Kveðjumessa, pílagrímaganga og setning kirkjudaga
Kveðjumessa frú Agnesar M. Sigurðardóttur fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík í gær sunnudaginn 25. ágúst kl. 11:00.
Húsfyllir var í Dómkirkjunni og vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum tóku þátt í athöfninni auk dómkirkjuprestanna.
Frú Agnes minntist prestsvígslu sinnar á sama stað fyrir 43 árum og þjónustunnar sem hún innti af hendi í kirkjunni, en hún vígðist til að þjóna sem æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar og hafði þá aðsetur á biskupsstofu og þjónaði að hluta til í Dómkirkjunni.
Að messu lokinni var kaffisamsæti í safnaðarheimili Dómkirkjunnar þar sem formaður sóknarnefndar Einar Gottskálksson ávarpaði biskup og afhenti henni gjöf og blóm.
Þá hélt sr. Gunnþór Ingason þakkarræðu.
Áður en haldið var til kaffisamsætisins lögðu um 40 pílagrímar af stað frá Dómkirkjunni að Lindakirkju í Kópavogi, en það er um 13 kílómetra leið.
Pílagrímagangan var undir leiðsögn sr. Elínborgar Sturludóttur dómkirkjuprests.
Pílagrímarnir komu síðan að Lindakirkju á mínútunni fjögur, en þá hófst í kirkjunni setningarathöfn kirkjudaganna sem standa yfir í Lindakirkju alla vikuna.
Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup stýrði athöfninni og flutti ávarp.
Minntist hún undirbúnings kirkjudaganna sem fram fór í allan vetur, en um 40 málstofur verða haldnar í dag og næstu daga, fjöldi kirkjukóra syngur á föstudag og afhending Liljunnar fer fram.
Á laugardag verður fjölskyldudagur með alls kyns skemmtilegheitum.
Eftir ávarp biskups flutti Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings ávarp og fór yfir þær breytingar sem hafa orðið á kirkjunni undanfarin ár.
Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir hélt að lokum ræðu.
Í ræðu sinni talaði hún um hve bærinn og kirkjan hafa átt í góðu samstarfi.
Útlínur Kópavogskirkju eru í bæjarmerkinu og kirkjan þannig einkenni bæjarins.
Með mikilli fólksfjölgun í Kópavogi hafa bæst þrjár kirkjur við, Digraneskirkja, Hjallakirkja og Lindakirkja.
Sagði hún það ómetanlegt að eiga presta og starfsfólk safnaðanna að þegar sorg eða erfiðleikar steðja að, sérstaklega í skólum bæjarins.
Þá lofaði hún fermingsrstarf Lindakirkju, en þar býr hún með fjölskyldu sinni og börn hennar hafa fermst þar.
Milli ávarpanna sungu félagar úr Cantoque Ensemble við undirleik Hólmfríðar Sigurðardóttur.
Þá setti biskup kirkjudagana formlega.
Að lokinni setningarathöfninni var pílagrímum og öðrum gestum boðið upp á veglegar veitingar.
Hér fyrir neðan eru myndir frá öllum þessum viðburðum sem fram fóru í gær
slg