Biblíufélagið gefur Biblíur á farsi

12. september 2024

Biblíufélagið gefur Biblíur á farsi

Sr. Toshiki með Biblíuna á farsi

Kirkjan.is sagði frá því í sumar að fjöldi skírnarþega hjá Alþjóðlega söfnuðinum væri kominn upp í 100 manns.

Það má nefna að á þessu ári höfðu 16 manns verið skírðir, en allir skírnarþegar eru fullorðnir.

Sjá má þá frétt hér.

Prestar í Alþjóðlega söfnuðinum eru með skírnarfræðslu fyrir fólk í hvert skipti sem ósk berst um það.

Mikilvægasti hluti fræðslunnar er auðvitað Biblían.

Fréttaritari kirkjan.is rakst svo núna á færslu um að Alþjóðlega söfnuðinum hefði borist vegleg gjöf frá Biblíufélaginu og spurði sr. Toshiki Toma prest innflytjenda um það mál.

Sr. Toshiki segir:

„Í byrjun keypti ég Biblíu á farsi gegnum Amazon með eigin vasapeningum, en það kostaði mikið“ segir Toshiki hlæjandi.

„Í sögu Alþjóðlega safnaðarins gaf Gídeonfélagið einu sinni mörg eintök af Nýja testamentinu á arabísku fyrir nokkrum árum, og í fyrra tók Íslenska Biblíufélagið þátt í stuðningi við Alþjóðlega söfnuðinn og gaf honum mörg eintök af Biblíum á farsi, spænsku, arabísku og portúgölsku.

Ég man að það voru um 10 eintök á farsi, en þau hurfu fljótt því til okkar komu margir farsimælendur.

Raunar þurfti ég að biðja fimm til sex manns um að bíða þar til næsta biblíugjöf kæmi,“ segir Toshiki.

„Og sú gjöf er komin!“ bætir hann við með brosi.

„Þegar ég mætti í Breiðholtskirkju í gær, 11. september fann ég tvo stóra kassa á skrifstofu minni.

Þeir voru með merki FedEx, en ég hafði enga hugmynd um hvað þeir innihéldu,“ segir Toshiki.

„Þegar ég opnaði kassana:

Vá! sagði ég bókstaflega.

Þar voru 21 eintak af Biblíum á farsi!“

Toshiki hafði beðið dr. Grétar Halldór Gunnarsson, stjórnarmann í Biblíufélaginu, um fleiri eintök af Biblíum á farsi fyrir nokkru síðan og ítrekaði beiðni sína við Halldór Elías Guðmundsson framkvæmdastjóra félagsins þegar hann hitti hann á Kirkjudögum í Lindakirkju í lok ágúst.

En Toshiki segist aldrei hafa búist við því að ósk hans myndi rætast svo fljótt.

„Þetta er gjöf sem nýtist, ef ég má orða það þannig.

Strax sama dag gaf ég eintak til hjóna sem komu í skírnarfræðslu í fyrsta skipti.

Í dag er hægt að skoða Biblíuna á netinu.

Það er þægilegt að lesa hana þar ef þú þekkir innihaldið vel nú þegar“

segir Toshiki „en hins vegar er betra að eiga prentaða Biblíu, sérstaklega þegar maður skoðar hana í fyrsta sinn.

Þá fær maður betri yfirsýn, t.d. um hversu stórt Gamla testamentið er, hversu margar bækur Biblían inniheldur og í hvaða röð þær eru.

Netútgáfan er ekki all mighty“ bætir hann við.

Toshiki bendir einnig á annað dæmi:

„Fangapresturinn sr. Sigrún Óskardóttir sótti spænska Biblíu hjá mér til að færa hana fanga sem talaði spænsku.

Ég held að það sé ekki það sama að benda á slóð á netinu og að afhenda Biblíu frá hendi til handar.

Biblían er tákn hjarta okkar og einnig tákn hjarta Guðs.

Mig langar að þakka Hinu Íslenska Biblíufélagi innilega fyrir þessa frábæru gjöf.

Hún skiptir miklu máli, sérstaklega fyrir fólk sem er nýbúið að læra um kristni og Biblíuna.

Ég vil einnig þakka fyrir hönd fólks í skírnarfræðslu, nú og áður“

segir sr. Toshiki að lokum.

 

Hér fyrir neðan má sjá myndir af Biblíunum.

slg


Myndir með frétt

  • Biblían

  • Flóttafólk

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði