eru nokkrar yfir vetrartímann.

Sunnudagaskóli er yfir vetrartímann og þjónusta við hjúkrunar- og dvalarheimilið.

Annað starf við kirkjurnar er sjálfboðið s.s. þrif á kirkjum og umhirða um kirkjugarðana. Kirkjum er vel við haldið, sem og öll umhirða kirkjugarða.

Ráðdeild er alls staðar í rekstri en rekstragrundvöllur er sífellt erfiðari vegna minni sóknargjalda og því þarf að gæta aðhalds.

Sóknarnefndir eru jákvæðar fyrir fjölbreyttu safnaðarstarfi.

Almennt eru góð tengsl kirkjunnar við íbúa.

Vegalengdir í prestakallinu eru miklar og síaukin umferð ferðamanna, ekki síst á vegakerfinu og vinsælum ferðamannastöðum.

Sístætt viðfangsefni er að leita leiða til að auka barna- og æskulýðsstarfið, efla messusókn og stykja kórastarf.

Áherslur í starfi:

Megináhersla er á að sóknarprestur hafi breiða og almenna þekkingu á lífi og störfum fólks til sveita.

Geti sinnt fjölbreyttu safnaðarstarfi.

Hafi vald á fjölbreyttu helgihaldi.

Geti leitt og aukið barna- og æskulýðsstarf.

Veiti sálgæslu eftir því sem aðstæður kalla á hverju sinni.

Tilbúinn til að standa vörð um og efla enn frekar það starf sem fyrir er í söfnuðunum.

Markmiðið er að viðhalda öllu því góða starfi sem þegar er unnið og allar eru sóknanefndir einhuga um að skapa tækifæri til að auðga enn frekar almennt safnaðarstarf.

Í Víkurprestakalli eru margir af erlendu bergi brotnir og hefur verið vilji og löngun til að ná til þeirra með starfsemi kirkjunnar.

 

slg


  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Auglýsing

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði