2. september 2024
Fyrsta biskupskápa 21. aldar: Hönnuð af konum fyrir konu
Biskupskápa frú Guðrúnar Karls Helgudóttur, biskups Íslands, er fyrsta biskupskápan sem saumuð er á þessari öld fyrir íslenskan biskup. Er hún jafnframt fyrsta kápan sem saumuð er sérstaklega á konu.
Kápan er hönnuð, útfærð og saumuð af þeim Steinunni Sigurðardóttur, þjóðfræðingi og hönnuði, Kristínu Gunnlaugsdóttur myndlistakonu og Þórdísi Jónsdóttur, útsaums-listakonu. Kápan er þannig ekki aðeins sú fyrsta sem saumuð er á konu, heldur er hún hönnuð, útfærð og saumuð af konum, fyrir konu.
Minnir á himnalit íslenska sumarsins
Kápan er himinblá og minnir á himnalit langþráðs íslensks sumardags. Þá er hún einungis saumuð úr náttúrulegum efnum.
Í bréfi hönnunarteymisins sem fylgir með kápunni segir að fyrirmynd að munstrinu kemur frá íslenskum birkigreinum, fíngerðum og ögn kræklóttum. Birkið hefur aðlagað sig vel að íslenskum aðstæðum. Það gefur eftir og sveigir sig þegar vindar blása, án þess þó að það komi niður á styrkt þess eða mýkt.
Á boðungum kápunnar sem og á baki hennar eru saumaðar úr ull og gullþræði íslenskar birkigreinar með vorgrænum brumhnöppum og nýútsprungnum laufum. Fyrirmyndir fyrir útsaumin komu úr garði listakonunnar og minnir okkur á að í hversdagsleikanum, okkar nánasta umhverfi, finnum við og tengjumst okkar eigin sálargarði.
Kápan er ókláruð og lifandi
Efst á baki kápunnar og nemur við hjarta þess sem kápuna ber, er saumaður gylltur kross, tákn hins kristna manns, tákn fórnar, upprisu og skilyrðislauss kærleika. Krossinn er handsaumaður í formi trjágreina.
Neðst á baki kápunnar logar hinn gyllti logi heilags anda sem teygir sig upp og glæðir með krafti sínum allt líf.
Kápan, að sögn hönnunarteymisins, er ókláruð og með tíð og tíma mun birkið vaxa, það myndar brum og úr því verður skógur. „Fleiri hríslur munu bætast á biskupskápuna, hún vex og dafnar með þeim sem munu nota hana.“
Sú yngsta í langri röð
Í vígsluathöfninni í gær í Hallgrímskirkju bættist þessi kápa við langa röð íslenskra biskupskápa.
Elsta biskupskápan sem enn er til er í öruggri vörslu Þjóðminjavarðar og til sýnis í Þjóðminjasafninu. Þeirri kápu klæddist meðal annarra sr. Jón Arason Hólabiskup á 16. öld. Sr. Jón lést árið 1550, en kápan hélt áfram kirkjuþjónustu sinni í hið minnsta 359 ár, en til er ljósmynd af kápunni í notkun árið 1909.
Hvort kápan úr smiðju þeirra Steinunnar, Kristínar og Þórdísar verði enn í notkun 359 árum eftir daga frú Guðrúnar Karls Helgudóttur biskups, er óljóst sem stendur.