Næst síðasta helgi Orgelsumarsins

16. ágúst 2024

Næst síðasta helgi Orgelsumarsins

Sigrún Magna og Steinunn

Sumir telja að nú fari að líða að sumarlokum, en svo er þó ekki.

Sumarið heldur áfram, alla vega fram að haustjafndægri og jafnvel fram að veturnóttum.

En sumarstarf kirkjunnar fer þó í annan farveg þegar september gengur í garð og vetrarstarfið tekur við.

Í Hallgrímskirkju í Reykjavík hefur farið fram einstaklega fjölbreytt tónleikadagskrá undir yfirskriftinni Orgelsumar í Hallgrímskirkju.

Nú er komið að næst síðustu tónleikunum sem fram fara á þessu sumri.

Laugardaginn 17. ágúst kl. 12.00 - 12.30 mun Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti í Akureyrarkirkju og Möðruvallaklausturskirkju leika á orgel kirkjunnar og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir leika á selló.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prófessor Bine Bryndorf.

Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna.

Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna og kennir börnum orgelsmíði í verkefninu Orgelkrakkar ásamt Guðnýju Einarsdóttur söngmálastjóra þjóðkirkjunnar.

Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri.

Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og hefur haldið námskeið og fyrirlestra í tónlist.

Sigrún situr í stjórn félags íslenskra organista, FÍO.

Sigrún hefur einnig verið listrænn stjórnandi Tónlistarfélags Akureyrar, setið í undirbúningsnefnd fyrir Norrænt kirkjutónlistarmót í Reykjavík árið 2012, og var framkvæmdastjóri Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju árin 2009-2017.

Sigrún fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árin 2016 og 2022.

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir nam tónlist og sellóleik við Tónlistarskólana á Akureyri og í Reykjavík og lauk einleikaraprófi vorið 2000.

Þá hélt hún til frekara náms í Frakklandi, sérhæfði sig í barokktónlist og útskrifaðist frá Parísarkonservatoríinu sem barokksellóleikari vorið 2006.

Steinunn hefur síðan leikið með mörgum helstu barokkhópum Frakklands: Les Basses Réunies, La Maîtrise du Centre de Musique Baroque de Versailles, Ricercar Ensemble, Les Folies Françoises... og Íslands: Nordic Affect, Barokkbandinu Brák og Alþjóðlegu Barokksveitinni í Hallgrímskirkju.

Steinunn er stofnandi fransk-íslenska barokk- og indípopphópsins Corpo di Strumenti/SÜSSER TROST og meðlimur í þjóðlagauslasveitinni Gadus Morhua Ensemble.

Steinunn er skáld, tónskáld og lagasmiður og hefur gefið út fjórar ljóðabækur, plötuna Ljúfa huggun ásamt SÜSSER TROST með eigin lögum og ljóðum og plötuna Peysur og Parruk ásamt Gadus Morhua Ensemble.

Steinunn er einnig forsprakki TÓLF TÓNA KORTÉRSINS, norðlenskri tilraunasenu í tónlist á Listasafninu á Akureyri, og leiðandi sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Steinunn kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og er deildarstjóri klassískrar deildar hans.

 

Sunnudaginn 18. ágúst kl. 17.00 - 18.00 leikur Kitty Kovács, organisti við Landakirkju í Vestmannaeyjum á orgelið í Hallgrímskirkju í Reykjavík.

Kitty Kovács er fædd í Gyor í Ungverjalandi árið 1980 og útskrifaðist árið 2003 frá tónlistardeild Széchenyi István háskólans þar í borg með diplómu í píanó- og kammertónlist.

Eftir útskriftina starfaði hún sem undirleikari í Gyor og lagði síðan stund á undirleikaranám við Ferenc Liszt Akademíuna í Búdapest.

Á námsárum sínum vann hún í píanókeppnum, meðal annars árið 1997 í Salt Lake City og árið 2000 varð hún í 3. sæti í Chopin keppninni.

Kitty kom til Íslands árið 2006 og hefur starfað sem píanókennari og organisti.

Frá árinu 2011 hefur hún verið kirkjuorganisti við Landakirkju í Vestmannaeyjum og kennari við Tónlistarskóla Vestmannaeyja.

Frá árinu 2012 hefur Kitty stundað orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar og vorið 2017 lauk hún kantorsnámi þaðan.

Ári síðar lauk hún námi frá sama skóla í einleiksáfanga.

Dagskrá Orgelsumars í Hallgrímskirkju í heild sinni má sjá hér.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Tónlist

  • Tónskóli þjóðkirkjunnar

  • Kirkjustaðir

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði