Laust starf

3. september 2024

Laust starf

Egilsstaðakirkja

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Egilsstaðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf sem fyrst, en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

 

Egilsstaðaprestakall

Egilsstaðaprestakall varð til við sameiningu fjögurra prestakalla á Héraði, Borgarfirði og Seyðisfirði.

Íbúafjöldi prestakallsins er 4913, þar af eru 3385 í þjóðkirkjunni.

Sóknirnar eru 14, hver með sína sóknarkirkju.

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 472 1164 eða á netfangið sigridur.run.tryggvadottir@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni s. 528 4000, eða á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 17. september 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

 

Þarfagreining vegna fyrirhugaðar ráðningar í Egilsstaðaprestakalli. 

Í Egilsstaðaprestakalli er mikið og fjölbreytt helgihald.

Áhersla er lögð á safnaðarstarf, barna- og æskulýðsstarf er í föstum skorðurm og reglulegt á þremur starfsstöðvum.

Öldrunarstarf í dagdvöl aldraðra í Hlymsdölum ásamt helgistundum á hjúkrunardeildum.

Opið hús, biblíuleshópur, fermingarfræðsla, fræðslukvöld fyrir fermingarbörn og foreldra, ýmis námskeið og stuðningshópar.

Prestarnir vinna sjálfir að safnaðarstarfinu og skipta á milli sín helgihaldi.

Organistar starfa í öllum sóknum prestakallsins.

 

Sóknir prestakallsins eru:

Möðrudalssókn er minnsta sókn prestakallsins.

Íbúar eru skráðir 25 og þarf af 3 í þjóðkirkjunni.

Þar er kirkja sem Jón Aðalsteinn Stefánsson reisti til minningar um konu sína, Þórunni Vilhjálmsdóttur.

Gersemi er altaristaflan sem sýnir fjallræðuna, máluð af Jóni sjálfum.

Þar er messað á kirkjudegi og kirkjan er vinsæl til athafna.

Möðrudalur er fjölsóttur ferðamannastaður.

 

Eiríksstaðasókn er á Efra-Dal með 32 íbúa og þarf af 26 í þjóðkirkjunni.

Þar stendur Eiríksstaðakirkja, lítil steypt kirkja frá 1913.

Kirkjan var endurgerð á árunum 1993-1994 að miklu leyti í sjálfboðnu starfi sóknarbarna.

Þar er messað einu sinni á sumri auk athafna.

 

Hofteigssókn á Jökuldal er með 43 íbúa og þar af eru 37 í þjóðkirkjunni.

Kirkjan er frá 1883 og standa nú yfir endurbætur á henni.

Messur eru á jólum, páskum og athafnir eftir óskum.

Þjónustuhús með safnaðarsal, salerni og eldhúskrók stendur við kirkjuna.

 

Valþjófsstaðarsókn í Fljótsdal er með 103 íbúa og þar af eru 65 í þjóðkirkjunni.

Valþjófsstaður er fornt höfuðból og kirkjustaður.

Kirkjan sem nú stendur var vígð árið 1966.

Nýtt sögusvæði við bílastæði kirkjunnar var afhjúpað í ágúst 2021.

Kirkjan er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Meðal dýrgripa þjóðminasjafnsins eru útskornar dyr gömlu stafkirkunnar á Valþjófsstað og prýðir nákvæm eftirmynd hurðarinnar núverandi kirkju.

Messað er fjórum til sex sinnum á ári, athafnir eru nokkrar og er kirkjan vinsæl til brúðkaupa og skírna.

Fermingar eru nokkrar.

 

Þingmúlasókn er í Skriðdal.

Íbúafjöldi er 62 og þar af eru 46 í þjóðkirkjunni.

Kirkjan er frá 1886 og stendur undir Þingmúlanum.

Í Þingmúlasókn eru messur á hátíðisdögum, svo sem jólum, páskum, hvítasunnu og ein hefðbundin sumarmessa í ágúst og svo fermingar ásamt skírnum þess utan.

Samstarf er nokkurt við Vallanessókn og sameiginlegur kirkjukór fyrir báðar kirkjunar og ýmsar athafnir fyrir báðar sóknir, s.s. sameiginlegar aðventustundir og eru þær til skiptis í hvorri sókn.

 

Vallanessókn á Völlum er með 173 íbúa og þar af eru 86 í þjóðkirkjunni.

Vallaneskirkja var vígð 1931.

Kirkjan á marga dýrgripi forna, enda gamalt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur.

Við kirkjuna stendur þjónustuhús frá 1997.

Mikið samstarf er við Þingmúlasókn, sbr. ofangreint.

 

Ássókn í Fellum er með 513 íbúa og þar af eru 381 í þjóðkirkjunni.

Áskirkja er timburkirkja og var reist árið 1898.

Við kirkjuna stendur aðstöðuhús.

Kirkjuselið í Fellabæ tilheyrir sókninni.

Í Ássókn er mikið safnaðarstarf.

Barnastarf 6-9 ára og 10-12 ára.

Opið hús fyrir alla, fermingarfræðsla reglulegt messuhald mánaðarlega og á stórhátíðum, aðventukvöld, stuðningshópar, fræðslukvöld sbr. sorgin og jólin og sálgæsla.

Í Fellabæ er grunnskóli og leikskóli.

 

Egilsstaðasókn á Egilsstöðum er stærsta sókn prestakallsins með 2763 íbúa, þar af eru 2009 í þjóðkirkjunni.

Kirkjan var vígð 16. júní 1974 og tekur hún um 200 manns í sæti.

Helgihald er reglulegt, 2-3 guðsþjónustur/messur á mánuði og oftar á hátíðum.

Barnastarf er mikið og reglulegt.

Æskulýðsstarf, TTT-starf, Stjörnustund fyrir 6-9 ára, sunnudagaskóli og foreldramorgnar.

Innan Egilsstaðasóknar er hjúkrunarheimilið Dyngja.

Prestar hafa verið þar með helgistundir inni á deildum vikulega og guðsþjónustur með þátttöku kóra og organista á svæðinu hafa einnig verið haldnar þar reglulega.

Prestar hafa reglulega verið með stundir í Félagsmiðstöð eldriborgara Hlymsdölum, tekið þátt í annarri starfsemi eldriborgara og verið þeim til aðstoðar á margan hátt.

Sóknarnefnd telur mikilvægt að ekki verði dregið úr þessu starfi á nokkurn hátt og líklegt að eldriborgurum muni fjölga þar sem eldra fólk virðist sækjast eftir því á flytja á Egilsstaði.

Á Egilsstöðum er grunnskóli, leikskólar og Menntaskólinn á Egilsstöðum.

Þar er einnig íþróttamiðstöð, sundlaug og frjálsíþróttasvæið.

Söfn, menningarlíf og afþreying fyrir íbúa og ferðafólk.

 

Sleðbrjótssókn í Jökulárshlíðinni er með 60 íbúa og þar af eru 47 í þjóðkirkjunni.

Bændur í Jökulsárhlíð tóku að sér byggingu kirkjunnar og var hún vígð árið 1927.

Við kirkjuna stendur vel búið aðstöðuhús.

Samstarf er nokkuð við Kirkjubæjarsókn og m.a. er sameiginlegur kór.

Annað hvort er jóla- eða páskamessa og aðventukvöld þar á móti.

Ein sumarmessa ásamt athöfnum eins og fermingar, skírnir og jarðarfarir.

Komið er að viðhaldi á kirkjunni, en hún er ekki friðuð.

 

Kirkjubæjarsókn er í Hróarstungu og telur hún 78 íbúa og þar af eru 61 í þjóðkirkjunni. Kirkjubær er forn kirkjustaður og er kirkjan sem þar stendur með elstu timburkirkjum landsins, hún var vígð á jóladag 1851.

Kirkjan á marga dýrgripi og má þar nefna prédikunarstól sem smíðaður var skömmu eftir siðbreytingu og er talinn elsti prédikunarstóll í kirkju hérlendis.

Helgihald er á hátíðum og ein sumarmessa.

Samstarf við Sleðbrjótssókn um aðventuhátíð og eru sóknirnar með sameiginlegan kór.

 

Eiðasókn er í Eiðaþinghá og íbúafjöldi þar er 132, þar af 87 í þjóðkirkjunni.

Eiðar eru gamalt höfuðból og kirkjustaður.

Kirkjan sem nú stendur er frá 1886 og við hana stendur gott aðstöðuhús.

Samstarf við Hjaltastaðarsókn, m.a. sameiginleg aðventuhátíð.

Messað er þrisvar á ári auk þess er hún vinsæl fyrir athafnir.

Aðgengi er gott í kirkjunni og aðstöðuhúsi.

Í sókninni er Kirkjumiðstöð Austurlands.

 

Hjaltastaðasókn er á úthéraði í Hjaltastaðaþinghá.

Íbúar eru 62 og þar af eru 53 í þjóðkirkjunni.

Kirkjan var talin fullkláruð 1882.

Viðamiklar viðgerðir og endurbætur voru gerðiar í kringum aldamótin og var kirkjan m.a. máluð í upprunalegum litum.

Ekkert aðstöðuhús er við kirkjuna.

Hefðbundið er að messa þrisvar á ári auk aðventustundarinnar sem er í samstarfi við Eiðasókn.

 

Bakkagerðissókn á Borgarfirði Eystri.

Íbúar eru 160 og þarf af 83 í þjóðkirkjunni.

Kirkjan var vígð árið 1901.

Einn af dýrgripum kirkjunnar er altaristaflan, frá 1914.

Hún sýnir frelsarann flytja fjallræðuna um umhverfi Borgarfjarðar með Dyrfjöll í baksýn.

Hún var máluð af Jóhannesi Kjarval að ósk kvennanna í þorpinu.

Messað er sex til sjö sinnum á ári, auk athafna.

Ekkert aðstöðuhús er við kirkjuna en kirkjan hefur aðstöðu í Heiðargerði sem stendur við kirkjuna.

 

Messað er á Klyppstað í Loðmundarfirði einu sinni á sumri og þá tekur sóknarnefnd og meðhjálpari Bakkagerðissóknar þátt.

Á Borgarfirði er grunnskóli, leikskóli og þar er öflug ferðaþjónusta.

 

Seyðisfjarðarsókn á Seyðisfirði.

Íbúafjöldi er 707 og þar af eru 401 í þjóðkirkjunni.

Kirkjan var flutt af Vestdalseyrinni og endurbyggð 1922.

Kirkjan er með stærstu timburkirkjum landsins og tekur um 250 manns í sæti.

Messur/guðsþjónustur eru tvisvar í mánuði og oftar á hátíðum.

Mikið safnaðarstarf er á Seyðisfirði, sunnudagaskóli, TTT-starf, æskulýðsstarf og fermingarfræðsla.

Á hjúkrunardeildinni Fossahlíð eru reglulegar helgistundir ásamt guðsþjónustum á hátíðum.

Við kirkjuna er lítið safnaðarheimili og þangað er innangengt úr kirkjunni og nýtist vel í safnaðarstarfi.

Kirkjan er vinsæl fyrir tónleikahald.

Á Seyðisfirði er grunnskóli, leikskóli, listalýðháskóli, sundhöll og gott íþróttahús.

Mikið menningar og listalíf er á Seyðisfirði og er þar m.a. eina bíóhús Austurlands.


Umfang prestsþjónustunnar, starfsaðstaða o.fl.

Allir prestar prestakallsins þjóna öllu prestakallinu, en samstarfssamningur kveður nánar á um skiptingu verkefna og hver prestur er tengiliður við ákveðnar sóknarnefndir.

Prestarnir eru í miklu samstarfi og starfið er fjölbreytt.

Nýr prestur skal hafa þekkingu og reynslu sem nýtist vel í kirkjulegu starfi með börnum, unglingum og eldri borgurum.

Þá skal viðkomandi einnig hafa reynslu og þekkingu af sálgæslu við ólíkar og krefjandi aðstæður.

Viðkomandi mun vitaskuld einnig sinna helgihaldi og hefðbundnum prestsverkum.

Presturinn þarf að vera sjálfstæður í vinnubrögðum.

Starfsaðstaða prestsins er í Kirkjuselinu í Fellabæ og hefur presturinn sérstakar skyldur við Ássókn auk fjölmargra annarra verkefna í prestakallinu.

Þess er vænst að nýr prestur muni hafa reglulega viðveru í Kirkjuseli og hafa aðalumsjón með safnaðarstarfi Ássóknar.

Í Kirkjuselinu er mjög góð aðstaða og húsnæðið nýlega uppgert.

Viðkomandi þarf að hafa aðgang að bifreið.

Prestakallið er víðfeðmt og starfinu fylgir mikill akstur, um fjallvegi og oft í erfiðri færð.

Gott samstarf er við skóla, heilbrigðisstofnun, félagsþjónustu og aðrar stofnanir sem starfa í prestakallinu.

Samstarf er um áfallateymi og jólasjóð við ýmsa aðila í samfélaginu.

Í prestakallinu eru margar helstu náttúruperlur Austurlands.

Aðstaða til útivistar er eins og best verður á kosið, gönguleiðir og skíðasvæði í Stafdal, þar sem eru skíðalyftur og gönguskíðabrautir.

 

slg




  • Auglýsing

  • Barnastarf

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls