Biskupar í brennidepli á Krossgötum
Í kjölfar þess að Þjóðkirkjan hefur kjörið Guðrúnu Karls Helgudóttur biskup Íslands, hefur Neskirkja hafið umfjöllun um forvera hennar á 20. öld.
Samverurnar nefnast Krossgötur og eru alla mánudaga kl. 13:00.
Vikulega er boðið upp á erindi með kaffiveitingum á Torginu í Neskirkju.
Dagskráin er fjölbreytt og tengist ýmsum sviðum lífs og tilveru.
Mánudaginn 16. september kl. 13.00 flytur dr. Gunnar Kristjánsson erindi sem hann nefnir:
Biskup á breytingatímum.
Þar fer hann yfir sögu Jóns biskups Helgasonar, segir frá námsárum hans í Kaupmannahöfn og kynnum hans af þýskum guðfræðingum á námsárum sínum.
Síðan verður fjallað um kennslustörf hans og rektorsstörf við Háskólann.
Farið verður allítarlega yfir störf hans sem biskups og greint frá vísitasíum.
Þá er fjallað um Jón sem myndlistarmann og síðast en ekki síst um myndverk hans af Reykjavík og eitt og annað sem hann skrifaði um sögu Reykjavíkur.
Þann 23. september flytur dr. Skúli S. Ólafsson erindið:
Íslenskir biskupar á 20. öld:
Sigurgeir Sigurðsson (1939–1953).
Tímabil það sem Sigurgeir biskup Sigurðsson þjónaði einkenndist af stórtækum breytingum.
Stríðsárunum fylgdu nýjar hugmyndir og straumar.
Sigurgeir var mótaður af frjálsyndu guðfræðinni og varð fyrir miklum áhrifum manna eins og dr. Haraldar Níelssonar.
Á þeim árum sem hann þjónaði sem prestur á Ísafirði var hann virkur í samfélaginu og sem biskup beitti hann sér fyrir æskulýðsstarfi.
Það var meðal annars fyrir hans frumkvæði sem Nessókn var sett á laggirnar árið 1940.
Þann 30. september flytur dr. Skúli S. Ólafsson erindið:
Íslenskir biskupar á 20. öld:
Ásmundur Guðmundsson (1953–1959).
Þótt Ásmundur biskup Guðmundsson hafi setið skemur á biskupsstóli en forverar hans, eru áhrif hans á kirkju og trúarlíf mikil.
Hann var afkastamikill höfundur og ritskýrandi.
Þann 7. október flytur Már Jónsson erindið:
Bókelskir bændur í Mýrdal um 1830.
Fýlaveiðar í Mýrdal á fyrri hluta 19. aldar.
Fýll er nú annar fjölmennasti fugl á Íslandi á eftir lunda og hvergi fjölmennari með ríflega eina milljón para, en telst samt sem áður í útrýmingarhættu vegna mikillar fækkunar allra síðustu árin.
Þessi geðþekki en þó svolítið ógnvekjandi fugl vegna hættu á lýsisspýju var sjaldgæfur hér við land á öldum áður nefndist fúlmár í Hallfreðar sögu vandræðaskálds og fýlungur í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu.
Fram undir miðja 18. öld varp fýll einungis í Grímsey og líkast til Kolbeinsey en tók þá að breiða úr sér, fyrst til Vestmannaeyja og þaðan yfir í Eyjafjöll og Mýrdal.
Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur fluttist í Vík í Mýrdal vorið 1809 og eftir dagbókum hans og veðurbókum má rekja upphaf og þróun fýlaveiða á þeim slóðum – og verður það gert í erindinu.
Þann 14. október flytur sr. Pétrína Möll Jóhannesdóttir erindið:
Ráð fyrir lífið.
Pétrína gaf nýverið út bók með hugleiðingum út frá Biblíuversum.
Hér kynnir hún bókina og gefur okkur góð ráð.
Þann 21. október flytur dr. Haraldur Hreinsson erindið:
Íslenskir biskupar á 20. öld: dr. Sigurbjörn Einarsson (1959– 1981)
Um áratugaskeið var Sigurbjörn Einarsson (1911-2008) áhrifamaður í íslensku samfélagi.
Hann var biskup yfir Íslandi í 22 ár og þar áður prófessor og prestur sem lét til sín taka í þjóðmálaumræðunni.
Einkum þegar líða tók á biskupstíð hans og eftir að henni lauk naut hann virðingar og vinsælda sem nærtækt er að lýsa með hugtakinu karisma eða sem náðarvaldi.
Erindinu er ætlað að varpa ljósi á þennan þátt í ferli Sigurbjörns Einarssonar og greina áhrif hans á söguritun um kristni á á Íslandi á 20. öld.
Þann 28. október flytur Ástbjörn Egilsson erindið:
Kinverska undraleikfimin Quigong.
Ástbjörn segir frá þessari líkamsrækt og fer með okkur í gegnum æfingarnar.
Þann 4. nóvember flytur sr.Hreinn Hákonarson erindið:
Listaspjall: Til hvers eru altaristöflur?
Hvaða hlutverki gegna steindir gluggar í kirkjum?
Stefnumót myndlistar og trúar hafa leitt af sér margvíslegar víddir.
Hreinn leggur stund á meistaranámi í listasögu og í erindi sínu fjallar hann um trúarlega myndlist.
Þann 11. nóvember flytja Rúnar Reynisson og Sigríður Haraldsdóttir erindið:
Ísland þverað.
Þau Rúnar og Sigríður hafa nú lokið göngu frá Reykjanestá og austur á Langanes og þar með gengið lengstu leiðina yfir eyjuna okkar.
Þau segja frá því sem þeim fannst markvert úr þessum merkilega leiðangri.
Þann 18. nóvember flytur sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir erindið:
Skírnin á breytingaskeiði.
Norrænar rannsóknir á sviði skírnarinnar leiða í ljós umtalsverðar breytingar á þessu sviði.
Steinunn ræðir þessi mál og setur í samhengi breytinga á sviði samfélagsmála og menningar.
Þann 25. nóvember flytur Áslaug Gunnarsdóttir tónlist á Krossgötum.
Þann 2. desember flytur Guðbjörn Sigurmundsson erindið:
Trúarleg stef í ljóðum Snorra Hjartarson.
Ljóð Snorra Hjartarsonar eru okkur að góðu kunn en Steingrímur Þórhallsson organisti hefur samið kórverk við tólf ljóða hans.
Hér ræðir Guðbjörn trúarleg stef í ljóðum þessa skálds og hvernig hann fléttar hið andlega saman við náttúru og tilvist manneskjunnar.
Þann 9. desember verður ferðalag sem verður nánar kynnt þegar nær dregur.
slg