Sr. Kristín Þórunn ráðin
Biskup Íslands óskaði nýlega eftir sóknarpresti til þjónustu við Skálholtsprestakall í Suðurprófastsdæmi.
Miðað var við að viðkomandi gæti hafið störf 1. september n.k.
Prestakallið
Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli.
Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru 12 kirkjur:
Bræðratungusókn - Bræðratungukirkja, Haukadalssókn - Haukadalskirkja, Skálholtssókn - Skálholtskirkja, Torfastaðasókn - Torfastaðakirkja, Miðdalssókn - Miðdalskirkja, Mosfellssókn - Mosfells-Stóru-Borgar og Búrfellskirkjur, Úlfljótsvatnssókn - Úlfljótsvatnskirkja, Þingvallasókn - Þingvallakirkja.
Auk þess eru í prestakallinu Úthlíðarkirkja sem er bændakirkja og Sólheimakirkja á Sólheimum og er reglulegt helgihald í báðum kirkjum.
Prestsbústaður er í Mosfelli.
Valnefnd hefur valið sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur, prest í Egilsstaðaprestakalli í starfið og hefur biskup Íslands staðfest þá ráðningu.
Sr. Kristín Þórunn er fædd í Neskaupsstað árið 1970 þar sem foreldrar hennar, sr. Tómas Sveinsson og Unnur Anna Halldórsdóttir djákni þjónuðu en hún er elst af fimm börnum þeirra.
Kristín ólst að mestu leyti upp í Reykjavík þaðan sem hún lauk stúdentsprófi og cand. theol. gráðu frá Háskóla Íslands.
Hún sótti framhaldsnám í guðfræði og trúarbragðafræði í Svíþjóð og Bandaríkjunum og vígðist til þjónustu héraðsprests í Kjalarnessprófastsdæmi árið 1998.
Hún hefur einnig sinnt prestsþjónustu í Garðaprestakalli, Laugarnesprestakalli, í lúthersku og anglikönsku kirkjunni í Genf, og í Egilsstaðaprestakalli.
Hún hefur fjölbreytta reynslu af kirkjustarfi innanlands og erlendis, og hefur lagt sig eftir vinnu við helgihald og tilbeiðslu, og situr m.a. í handbókarnefnd þjóðkirkjunnar.
Sr. Kristín Þórunn er gift sr. Árna Svani Daníelssyni, samskiptastjóra Lútherska heimssambandsins og þau eiga fjögur uppkomin börn og tvö sem eru ennþá heima við.
slg