„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júlí 2024

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

Lilja Dögg og forsetahjónin

Skálholthátíð lauk í gær sunnudaginn 21. júlí í blíðskaparveðri að venju, en í ár eru 75 ár frá því að fyrst var haldin Skálholtshátíð árið 1949.

Kirkjan.is sagði í gær frá afar áhrifamiklum málþingum sem haldin voru á laugardeginum, annars vegar um frið og von fyrir botni Miðjarðarhafs og hins vegar málstofu í minningu sr. Karls Sigurbjörnssonar fyrrum biskups Íslands.

Í gær hófst dagskráin með orgeltónleikum Jóns Bjarnasonar þar sem hann flutti verk eftir Johann Sebastian Bach á orgelið í Skálholtsdómkirkju.

Klukkan 14:00 var hátíðarmessa í Skálholtsdómkirkju.

Minnt var á minnisversið úr Efesusbréfinu fimmta kafla þar sem segir:

„Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins.

Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“

Í prédikun sinni lagði sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti út frá guðspjalli dagsins sem hafði að geyma hina alkunnu Gullnu reglu úr fjallræðu Jesú í sjöunda kafla Mattheusarguðspjalls:

"Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera".

Skálholtskórinn söng undir stjórn Jóns Bjarnasonar organista.

Trompetleikarar voru Jóhann I. Stefánsson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir verðandi biskup Íslands þjónaði fyrir altari ásamt sr. Axel Árnasyni Njarðvík.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir lýsti blessun.

Eftir messuna var kirkjukaffi í boði Skálholtsstaðar.

Kl. 16:00 hófst hátíðardagskrá í Skálholtsdómkirkju, sem bar yfirskriftina:

„Ávöxtur friðar er okkar ljós“.

Hátíðarerindi flutti forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson, sem er eins og alþjóð veit sagnfræðimenntaður og þekkir sögu Skálholts vel og minntist hann hennar í upphafi máls síns.

Síðan sagði hann:

Enginn hefur breytt sögunni jafnmikið...og við sagnfræðingar“ og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.

Sagði hann að afar mikilvægt væri að þjóðhöfðinginn og þjóðkirkjan hafi náið og gott samstarf og notaði hann tækifærið til að þakka biskupi Íslands frú Agnesi M. Sigurðardóttur farsælt samstarf og óskaði nýkjörnum biskupi sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur velfarnaðar í lífi og starfi.

Að þessu loknu gerðist hann mjög persónulegur og lýsti trúarþroska sínum allt frá barnæsku.

Hann ólst upp í kaþólsku kirkjunni, en báðar ömmur hans voru kaþólskar og þeirra fólk.

Minntist hann sérstaklega ömmu sinnar Sigurveigar Guðmundsdóttur, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifaði ævisögu um.

Sigurveig veiktist sem barn og þurfti að liggja langdvölum á sjúkrahúsi og höfð var eftir henni þessa magnaða setning:

„þegar ytri heimur lokast þá fer sálin á kreik“, en titill ævisögu hennar ber einmitt titilinn Þegar sálin fer á kreik.

Forseti tjáði okkur að barnatrú hans hafi beðið hnekki þegar faðir hans Jóhannes Sæmundsson íþróttakennari lést úr krabbameini þegar hann var aðeins 14 ára gamall á viðkvæmasta aldri.

Trúin hafi hins vegar aldrei vikið frá honum og börn þeirra Elizu séu öll skírð.

Forsetinn sagðist hafa fundið mikla samkennd kirkjunnar með þjóðinni og sagði eftirtektarvert að fylgjast með því hvað prestar þjóðkirkjunnar standa þétt með sínu fólki á erfiðum stundum.

Eftir ræðu forsetans söng Gísli Stefánsson bariton einsöng, en þá flutti Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar og viðskiptaráðherra ávarp.

Sagðist hún hafa mikil tengsl við héraðið og dvelja langdvölum í Biskupstungum.

Var mál hennar einnig á persónulegum nótum og sagði frá uppvexti sínum í Breiðholti þar sem stundum var gott að geta flúið inn í Fellahelli.

Þar sagði hún að hún hefði meðal annars komist í kaþólska messu og á stúkufund hjá Halldóri á Kirkjubóli.

Taldi hún Skálholt afar mikilvægan kirkjustað og rómaði hvað kirkjan væri í góðu standi.

„Sögustaðir efla samkennd okkar“ sagði hún og taldi mikilvægt að fara með börn á sögustaði.

Þá ræddi hún um mikilvægi tungumálsins og þakkaði forsetafrúnni frú Elízu Reid fyrir að vera einstaklega góð fyrirmynd fyrir þau sem vilja gera Ísland að heimalandi sínu.

Lauk hún máli sínu með því að þakka forseta og biskupi Íslands samstarfið, en þau láta bæði brátt af sínum mikilvægu störfum.

Þá flutti biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir ávarp og þakkaði einnig bæði forseta og menningarráðherra samstarfið.

Þá þakkaði hún víglubiskupi sr. Kristjáni Björnssyni fyrir veglega Skálholtshátíð og ryfjaði upp kynni sín af Skálholti á umliðnum árum.

Sagði hún að til fyrirmyndar væri hve Skálholt hefur verið í fararbroddi kirkjunnar í umhverfismálum, annars vegar með skógrækt og hins vegar með endurheimt votlendis.

Þá lýsti hún blessun og allir viðstaddir sungu sálminn Nú hverfur sól í haf eftir dr. Sigurbjörn Einarsson og son hans Þorkel Sigurbjörnsson.

Þá sleit vígslubiskup sr. Kristján Björnsson Skálholtshátíð og hátíðargestir fóru ánægðir til síns heimja.

 

slg


Myndir með frétt

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
  • Biskup

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Umhverfismál

  • Vígslubiskup

  • Biblían

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði