Fjölbreytt dagskrá á Sumartónleikum

17. júlí 2024

Fjölbreytt dagskrá á Sumartónleikum

Sergey Malov og Benedikt Kristjánsson

Árlegum sumartónleikum í Skálholti lauk nú um helgina með kantötumessu og tónleikum.

Þetta er 49. starfsár tónleikanna en fyrstu tónleikarnir voru haldnir þann 12. júlí árið 1975.

Næsta ár er því merkisafmæli þessarar elstu sumartónlistarhátíðar landsins.

Frá upphafi hafa allir viðburðir hátíðarinnar verið gjaldfrjálsir en njóta mikilvægra styrkja og fyrirgreiðslu m.a. húsnæðis, og frjáls framlög tónleikagesta eru umtalsverð.

Hátíðin í ár stóð frá 6. júlí til 14. júlí og voru haldnir 10 tónleikar, tvær kantötumessur og fernir viðburðir fyrir börn þar sem fléttað var saman tónlist og skapandi list.

Börnin bjuggu til kórónur í anda listglers Gerðar Helgadóttur, bjuggu til skúlptúra úr tómötum frá Friðheimum sem svo voru soðnir í súpu og borðaðir.

Þau tóku þátt í söng- og dansleikhúsi Raddbandsins og sungu með Gutta sem skoðaði Skáholtsstað með sínum augum.

Heiðursgestur hátíðarinnar var rússnesk-ungverski fiðluleikarinn Sergey Malov sem lék einleikstónleika og með Kordó strengjakvartettinum glæsileg verk á fiðlu og hljóðfærið violoncello da spalla, en álitið er að Jóhann Sebastian Bach hafi samið sellósvítur sínar fyrir þetta hljóðfæri.

Nánar má sjá um Sergey Malov hér.

Staðartónskáld sumarsins var Bára Gísladóttir og flutti hún ásamt barokkbandinu Brák og Guðrúnu Óskarsdóttur semballeikara og Herdísi Önnu Jónasdóttur, sópran glæsilega efnisskrá nýrra tónverka.

Benedikt Kristjánsson, tenór, Arnheiður Eíríksdóttir, mezzosópran, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir ásamt Mathias Halvorsen, píanóleikara fluttu verk eftir tékkneska tónskáldið Leo Janacek.

Elfa Rún Kristinsdóttir flutti einleiksverk frá barokktímanum og Sergio Coto-Blanco og Sólveig Thoroddsen fluttu verk fyrir lútu og hörpu.

Kór Sumartónleikanna flutti Messu Mariu Magdalenu eftir spænska tónskáldið Alonso Lobo og Mótettukórinn flutti þrjár af mótettum J.S.Bach undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Sunnudagsmessurnar voru tileinkaðar kantötuflutningi J. S. Bachs og einsöngvarar, hljóðfæraleikarar og Skálholtskórinn fluttu kantöturnar “Nur Jedem das Seine” og "Weinen, klagen, Sorgen, Zagen” undir stjórn Benedikts Kristjánssonar.

Prédikað var út frá guðspjallstextunum sem liggja til grundvallar kantötunum.

Angela Árnadóttir er verkefnisstjóri barnadagskrár og myndlistarsýningar með verkum Guðrúnar Bergsdóttur sem sýnd var í húsnæði Hótel Skálholts.

Benedikt Kristjánsson er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá Sumartónleikunum.

Fyrst er mynd af Báru Gísladóttur, þá Elfu Rún Kristinsdóttur og Ara syni hennar, þá er mynd af tónlistarflytjendum Janacek, þeim Mathias Halvorsen, Arnheiði Eiríksdóttur, Geirþrúði Önnu Guðmundsdóttur og Benedikt Kristjánssyni og loks er mynd af Sólveigu Thoroddsen og Sergio Coto-Blanco .

Þá koma myndir frá barnadagskránni, fyrst frá Raddleikhúsi barna, þá tómatskúlptúr og loks kórónum frá gluggum Gerðar Helgadóttur.

 

slg




Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Barnastarf

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls