Áhrifamikið samtal við Sally Azar á Kirkjudögum

30. ágúst 2024

Áhrifamikið samtal við Sally Azar á Kirkjudögum

Heimurinn upplýstur með bænaljósum

Kirkjudagar þjóðkirkjunnar voru afar vel sóttir í gær, fimmtudag.

Dagskráin hófst kl. 17:30 með helgistund í umsjón alþjóðlega safnaðarins.

Sr. Toshiki Toma prestur innflytjenda sr. Pétur Ragnhildarson prestur í Breiðholtsprestakalli og Steinunn Þorbergsdóttir djákni sáu um helgistundina.

Örn Magnússon, organisti lék undir á flygil Lindakirkju.

Fólk úr Alþjóðlega söfnuðinum tók þátt í helgistundinni, með ritningarlestrum og bænum, sem lesnar voru á ensku, farsi, úkraínsku og íslensku.

Kl. 18:00 hófst samtal um að lifa við stríð.

Sivin Kit, verkefnastjóri guðfræði, boðunar og réttlætis hjá Lútherska heimssambandinu tók viðtal við Sally Azar, sem var fyrsta konan til að hljóta prestsvígslu í lúthersku kirkjunni í Palestínu.

Sr. Sally Azar er fædd í Jerúsalem og lærði guðfræði í Líbanon og Þýskalandi.

Hún var vígð til prests 22. janúar árið 2023, átta árum eftir að hún lauk námi.

Hún þjónar í sex söfnuðum víðs vegar um Palestínu.

Í þeim söfnuðum eru um 2500 manns.

Dr. Sivin Kit spurði sr. Sally að því hvernig væri að vera prestur í stríði.

"Er erfitt að ferðast á milli staða?"

Sally sagði að vegalengdir væru ekki miklar í landinu, en erfitt væri að fara á milli af því Ísrael stjórnar öllu og setur upp lokunarpósta að eigin geðþótta.

"Sem dæmi má nefna að Jeríkó er mjög nálægt Jerúsalem, en samt er mjög erfitt að ferðast þangað.

Þar er mjög heitt núna.

Þó það sé um 30 gráður í Jersúsalem, þá eru 48 gráður í Jeríkó núna, en þar hafa verið barna- og unglingabúðir á vegum kirkjunnar nú í sumar.

Við verðum að vinna með það sem við höfum" segir Sally „krakkana langar að sjá heilaga staði í Jerúsalem, en fá það ekki alltaf.

Það er allt miklu erfiðara núna.

Allt hefur versnað eftir 7. október í fyrra.

Margt fólk vinnur við ferðamennsku, en þau hafa verið atvinnulaus af því ferðamennska hefur alveg legið niðri.

Margt fólk hefur reynt að flýja.

Við erum svo fá sem erum kristin og því erum við mjög tengd.

Kristnar fjölskyldur á Gasa hafa verið drepnar og það snertir okkur öll.

Við prestarnir getum ekki hugsað um okkur sjálf því við verðum að hugsa um aðra.

Lífið er svona núna og við verðum bara að hugsa um okkur sjálf seinna.

Við náðum þó að vera með kyrrðardaga fyrir presta í sumar og það var mjög gott.“

Sivin Kit spurði þá Sally hvernig það væri að vera kristin í landinu helga.

Sally sagðist hafa haldið fyrirlestur fyrir unglinga í Bandaríkjunum árið 2012 og varð þá vör við að krakkarnir héldu að allt væri ennþá eins og þegar Jesús gekk þar um, enda var landið hernumið þá líka.

„En það hefur allt breyst.

Árið 1948 þurftu afi minn og amma að yfirgefa heimili sitt í Jaffa, sem nú heitir Tel Aviv.

Þau voru rekin að heiman.

Enginn talar um það núna.

En fólki er talið trú um að það sé allt í lagi að gera þetta af því það hefur verið gert svo oft áður.

Það er alltaf verið að taka meira og meira land af Palestínumönnum.“

Sivin Kit spurði þvínæst um skólana sem kirkjan rekur.

„Já, við erum með fjóra skóla.

Menntun barna má aldrei hætta þó það sé stríð.

Við rekum kærleiksþjónustu og fylgjum Gender Justice Policy frá Lútherska Heimssambandinu, sem hefur mikil áhrif.

Kirkjan er með sitt eigið kirkjuráð og sín eigin kirkjulög.

Í þeim er kveðið á um að konur undir 18 ára aldri megi ekki giftast.

Annað dæmi sem nefna má er að erfðaréttur er ekki aðeins til sona.

Kaþólikkar og orþódoxar koma í skólana til okkar því við erum svo fá.

Kirkjan hefur því miður ekki verið öflug í að berjast gegn loftlagsvánni, en Ísrael hefur eytt aldagömlum trjám svo við höfum verið að planta trjám, sem er líka tákn um lífið.

Við reynum að finna vonina í öllu sem við erum að gera.“

Sivin Kit sagði þá:

„Við skiljum vel að fólk vill fara burt frá þessu öllu, en hvað heldur ykkur þarna?

Hvað gefur ykkur styrk?“

„Þetta er heimili okkar.

Fjölskyldan okkar er þarna.

Þegar safnaðarfólk segist ætla að fara, reynum við ekki að halda í þau.

En við reynum að vera á þeim stað sem afi og amma voru á og höldum í vonina um að við getum frelsað Palestínu.

Fólk heldur áfram að koma til kirkju.

Það þarfnast trúarinnar, sem gefur þeim styrk.

Þetta er land Jesú.

Við viljum boða orðið hans á þessum stað.“

Hvernig heldur þú í vonina?

„Við erum öll sameinuð sem kristið fólk og það gefur von að vera hér í dag og finna samstöðu og bænir fólks víða um heim.

Þegar ég kem í kirkjuna til að messa þá veit ég af hverju ég er þar.

Til að gefa fólkinu von.

Við erum ekki ein“ sagði Sally Azar að lokum.

 

Á sama tíma og Sally Azar sagði sögu sína sagði sr. Guðlaugur Gunnarsson, kristniboði og kerfisfræðingur frá 70 ára sögu kröftugrar kirkju í Konsó.


Kl. 19:00 – 21:00 var æfing risastórs kórs kirkjufólks í kirkjunni, en þau munu taka þátt í dagskrá dagsins í dag og á morgun.

Kl. 19:00 var málstofa sem bar yfirskriftina:

Lútherska heimssambandið sem friðflytjandi

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir varaforseti Lútherska Heimssambandsins ræddi við dr. Sivin Kit, verkefnastjóra guðfræði, boðunar og réttlætis hjá Lútherska heimssambandinu.

 

Á sama tíma flutti sr. Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri SÍK erindi sem hann nefndi: Kristniboð sem friðarstarf


Kl. 20:00 var málstofa um ofsóknir gegn kristnu fólki  í mörgum löndum heims.

Það voru Helga Vilborg Sigurjónsdóttir verkefnastjóri og sr. Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins sem sáu um þessa málstofu.


Á sama tíma sá sr. Heiðrún H Bjarnadóttir Beck um málstofu um fólk á flótta.

Sr. Heiðrún Helga situr í framkvæmdanefnd kirkjunnar um málefni innflytjenda og flóttafólks.

Þau sem ræddu málefni flóttafólksins voru sr. Toshiki Toma, prestur innflytjenda, sr. Skúli Sigurður Ólafsson sem tekið hefur á móti flóttafólki frá Úkraínu í safnaðaarheimili Neskirkju og Hjördís Kristinsdóttir sem hefur haldið utan um fjölda fólks frá Venesúela.

Kl. 21:00 var helgistund með altarisgöngu.

Sr. Sally Azar, prestur Church of the Redeemer í Jerúsalem, þjónaði við stundina.

Arnhildur Valgarðsdóttir sat við flygilinn og sr. María Rut Baldursdóttir söng einsöng og leiddi almennan sálmasöng.

Kl. 21:30 var Biblíukviss í umsjá sr. Péturs Ragnhildarsonar og sr. Sigurðar Más Hannessonar.

 

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar á Kirkjudögum í gær.

slg



Myndir með frétt

  • Biblían

  • Flóttafólk

  • Fundur

  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Lútherska heimssambandið

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls