"Húmorinn var aldrei langt undan"
Málstofa var haldin í dag á Skálholtshátíð til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson, sem var biskup Íslands frá 1998-2012, en hann lést þann 12. febrúar siðast liðinn.
Forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson kom á málstofuna, en hann mun á morgun halda hátíðaræðu á Skálholtshátíð.
Svo mikið fjölmenni var að flytja þurfti málstofuna úr skólanum í kirkjuna, en vel á annað hundrað manns var þá komið á staðinn.
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands flutti erindi sem hann nefndi Boðberi trúar í lífi og starfi.
Dr. Gunnlaugur minntist kynna sinna af Karli allt frá bernskuheimili hans þar sem Gunnar yngsti bróðir Karls var vinur og bekkjarfélagi Gunnlaugs.
Dr. Gunnlaugur lagði þó aðaláherslu í erindi sínu á verk sr. Karls eftir að hann lauk störfum sem biskup, en hann var afar afkastamikill í skrifum sínum og þjónustu við kirkjuna þar sem hann þjónaði síðast sem dómkirkjuprestur.
Minntist hann sérstaklega á bók sr. Karls Dag í senn og vitnaði gjarnan í hana í erindi sínu.
Þá ræddi hann um listræna hæfileika hans sem voru í minimaliskum stíl.
Dr. Gunnlaugur ræddi einnig um hugvekjur hans sem hann tók upp daglega í covid faraldrinum, þegar fólk gat ekki sótt kirkju.
Þá fluttu erindi Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju og eiginkona hans Steinunn Jóhannesdóttir um vináttu þeirra við sr. Karl og frú Kristínu Guðjónsdóttur, en þau byggðu saman parhús við Þórsgötu og ólu þar upp börn sín.
Sagði Steinunn frá því að það hafi verið boðun sr. Karls sem dýpkaði trúarvitund hennar.
Þá fléttaði hún saman sameignleg áhugamál þeirra á Hallgrími Péturssyni og Guðríði Símonardóttur, en Steinunn samdi leikrit um Guðríði sem fyrst var sýnt í Hallgrímskirkju og síðan um allt land.
Það sem sameinaði erindin þrjú voru að öll minntust þau á húmor sr. Karls sem var aldrei langt undan.
slg