Tímamót við setningu Alþingis

11. september 2024

Tímamót við setningu Alþingis

Biskup Íslands í predikunarstól Dómkirkjunnar

Alþingi Íslendinga var sett í gær.

Að venju gengu alþingismenn til Dómkirkjunnar í Reykjavík við upphaf þingsetningar.

Sr. Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur þjónaði fyrir altari og biskup Íslands sr. Guðrún Karls Helgudóttir predikaði og blessaði þingheim í lok helgistundarinnar.

Síðan var gengið til Alþingis þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir setti þingið og ávarpaði þingmenn.

Bæði Halla og sr. Guðrún hafa nýtekið við embættum sínum og því voru þær í hlutverkum sínum í fyrsta skipti.

Það eru og söguleg tímamót að tvær konur skuli þjóna þessum mikilvægu embættum á sama tíma.

Báðar minntust hinna sorglegu atburða sem gerst hafa á landinu okkar að undnförnu og kölluðu eftir meiri kærleika og umhyggju í samfélaginu okkar.

Sr. Guðrún predikaði eins og áður sagði og fer predikun hennar hér á eftir:


„Það er ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi.

Eitt hefur nefnilega lengi vakið athygli mína og það er að ég sé stundum sama fólkið og tekst á í ræðustól Alþingis, jafnvel á stundum virkilega harkalega, sitja svo saman sem mestu mátar í kaffiteríunni, um borð í flugvél eða að taka á því saman í ræktinni.

Því segi ég að það sé ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi.

Það sem við, sem fylgjumst með störfum Alþingis, sjáum er fyrst og fremst það sem fer fram í þingsalnum en þó er það svo að öll alvöru vinnan, málamiðlanirnar og sættirnar fara fram fyrir luktum dyrum svo sem á nefndarfundum og það er ekki sýnt frá þeim samtölum og þeirri vinnu í sjónvarpinu.

Það krefst ákveðins þroska að geta umgengist og þótt vænt um fólk þó að það sé okkur ósammála í mörgum málum, já og jafnvel í grundvallarmálum. Manneskjan er nefnilega svo miklu meira en skoðanir hennar, og hvað þá þær sem birtast á samfélagsmiðlum.

Auk þess er það hverju okkar hollt að raða ekki einungis í kringum okkur fólki sem er sama sinnis og við um alla hluti.

Þá endum við í bergmálshelli og förum á mis við það tækifæri að kynnast því góða fólki sem hefur það eitt til saka unnið að vera ósammála okkur um pólitík, eða trúmál. Vissulega er þægilegast að umgangast fólk sem er okkur sammála en grundvallarstef lýðræðisríkis er frelsi til ólíkra skoðana.

Dansinn

Lexía síðastliðins sunnudags er lesin var í kirkjum landsins er sagan af gullkálfinum og dansinn í kringum hann.

Ég býst við að þið kannist flest við þessa sögu enda er hún hluti af menningu okkar eins og svo margar sögur Biblíunnar.

Dansinn í kringum gullkálfinn segir sögu af fólki sem dýrkar eitthvað innantómt.

Það dansar í kringum styttu því það þarfnast áþreifanlegs Guðs.

Það býr til Guð úr gullinu sem það á í fórum sínum, úr skartinu.

Fólkið sem þarna um ræðir er statt í eyðimörkinni, langt frá allri siðmenningu.

Það hefur verið frelsað af Guði og leitt úr ánauð í Egyptalandi.

Leiða má líkum að því að gullið, skartgripir sem fólkið tók af sér, bræddi og mótaði sem nautkálf sé tákn þess oks er fylgt hafði þrældómnum í Egyptalandi sem þau voru nú laus undan.

Fólkið var þó ekki frjálsara en svo að um leið og leiðtoginn þeirra, Móse brá sér af bæ, upp á fjall til þess að hitta Guð sinn og sækja steintöflurnar með boðorðunum 10, myndaðist svo mikið tómarúm að þau bjuggu til styttu af kálfi eða nauti sem minnti á guðina sem þau höfðu dýrkað áður sem margir voru í kálfslíki.

Ef til vill fólst ákveðið öryggi í nautkálfinum.

Hann var kunnuglegur og táknaði styrk, hörku og árasargirni.

Hann gat ráðist á ógnina.

Það var ekkert mjúkt eða kærleiksríkt við kálfinn en hann var bæði sterkur, glóandi og áþreifanlegur.

Þegar kálfurinn er tilbúinn heldur fólkið veislu.

Það dansar í kringum kálfinn og færir honum fórnir.

Þau þarfnast leiðtoga.

Það er nýtt fyrir þeim að fylgja Guði sem það getur ekki gert sér greinagóða mynd af, Guðs sem ekki er hægt að snerta.

Sagan af gullkálfinum og dansinum í kringum hann er saga af fólki sem villist af leið skamma stund.

Það beinir bænum sínum að veraldlegum auðæfum.

Það leggur traust sitt á það sem ekkert gefur af sér nema birtu í augu og góða veislu eina kvöldstund.

Dansinn í kringum gullkálfinn er tákn um græðgi og þrá okkar eftir veraldlegum gæðum.

Við föllum flest, ef ekki öll, fyrir gullkálfum og hrífumst með í dansinn í kringum hann.

Hann glóir svo fagurlega og það er svo gaman í návist hans að það er auðvelt að gleyma sér.

Hann er stór og sterkur.

Hann er sigurviss.

Gullkálfurinn er líka dæmi um það sem getur gerst þegar við missum sjónar af því sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi.

Á fæðingardeildinni hérna í Reykjavík verða til nýir Íslendingar á hverjum degi – hver einn og einasti þeirra eignalaus.

Handan Öskjuhlíðarinnar er svo stærsti kirkjugarður landsins, fullur af fólki sem eitt sinni átti pening.

Peningar færa okkur öryggi.

Þak yfir höfuðið og matur á borðið kostar peninga.

Ég geri ekki lítið úr því.

Þeir eru verkfæri sem við notum í lífinu, en þeir eru ekki lífið sjálft.

Þegar við erum farin að lifa lífinu peninganna vegna, þá er farið að glitta í kálfinn.

Peningur eru góður þjónn, en vondur húsbóndi, og enn verri guð.

Hver er gullkálfur (eða gullkálfar) dagsins í dag?

Erum við búin að bræða skartið og smíða gullkálf enn eina ferðina sem samfélag eða hvert og eitt fyrir sig.

Gullkálfarnir eru um allt, í einkalífi, stjórnun landsins, kirkjunni.

Þeir skína svo skært og því auðvelt að hrífast með í dansinum.

En allur gleðskapur tekur enda og ljósin kvikna.

Reglurnar og boðorðin

Góðu fréttirnar eru þær að Móse steig að lokum niður af fjallinu með steintöflurnar með boðorðunum tíu.

Hann kom með boðskapinn beint frá Guði og stöðvaði dansinn.

Hann kveikti ljósin og víman rann af fólkinu.

Þetta hefur einnig gerst margoft með okkar gullkálfa og okkar tryllta dans.

Við getum nefnilega stöðvað dansinn og séð skýrt á ný en stundum þarf til þess einhvern eins og Móse eða barnið sem sá nekt keisarans til þess að vekja okkur af vímunni.

Það kaldhæðnislega er að fyrsta boðorðið fjallar einmitt um það sem fólkið þarna hafði fyrir stafni.

Í fyrsta boðorðinu erum við vöruð við því að dýrka dauða hluti sem ekkert gefa.

Því er ekki að undra að Móse hafi orðið svo mikið um að hann kastaði steinplötunum í jörðina svo að þær brotnuðu.

Nýr tónn

Með boðorðunum 10 kom alveg nýr tónn.

Boðrðin eru í raun mannréttindayfirlýsing.

Þar eru að finna reglur sem eru jafn gildar í dag sem á tímum Móse.

Þetta eru grundvallar umgengnisreglur sem eiga að gilda um allar manneskjur óháð stétt eða stöðu.

Hér hefur Alþingi mikilvægu hlutverki að gegna.

Hvert samfélag þarf siðareglur, umgengnisreglur, mannréttindasáttmála til þess að beina okkur frá gullkálfinum, hinu innantóma.

Það er samfélagsins alls að setja þessar reglur en þar er gott að Alþingi gangi á undan með góðu fordæmi.

Siðareglur samfélagsins okkar höfum við sótt til kristinnar trúar í þúsund ár og sumar þeirra allt frá tímum Móse og eru því ekki einungis bundnar við kristni.

Ég hef tjáð mig um það nokkrum sinnum undanfarið að ég sé sátt við þann aðskilnað sem hefur átt sér stað á milli ríkis og kirkju.

Ég tel það vera kirkjunni mikilvægt að vera ekki of nátengd ríkisvaldinu og ég held að það sama eigi við um ríkið.

Kirkjan verður að vera sjálfstæð í sinni boðun en það þýðir ekki að kirkja og ríki eigi að vera ótengd að öllu leyti.

Ríki og kirkja gegna að mörgu leiti svipuðu hlutverki í samfélaginu því bæði ríki og kirkja eiga að þjóna fólki og vinna að velferð samfélagsins okkar, hvort með sínum hætti þó.

Ríkið setur lögin með velferð okkar allra í huga.

Kirkjan gætir að andlegri heilsu með sálgæslu og iðkun trúar, býður upp á ramma um stórar stundir lífsins, boðar kærleikann sem er æðri öllu og við flest köllum Guð.

Mannhelgi

Hlutverk kirkjunnar er m.a. að styðja þau er stýra landinu okkar með því að biðja fyrir ykkur.

Þið fáið bænir, hlýjar og sterkar hugsanir frá þeim er koma saman til bæna í hverri viku í kirkjum landsins.

Við þurfum ekki alltaf að vera sammála og við eigum ekki endilega að vera það en við getum gengið í takt þrátt fyrir ólíkar skoðanir því hjarta okkar allra slær fyrir velferð fólksins í landinu.

Það er með kirkjuna eins og ykkur, kæra alþingisfólk, að hún er fjöldahreyfing sem samanstendur af fólki með ólíkar skoðanir og ólíka reynsluheima, fólki sem oft er ósammála.

Það er allt í lagi því okkur er öllum jafn holt að búa ekki í bergmálshellum.

Þá er ákaflega mikilvægt að við getum talað í hreinskilni og varað við þegar dansinn í kringum einhvern gullkálfinn ætlar að taka yfir.

Á þessu hausti liggja fyrir stór verkefni og nú við setningu Alþingis grúfir sorg yfir landinu okkar vegna erfiðra atburða sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum.

Fjöldi fólks hefur leitað huggunar í kirkjum landsins þar sem boðið hefur verið upp á minningarstundir, bænastundir og sálgæslu.

Nú er það verkefni okkar allra að vinna að velferð barna og ungs fólks þessa lands og leggja okkar að mörkum til að skapa börnum okkar innhaldsríkt líf sem ekki fer eingöngu fram fyrir framan skjái og á samfélagsmiðlum.

Við þurfum að búa börnum okkar samfélag sem ekki stýrist af tómlæti, ótta og óöryggi heldur kærleika og umhyggju.

Samfélag þar sem hver einasta manneskja er metin að verðleikum, hvaðan sem hún kemur og hvert sem hún er að fara.

Og þessi mannhelgi þarf að endurspegla allar ákvarðanir Alþingis og framgöngu okkar allra sem byggjum þetta land.

Kæru vinir, Guð gefi ykkur kjark, visku og styrk en þó fyrst og fremst opið hjarta og kærleika á komandi tímabili.

Guð blessi ykkur öll í ykkar mikilvægu þjónustu sem varðar líf og framtíð okkar allra.

Dýrð sé Guði sem vísar veginn og elskar allar manneskjur jafnt.“


slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Þing

  • Biblían

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði